<$BlogRSDURL$>

Friday, February 02, 2007

Orðrétt
"Síendurtekið efni er gamla klisjan um meint yfirráð Sjálfstæðisflokksins yfir Ríkisútvarpinu og öllu sem þar heyrist og sést og fer fram. En í hverju felast þau yfirráð? Hvað er útvarp annað en fólkið sem starfar þar og við heyrum í dags daglega? Ég minnist spjallþáttar sem ég hlustaði á fyrir fáeinum misserum. Þar voru nokkrir eindregnir andstæðingar ríkisstjórnarinnar að venju samankomnir fyrir hádegi á laugardegi til að ræða landsins gagn og nauðsynjar en þó einkum ógagn og ónauðsynjar. Talið barst að Ríkisútvarpinu og einn kjaftajötnanna nefnir að nú sé svo komið að það þurfi flokksskírteini í Sjálfstæðisflokknum til að fá þar inni. Allir viðstaddir flissuðu samþykkjandi að þessum almæltu sannindum, þar hittirðu nú aldeilis naglann á höfuðið...
En ég, saklaus hlustandinn heima, sagði við sjálfan mig: Ja, ljótt er að heyra, en er þetta virkilega svona? Ég hlustaði og hlusta enn mikið á Rás eitt og fór að hugsa: Í hverjum heyrist í útvarpinu? Hverjir ERU Rás eitt? Á þeim tíma reyndust það eftir stutta minnisleit einkum vera eftirtaldir, allt saman frábærir, lifandi og áhugasamir útvarpsmenn: Ævar Kjartansson, Arthúr Björgvin Bollason, Jórunn Sigurðardóttir, Þröstur Haraldsson, Anna Kristín Jónsdóttir, Leifur Hauksson, Eiríkur Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Jón Ásgeir Sigurðsson, Gunnar Gunnarsson, Friðrik Páll Jónsson, Steinunn Harðardóttir, Una Margrét Jónsdóttir...Ég man að mér þóttu það óvænt og váleg tíðindi að allt þetta ágæta fólk skyldi vera gengið í Sjálfstæðisflokkinn."
- Þórarinn Eldjárn skáld á bloggsíðu sinni 18. janúar 2007.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?