<$BlogRSDURL$>

Friday, May 11, 2007

Landsbankadeildin 2007
Þá er komið að hinni árlegu spá fyrir Landsbankadeildina í boltasparki sem svo mjög hefur verið kallað eftir af lesendum. Hún lítur þannig út í ár ásamt laufléttum rökstuðningi sem er engan veginn tæmandi:

1. FH
2. KR
3. Valur
4. Keflavík
5. ÍA
6. Fylkir
7. Víkingur
8. HK
9. Breiðablik
10. Fram

FH-ingar hafa unnið sannfærandi þrjú ár í röð og gera það einnig í ár. Þeir hafa meira að segja styrkt sig. Arnar og Bjarki eru heilir og liðið er bara mjög þétt. Andstæðingar þeirra hafa ekki enn fundið svör við 4-3-3 leikaðferð Hafnfirðinga. KR-ingar hafa fengið til sín sterka menn eins og Pétur Marteins sem verður mikill styrkur og Óskar Örn Hauksson er skemmilegur leikmaður. Einnig yrðu magnað að sjá Rúnar koma heim. Mótið er bara of stutt til þess að KR nái að pússla öllum þessum breytingum saman í tæka tíð. Valsmenn eru með þétt lið. Hafa góða breidd og verjast vel. Spurning hvort Helgi Sig sé peninganna virði. Keflvíkingar voru skemmtilegastir í fyrra og verða vonandi skemmtilegir áfram. Eru þó ekki meistaraefni. Skagamenn eru algert spurningamerki. Guðjón kann að láta lið sín pakka og vinna 1:0. Skagaliðið verður sennilega ekki skemmtilegt á að horfa en mun hala inn stígin jafnt og þétt. Þórður Guðjóns þarf að gera meira en í fyrra. Fylkir er einnig svolítið spurningamerki. Pressan sem var á þessu liði er ekki lengur til staðar sem gæti hjálpað. Sniðugir að næla í Gravesen sem var góður í fyrra. Gengið mun velta á reyndari mönnum liðsins eins og Hauki Inga, Óla Stígs og Vali Gísla. Víkingar komu mörgum á óvart í fyrra. Samkvæmt kenningunni er erfitt að fylgja slíku tímabili eftir og nú reynir á Magga Gylfa. Liðið er ágætlega mannað og ætti ekki að þurfa að falla. HK er með hæfileikaríkasta markvörð deildarinnar og ef varnarleikurinn verður vel skipulagður mun liðið halda sér í deildinni. Mest allt uppaldir leikmenn sem væntanlega spila með hjartanu. Gömlu mennirnir, Jón Gasgrímur og Hörður Már, þurfa að draga vagninn í sóknarleiknum. Blikar hanga uppi samkvæmt þessu en aðeins eitt lið fellur í ár. Forvitnilegt að sjá hvort eitthvað púður sé eftir í Arnari Grétars, uppáhalds knattspyrnumanni Halla Pé. Ef þeir setja Kristján Jónatans í markið þá verða þeir í toppbaráttunni.Fram er hér spáð falli af gömlum vana. Hef ekkert séð til þeirra síðan 2005 og það var ekki merkilegt, enda féllu þeir þá samvkæmt spá síðuhaldara. Spurning hvort Sjálfstæðismaðurinn Óli Þórðar nái að berja einhvern anda í þessa menn ásamt Reyni Leós.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?