<$BlogRSDURL$>

Wednesday, January 03, 2007

Gleðilegt árið
og takk fyrir það liðna. Í stuttu máli má segja að margt hafi gerst á liðnu ári og einnig má spá því að margt muni gerast á nýju ári. En ætli ekki sé best að birta brot úr áramótaannáli Vef-þjóðviljans til þess að rifja upp það athyglisverðasta á árinu 2006:

Endurskoðandi ársins: Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og stjórnarformaður Strætós, gaf rangar upplýsingar um fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Hún vildi nefnilega „ekki eyðileggja jákvæða umfjöllun með neikvæðri umræðu um fjárhagsstöðu fyrirtækisins.“

Kynningarlag ársins: Flugleiðir hvöttu fólk óspart til ferðalaga með skemmtilegri sjónvarpsauglýsingu. Í bakgrunni hennar söng Pálmi Gunnarsson hið sígilda lag, Hvers vegna varstu ekki kyrr?

Dulargerfi ársins: Eins og margir frægir menn, gerir Göran Persson allt sem hann getur til að halda einkalífi sínu utan við sviðsljósið. Þannig fer hann aldrei á íþróttaleiki nema dulbúinn sem Júlíus Hafstein. Árvökulir blaðamenn Fréttablaðsins létu þó ekki blekkjast.

Þyrlupallur ársins: Stöð 2 lét þyrlu lenda ofan á þjóðargrafreitnum á Þingvöllum, til að spara sér tíma þegar haldinn var blaðamannafundur í þjóðgarðinum.

Samningur ársins: Umhverfisráðuneytið og veðurstofan gerðu með sér „árangursstjórnarsamning“. Þó fyrr hefði verið.

Staðalfélag ársins: Talsmaður Femínistafélags Íslands sagði að félag sitt hefði frá upphafi ákveðið að það hefði ekki aðeins merki, heldur lit. Bleikan lit nánar tiltekið, því bleikur væri litur stelpna en blár litur stráka. Megintilgangur félagsins er að berjast gegn „staðalímyndum“.

Klofningur ársins: Samfylkingin hristi af sér hlekkina og gekk úr Valdimari Leó Friðrikssyni. Hún mun stefna á sérframboð gegn honum næsta vor.

Ánægja ársins: Valdimar Gunnarsson íslenskukennari við Menntaskólann á Akureyri var í kvöldfréttum Stöðvar 2 spurður álits á væntanlegri brottför varnarliðsins. Íslenskukennarinn sagðist vera afskaplega ánægður og bætti við: „Nú hlakkar mig til prófa.“

Talning ársins: Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis stóð fyrir mikilli auglýsingaherferð. Hún hófst auðvitað á orðunum: „Aldamótin 2000 mörkuðu ekki heimsendi eins og sumir héldu heldur nýtt upphaf. Á þeim sjö árum sem liðin eru...“.

Leiðbeiningar ársins: Kastljós Ríkissjónvarpsins bauð upp á vandaða fræðslu um skyndihjálp sem beita skal „ef maður kemur að einhverjum sem hefur drukknað“. Kom fram hjá umsjónarmanni að sá sem kæmi „að manneskju sem hefur drukknað“ yrði að „bregðast hratt og rétt við“. Ekkert var hins vegar sagt um hvort nokkuð lægi á skjótum viðbrögðum þegar komið væri að manni sem einungis væri nálægt því að drukkna en ætti sér enn lífs von.

Arftaki ársins: Árni Magnússon sagði að stjórnmál væru „heillandi fyrir þá sem eru tilbúnir til þess að gefa sig í þau af fullum krafti“. Það væri hann hins vegar ekki lengur og viki því fyrir framtíðarmanni sem væri „fullur eldmóði“ og myndi gefa sig allan í baráttuna. Við starfi hans tók villingurinn úr heilbrigðisráðuneytinu, Jón Kristjánsson.

Leynivopn ársins: Landsbanki Íslands ákvað að beita nýrri aðferð, áður óþekktri hjá íslensku viðskiptabönkunum, og gekk undir sama nafni allt árið.

Oddviti ársins: Dagur B. Eggertsson, sem á síðasta ári lýsti því yfir að ef R-listinn myndi ekki bjóða fram til borgarstjórnar þá myndi hann sjálfur ekki gera það heldur, og sem lýsti því jafnframt yfir að hann myndi ekki ganga í Samfylkinguna, leiðir nú Samfylkinguna í nýrri borgarstjórn.

Kvenstaða ársins: Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri missti af oddvitasæti Samfylkingarinnar en ungur karlmaður náði því. Ríkissjónvarpið sagði frá úrslitunum en minntist ekki orði á það að þar hefðu „konur“ misst spón úr aski sínum. Í sama fréttatíma var hins vegar þrívegis tekið fram, að konur væru „ekki nema“ svo og svo hátt hlutfall af efstu mönnum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Ísafirði sem fram hafði farið daginn áður.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?