<$BlogRSDURL$>

Wednesday, November 29, 2006

Orðrétt
"Sterkur orðrómur er um að innan skamms hefjist tökur á nýjum íslenskum raunveruleikasjónvarpsþætti. Þátturinn nefnist “Survivor: Bolungarvík” og munu þar 20 þekktar miðbæjarrottur glíma við erfiðasta verkefni lífs síns – búsetu í krummaskuði. Stjórnandi þáttanna er sjálfur Dr. Gunni og verða þátttakendur í “Survivor: Bolungarvík” kynntir til sögunnar á síðum Fréttablaðsins áður en langt um líður. Þá hefur kyntröllið og tískulöggan Trausti 200 verið fenginn til að gefa álit sitt á væntanlegum þátttakendum.

Sagan segir að miðbæjarrotturnar muni dveljast í “brjáluðu blokkinni” meðan á tökum stendur og verður verkefni þeirra í þáttunum m.a. að koma sér í mannsæmandi vinnu og aðlagast hinum afskekkta bolvíska þjóðflokki. Vikulega munu áhorfendur fá að senda einn þátttakanda heim á malbikið en sú miðbæjarrotta sem lifir lengst af í fámenninu, fábreyttninni og doðanum fær sérstök verðlaun frá Samtökum landsbyggðarandstæðinga. Miðbæjarrotturnar eru farnar að undirbúa sig undir förina í villta vestrið og hafa nokkrar þeirra m.a. sést taka strætó upp í Grafarvog til að komast í snertingu við lífið á landsbyggðinni. Einn þátttakandi hefur látið hafa það eftir sér að helst af öllu óttist hann af fá ekki hamborgara í Bolungarvík. Annar þátttakandi segist hafa lesið í Fréttablaðinu að það sé hættulegt að ferðast til Bolungarvíkur því þar sé furðufuglaflensa að ganga og að þar sé auðveldlega hægt að smitast af heilabilun.

Ekki er ljóst á hvaða sjónvarpsstöð “Survivor: Bolungarvík” verður tekinn til sýninga en orðið á götunni er að þessa stundina sé slegist um sýningaréttinn og er talað um að til samanburðar sé enski boltinn á góðu verði."
-Baldur Smári Einarsson viðskiptafræðingur á bloggi sínu í gær.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?