<$BlogRSDURL$>

Wednesday, March 22, 2006

Munnmælasögur#45
Maður er nefndur Halli Mello og er trúbador og leiklistarnemi. Þessi geðþekki Skagamaður er haldinn ólæknandi fóbíu fyrir tannlæknaheimsóknum. Þetta vandamál er ekki óalgengt og því hafa forsjálir tannlæknar komið sér upp hjálpartækjum til þess að róa þá viðskiptavini sína sem líður hvað verst. Eitt sinn þegar Halli varð að komast til tannlæknis þá tjáði hann tannlækni sínum frá vandanum. Hún sagðist vera vön slíkum málum og lét hann hafa þessar fínu kæruleysispillur sem hann átti að taka hálftíma fyrir aðgerðina. Þar sem Halli var viss um að fóbía sín væri meiri en gengur og gerist, þá tók hann tvær svona til öryggis, þó svo fagmaðurinn hafi sagt honum að taka bara eina. Þegar frá líður er Halli farinn að ganga um golf, kófsveittur af stressi því töflurnar höfðu akkúrat engin áhrif, að honum fannst. Hann skellti því þeirri þriðju í sig, svona til þess að hafa vaðið fyrir neðan sig. Hér er rétt að skjóta því inn að Halli Mello er ekki óreglumaður eða mikill pillugleypir. Skemmst er frá því að segja að hann man ekki eftir þessari tannlæknaferð. Þegar hann ráfaði fram úr tannlæknastólnum bannaði ritarinn honum að keyra heim og hringdi í konuna hans og lét sækja manninn.
Passið ykkur á myrkrinu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?