<$BlogRSDURL$>

Tuesday, August 22, 2006

Allir kunna textann!
Verndari Bloggs fólksins vakti athygli mína á spaugilegu viðtali í hinu virta fréttablaði Fréttablaðinu. Þar var rætt við mann að nafni Helgi Valur Ásgeirsson og titlar hann sig trúbador. Þar segir þessi metnaðarfulli trúbador orðrétt: "Ég hef spilað mikið í partýum og þegar ég ætla að trylla gesti tek ég lagið Gin and Juice með Snoop Doog. Það er svo gaman að taka það því það kunna allir textann..."

Ekki efast síðuhaldari um það eitt andarblik að gestirnir tryllast þegar maðurinn spilar þetta lag óumbeðinn og ótilneyddur. Til dæmis hugsa ég að þessi maður yrði frá að hverfa í partýi á Traðarstígnum með svona hegðun. Hin fullyrðing hans um að allir kunni textann vefst hins vegar meira fyrir mér. Dettur mér strax einn maður í hug sem er nátengdur mér sem aldrei hefur heyrt minnst á Snoop Doog og hvað þá þetta lag sem mig minnir að ég hafi heyrt í endurgerð myndarinnar "Heaven can wait".

Verndari Bloggs fólksins kallar þennan Snoop Doog hinu skemmtilega íslenska nafni Snoppu Hvutti, og hvet ég alla íslenska fjölmiðla til þess að taka þessa þýðingu upp hið snarasta ef vilji er fyrir því að fjalla um þennan mann á annað borð. Verndarinn hefur reyndað verið nokkuð naskur á liprar þýðingar í tónlistarbransanum því hann snaraði Frankie goes to Hollywood slagaranum "Welcome to the pleasuredome" yfir á íslensku á sínum tíma. Hét það þá að sjálfsögðu: "Velkomin í Blesugróf" !!!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?