<$BlogRSDURL$>

Monday, July 31, 2006

Síðuhaldarí í gettóinu
Síðuhaldari býr nú í gettóinu. Ekki það að hann hafi flutt sig um set frá KR-vellinum heldur er ástæðan önnur. Fyrir um margt löngu var hafist handa við að rífa niður Lýsisbygginguna sem stendur á móti blokk síðuhaldara. Hefur verkið gengið vægast sagt hægt og nú er eins og verkið hafi stoppað í miðjum klíðum, er það reyndar ekki í fyrsta skipti sem það gerist. Til stendur að byggja þarna þjónustuíbúðir fyrir eldri borgara meðal annars og myndi verkið ekki ganga hægar þó verðandi íbúum yrðu fengnar sleggjur í hönd og beðnir um að klára málið. Karl faðir minn reyndi nú að benda þeim á fyrir löngu síðan að ef þeir byrjuðu neðst á húsinu þá myndi það hrynja ofan á þá. Þegar hann hugðist vara þá við þessu mætti honum sannkallað skilningsleysi því enginn íslenskumælandi fannst í hópnum.

Nú er staðan sú að húsið hefur verið rifið að hluta til og eftir standa Beirútskar rústir sem vinsælar eru á meðal útigangsmanna og hassreykingastundara. Ýmsir frístandandi listamenn hafa tekið sig til og spreyjað og krotað á þá veggi sem eftir standa. Næmt auga síðuhaldara greindi um daginn að á vegginn hafði verið spreyjað KFC. Það er nú orðið helvíti hart þegar Helgi í Góu er farinn að hlaupa um Vesturbæinn með spreybrúsa.

Þetta er Kristján Jónsson sem skrifar úr Hádegismóum.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?