<$BlogRSDURL$>

Friday, February 24, 2006

Munnmælasögur#43
Uss hvað er langt síðan að góð munnmælasaga hefur verið látin gossa á þessu annars skemmtilega bloggi. Þessi gerist sumarið 2004 og segir af manni sem Einar bróðir kallar Flemming Jensen smið frá Danmörku. Góða skemmtun.

Orri frá Hjalli ákvað að ljá sveitarfélagi Grundafjarðar starfskrafta sína sumarið 2004. Orri er eftirlitsmaður af lífi og sál og hefur afskaplega næmt auga fyrir því sem miður fer. Hann tók sér stöðu við skrifborð á bæjarskrifstofunni og fylgdist gaumgæfilega með öllum framkvæmdum í bænum, stórum sem smáum. Er Orri var nýkominn til starfa þurfti hann að vera viðstaddur fund út af einhverju verki. Var honum boðið að rita fundargerð og þáði hann það án þess að hugsa sig um, þó svo að fundargerð hefði hann aldrei ritað á ævinni. Sagðist bara vera vanur maður eins og Þór og Danni hér forðum. Orra leiðist einhver ósköp á þessum fundi, missir fljótlega þráðinn og lætur hugann reika. Rætt var um verkið í rúman klukkutíma og Orri skilar af sér þykkri og ítarlegri fundargerð. Síðar kom upp úr krafsinu að fundargerðin snérist bara akkúrat ekkert um þá umræðu sem átt hafði sér stað um verkið, enda hafði kappinn takmarkaðann áhuga á því. Hann hafði því bara skrifað einhver reiðinnar bísn um litina á veggjunum og meðlætið með kaffinu. Einhverjum ævintýrum hefur hann sennilega fléttað inn í fundargerðina til þess að lengja hana. Þessi fundargerð er vægast sagt fræg í Grundarfirði en lesið er upp úr henni árlega þegar bæjarbúar blóta þorra. Einn af fyrrum vinnufélögum Orra geymir hana á náttborðinu hjá sér og gluggar í hana fyrir svefninn, enda ekki amalegt að sofna út frá ævintýrum Rauðhettu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?