<$BlogRSDURL$>

Friday, April 27, 2007

Orðrétt
"Vinstri græn hafa farið í dálítið fár vegna málflutnings Margrétar Pálu Ólafsdóttur sem segir að einkarekstur í opinbera kerfinu geti verið konum til hagsbóta, eflt áhrif þeirra og völd. Sköruleg orð Magrétar í síðasta Silfri hafa vakið mikla athygli. Vinstri græn hafa átt erfitt með að svara þessu, Margrét Pála var jú eitt sinn í Alþýðubandalaginu og svo er eins líklegt að þeir sem styðja VG sendi börn sín einmitt í Hjallastefnuskólana. En eftir nokkra daga dúkkuðu Vinstri græn upp með grein eftir konu sem nefnist Berglind Rós Magnúsdóttir. Þar rekur hún ókosti einkareksturs í bandarísku miðvesturríkjunum - Colorado og Arizona. Bæði Guðfríður Lilja og Ögmundur tóku þessa grein upp á arma sína og vitnuðu óspart í hana. Maður gæti auðvitað fundið ýmis dæmi um ókosti ríkisrekstrar á móti - til dæmis munaðarleysingjahæli í Rúmeníu.

En væri ekki betra að tala um einkarekstur sem er nær okkur? Til dæmis Svía sem beita einkarekstri í miklum mæli í heilbrigðiskerfinu - sósíaldemókratana, höfunda hins norræna módels, sem sáu raun ekki aðra leið færa, sökum þess hvað heilbrigðiskerfið var orðið kostnaðarsamt og óskilvirkt, biðlistar langir og þjónustan ekki nógu góð. Eða bara skoða Hjallastefnu Margrétar Pálu, hina vinsælu leik- og barnaskóla sem hún rekur þar sem komast færri að en vilja; öldrunarheimilið Sóltún sem er hið eftirsóttasta í borginni; Orkuhúsið sem er sérhæfð þjónustumiðstöð fyrir þá sem stríða við stoðkerfisvandamál, raunverulegur hátæknispítali; eða einkareknu heilsugæslustöðina í Salahverfi sem þykir sú besta á höfuðborgarsvæðinu. Reynslan af einkarekstri í íslenska mennta- og heilbrigðiskerfinu er nefnilega ansi góð. Ættu ekki Vinstri græn sem trúa því að smátt sé fallegt að vera andsnúin miðstýringu? Varla er það hugsjón að allt sé í höndum opinberra embættismanna, yfirleitt kerfiskarla? Annars mun Hjallastefnan loksins vera á leiðinni inn í Reykjavík með barnaskóla. Gamli R-listinn vildi ekki sjá hana, enda fjandskapaðist hann út í sjálfstæðu skólana í borginni - gerði allt sem í hans valdi stóð til að þrengja að Ísaksskóla og Landakotsskóla."

- Egill Helgason sjónvarpsmaður og wannabe síðuhaldari á visi.is þann 7. apríl.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?