<$BlogRSDURL$>

Wednesday, April 04, 2007

Munnmælasögur#60
Maður er nefndur Viktor Hólm Jónmundsson og er fermingarbróðir síðuhaldara. Viktor er reyndar aukaleikari í sögunni þó skemmtilegur sé. Viktor var um tíma einn dáðasti sveitaballarótari landsins en þegar meiri ró færðist yfir hann fór hann að taka að sér rólegri tónleikagigg. Á einhverju tímabili var hann bandinu Nýrri danskri innan handar og er saga númer 60 gerðist, stóðu tónleikar í Þjóðleikhúskjallaranum fyrir dyrum. Þá var ungur frændi hans, Aron Þórarinsson, staddur í bænum og taldi Viktor að stráksi myndi hafa gaman að því að hanga utan í sér um kvöldið. Fara þeir frændur út í bæ og sækja Björn Jörund Friðbjörnsson, bassaleika bandsins, sem getur verið mikill húmoristi þegar vel liggur á honum. Hann fer fljótlega að spjalla við Aron og innir Björn hann eftir því hvað hann sé að vinna við. ,,Ég er að beita" svarar Aron. Björn þagði um stund og vissi ekki alveg hvernig hann ætti að haga næstu spurningu en lét ekki slá sig út af laginu: ,,Og hvernig gengur það?" spyr Björn. ,,Ja ég er kominn í sjö bala á dag" svarar Aron stoltur. Aftur þegir Björn í smástund en sýnir engin svipbrigði. Að svo búnu spyr hann: ,,Það mætti þá segja að þú sért alveg sjö bala maður?" Á þessum tímapunkti fór Viktori að verða verulega skemmt yfir þessu forvitnilega spjalli.

Næst segir frá þremmenningunum þegar þeir þramma inn í leikhúskjallarann. Þar hitta þeir fyrir hljómborðsleikarann Jón Góða Ólafsson. ,,Hver ert þú?" spyr hann Aron. Björn er hins vegar fyrstur til svars og segir ákveðið: ,,Þetta er sjö bala maðurinn !!" Jón verður á svipinn eins og hann hafi séð gönguskíðamann í Sahara og kom ekki upp orði. Björn bætir þá við: ,,Hann er að beita maður!" Jón hugsar sig um góða stund en segir svo: ,,Beita??? Bjössi, ég er frá Reykjavík."

This page is powered by Blogger. Isn't yours?