<$BlogRSDURL$>

Monday, January 09, 2006

Orðrétt
Í dag verða haldnir miklir tónleikar og ætlað að lýsa andúð tónleikahaldara á virkjunum. Það hlýtur að mega treysta því að tónleikarnir verði órafmagnaðir.

Viðskiptablaðinu í gær er birt leiðrétting á grein úr þarsíðasta blaði. Sú grein hafði einhverra hluta vegna nefnst „Alvöru líkamsrækt fyrir alvöru fólk“ og þá væntanlega til aðgreiningar frá gervilíkamsrækt sem platfólk stundar. Jæja, leiðréttingin hljómaði svona og um mikilvægi hennar eru vandfundin nægilega áhrifamikil orð: „Í grein Viðskiptablaðsins „Alvöru líkamsrækt fyrir alvöru fólk“ sem birtist á miðvikudaginn síðastliðinn voru nokkrar staðreyndavillur. Í fyrsta lagi heitir einn af þjálfurum Bootcamp Evert en ekki Everett. Í öðru lagi er nýtt Íslandsmet í Þrekmeistaranum 12 mínútur og 39 sekúndur en ekki 13 mínútur og 7 sekúndur. Heimsmetið er ekki 12 mínútur og 34 sekúndur heldur í kringum 12 mínútur. Það er ekki rétt að búið sé að koma upp útibúi Bootcamp á Akureyri heldur eru viðræður í gangi um útibú þar ásamt Akranesi og Keflavík. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.“

Beðist velvirðingar! Beðist velvirðingar! Halda menn bara að það sé hægt að slá því fram að heimsmetið í Þrekmeistaranum sé 12 mínútur og 34 sekúndur þegar það er í raun í kringum 12 mínútur? Koma svo bara seinna og segja afsakið. Og þá sé bara allt í lagi. Hvað með þær þúsundir sem auðvitað hafa lesið greinina „Alvöru líkamsrækt fyrir alvöru fólk“ og hafa síðan gengið um bæinn og fullyrt í allar áttir að heimsmetið sé tólf þrjátíuogfjórar? Svo reynist heimsmetið vera nákvæmlega í kringum tólf. Hvorki sekúndu skemmra né lengra. Þetta fólk er núna brennimerkt og allt út á fúsk. Og hvað með alla þá Akureyringa sem eru búnir að fara í Bootcamp-útibúið og biðja um Everett? Sumir þegar byrjaðir að æfa hjá honum í von um að komast undir þrettán og sjö og setja Íslandsmet. Svo reynist maðurinn heita Evert og útibúið er ekki til.

Á baksíðu Viðskiptablaðsins er svo sagt frá því að umhverfisráðuneytið og veðurstofan hafi gert með sér árangursstjórnunarsamning. Það var aldeilis kominn tími til.
-Vef-þjóðviljinn þann 7. janúar 2006

This page is powered by Blogger. Isn't yours?