<$BlogRSDURL$>

Saturday, July 08, 2006

Munnmælasögur#48
Í tilefni af langþráðum sigri á Svíum í júní þá er við hæfi að skella inn gamalli sögu af því hvers vegna sænska skyttan Staffan Olsson fékk viðurnafnið Faxi hjá Íslendingum:

Sigurður Sveinsson er ekki bara þekktur fyrir að vera frændi Rúnars Geirs vinar míns því hann var einnig í landsliðinu í handbolta í áraraðir. Á Bogdan tímabilinu var hlutverk Sigga einkum að sitja á bekknum og segja brandara, nema eitthvað stórkostlegt kæmi fyrir Kristján Arason, sem var bestur í þessari stöðu í heiminum um tíma. Þegar Bogdan var með liðið voru Svíar að pússla saman því liði sem krækti í Heimsmeistaratitil árið 1990 og varð að gullaldarliði. Þegar þær hetjur; Staffan, Vislander, Mats Olsson, Carlen, Haajas og fleiri voru ungir og hæverskir menn, komu þeir til landsins og léku æfingaleiki. Siggi hóf sinn atvinnumannaferil í Svíþjóð og kannaðist aðeins við þá. Þegar Staffan hljóp fram hjá varamannabekk Íslands gerði Siggi aldrei annað en hneggja. Eftir leikinn var boð með "léttum veitingum" þar sem leikmenn og blaðamenn voru mættir. Í boðum sem þessum náði móralskt hlutverk Sigga Sveins hámarki og var hann með klukkutíma skemmtidagskrá sem innihélt töfrabrögð og fleira. Siggi var rétt nýbúinn með prógrammið þegar sænsku leikmennirnir mættu á svæðið og fór hann aftur með rulluna og nú á sænsku. Inn á milli tók hann utan um Staffan og hneggjaði ógurlega. Svíarnir létu fremur lítið fyrir sér fara og störðu á manninn eins og naut á nývirki en enginn hló þó eins mikið að þessu og Staffan Faxi Olsson.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?