<$BlogRSDURL$>

Thursday, March 09, 2006

Skapar fegurðin hamingjuna?
Það er kunnara en frá þurfi að segja að síðuhaldari hlaut glæsilega kosningu sem "Herra skólans" á sal Grunnskóla Bolungarvíkur vorið 1992. Þótti síðuhaldari vel að titlinum kominn en kjósendur höfðu sætt færis og greitt honum atkvæði sín eftir að Raggi rúsína var útskrifaður. Úngfrú skólans var Una frænka mín sem síðar lagði allt í sölurnar og keppti í Ungfrú Vestfirðir. Ástæða þess að þetta er nú allt saman rifjað upp á þessari virðulega bloggsíðu er sú að á undanförnum dögum skóku tvær fréttir Vestfjarðakjálkann. Sú fyrri er sú staðreynd að ekki verður keppt í fegurð á meðal vestfirskra kvenna þetta vorið. Í beinu framhaldi kom svo frétt þess efnis að bb.is ætli að standa fyrir vali á þeim vestfirðingum sem þykja standa öðrum framar í kynþokka. Ekki veit ég hver ástæðan er fyrir því að Fegurðarsamkeppnin hefur verið lögð niður en líklega þykir vestfirskum konum þetta vera full hallærislegt fyrir sinn smekk. Hvort fólki þyki kynþokkavalið vera heppilegra veit ég ekki en kalt mat síðuhaldara er að hann og Una hljóti að vera þar sigurstrangleg vegna fyrri afreka. Það fréttist meira að segja af Unu í ræktinni á dögunum þannig að líklega ætlar hún sér stóra hluti. Nú þýðir hins vegar ekkert fyrir síðuhaldara að bíða eftir því að Raggi rúsína útskrifist, og það gæti því orðið við rammann reip að draga.
Passið ykkur á myrkrinu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?