<$BlogRSDURL$>

Wednesday, August 16, 2006

Munnmælasögur#50
Þá er komið að sérstakri afmælisútgáfu í munnmælasögum og verður hér birt klassísk saga sem Hlynur Þór Magnússon rifjaði upp í viðtali við Ásgeir Þór Jónsson í héraðsfréttablaðinu Bæjarins Besta fyrir nokkrum árum síðan. Sagan er af Vestfirskum Gleðipinnum og gerðist á námsárum þeirra í Menntaskólanum á Ísafirði en ekki er víst að þeir kæri sig um hversu langt er síðan. Ég hafði nú ætlað mér að nota orðalag Hlyns en finn bara ekki blaðið í augnablikinu og því verður minniskubburinn að duga. Eru lesendur beðnir um að taka viljann fyrir verkið.

Á þeim tíma stóð sláturhús Kaupfélagsins á Ísafirði í niðurníslu og þótti mörgum þetta hálfgert lýti á bænum en húsið blasti við menntskælingum og öðrum sem stunduðu rúntinn. Húsið var algerlega ómerkt sem var nokkuð á skjön við venjur sambandsmafíunnar þar sem merki fyrirtækisins var jafnan áberandi. Eitt sinn þegar nokkrir Gleðipinnanna voru á rúntinum fengu þeir þá snilldarhugmynd að merkja húsið og vekja í leiðinni athygli á því hver bæri ábyrgð á þessu ljóta húsi. Ekki er talið að þeir sem þarna voru á ferðinni hafi verið neinir sérstakir aðdáendur samvinnuhreyfingarinnar en í blaðinu voru þeir Ásgeir Þór, Addi Árna, Jakob Falur, Jón Áki og HáEmm sérstaklega nefndir til sögunnar sem höfuðpaurar (HáEmm hefur reyndar neitað statt og stöðugt að eiga aðild að málinu). Einn morguninn þegar fólk var mætt til vinnu hafði húsið verið merkt á vægast sagt áberandi hátt. Var búið að skella Kaupfélagsmerkinu á húsið og undir merkinu var málað: "Sláturhús Kaupfélags Ísfirðinga. Sómi þess, sverð og skjöldur." Stjórnendur Kaupfélagsins brugðust afar skjótt við þessari óvæntu breytingu á húsinu og komu því snarlega í fyrra horf en þá höfðu hins vegar margir bæjarbúar borið þetta augum og haft gaman af. Sambandsmafían hafði hins vegar takmarkaðan húmor fyrir þessu og gerði þetta að lögreglumáli. Ekki er talið að þeim hafi runnið reiðin við að Vestfirska fréttablaðinu hafi fyrir einhverja tilviljun borist mynd af merkingunni. Var hún vitaskuld birt í blaðinu. Þetta æsilega sakamál komst ekki upp fyrr en því var ljóstrað upp í BB einhverjum fimmtán árum síðar og fyrning saka orðin staðreynd.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?