<$BlogRSDURL$>

Saturday, September 02, 2006

Munnmælasögur#51
Einar Þór Jónsson er annar af uppáhaldsbræðrum mínum. Hann er vel sigldur maður þrátt fyrir ungan aldur og næsta munnmælasaga átti sér stað á ferðum hans um heiminn.

"Einar var eitt sinn að spóka sig á söguslóðum í Aþenu. Hafði hann allan daginn fyrir sér og ætlaði sér að sjá eitt og annað í rólegheitunum í þessari merkilegu borg. Ung kona vindur sér skyndilega upp að honum og gefur sig á tal við hann eins og konur gera jafnan þegar Einar er annars vegar. Var hún hin viðkunnalegasta og Einar nýtti tækifærið og spurði hana um hina og þessa staði þar sem hún var nú innfædd. Fór það svo að hún þvældist með hann um borgina og sýndi honum athyglisverða staði og stiklaði á stóru í sögu borgarinnar. Einari fannst þetta fallega gert af henni en svo sem ekkert ótrúlegt því sjálfsagt hefði hann gert slíkt hið sama ef grískur ferðamaður hefði verið að þvælast í Bolungarvík. Þegar farið var að rökkva og þau búinn að eiga saman eftirminnilegan dag, fer viðmót konunnar nokkuð að breytast. Verður hún smám saman órólegri og aðgangsharðari við ferðamanninn sem varð fremur hvummsa. Á endanum kemur hún sér beint að efninu og spyr hvort Einar ætli ekki að fara að vinda sér í hennar aðalþjónustu og borga henni í kjölfarið svo hún gæti haldið vinnunni áfram. Var þá þarna á ferðinni starfskona í elstu atvinnugrein mannkynssögunnar og hafði innsæi hennar geigað þarna örlítið. Varð sú gríska víst ekki parhrifinn þegar Einar útskýrði fyrir henni að hann hneigðist til sama kyns en þakkaði henni pent fyrir skemmtilega kynningu á heimahögunum."

This page is powered by Blogger. Isn't yours?