<$BlogRSDURL$>

Tuesday, May 01, 2007

Nýjir vendir sópa best !
Það er kominn tími til að breyta. Það er vor í lofti. Tími breytinganna. Nýir vendir sópa best. Ferska og fríska takk. Verðum að fá á nýtt blóð. Vinstra vorið er runnið upp. Já nýir vendir sópa sko best. Og ekki vanþörf á eða hvað? Valdaþreytan er jú alveg gríðarleg og leggst hún mun þyngra á fólk í landsmálunum en borgarmálunum, sem kunnugt er af umræðu undanfarinna ára. Þessi umræða er byrjuð. Kominn er grein á bb.is undir þessari yfirskrift auk þess sem síðuhaldari sá eitthvað Samfylkingarmyndband þar sem hamrað var á því hve Sjálfstæðisþingmenn væru þreyttir eftir langan feril.

Í því vinstra vori sem við eigum víst að vera að upplifa, þá hljóta ráðherraefni vinstri flokkanna að vera hinir nýju vendir sem sópa best. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir settist á þing árið 1991 og í borgarstjórn árið 1983. Þá var varaformaður hennar Ágúst Ágústsson 6 ára. Jóhanna Sigurðardóttir, sem hlýtur að vera ráðherraefni, hefur setið á þingi síðan 1978. Þá var Daníel Passarella fyrirliði Argentínumanna sem sigruðu á HM og menn höfðu vart heyrt af Maradona. Össur Skarphéðinsson hefur setið á þingi síðan 1991 sem er jafn langur tími og hjá mörgum núverandi ráðherrum, Árna, Einari og Sturlu.

En ef við kíkjum á hinn ferska andblæ stjórnmálanna Steingrím Sigfússon, þá getur hann nú aldeilis bætt um betur. Steingrímur settist á þing árið 1983 þá 28 ára gamall. Þá var Vigdís búin að vera forseti í þrjú ár. Eftir það sat hún í þrettán ár og síðan hefur Ólafur Ragnar setið í ellefu. Þann tíma hefur Steingrímur verið alþingismaður og ráðherra. Hann er hvergi nærri hættur enda eru það nýju vendirnir sem sópa best. Annað ráðherraefni VG, Ögmundur Jónasson, hefur setið síðan 1995. Þá var hinn ágæti varaformaður VG, Katrín Jakobsdóttir, 19 ára. Já nýjir vendir sópa best. Ég held að maður fari ekki yfir strikið þó maður segi að það sé ekki þessi umræða sem muni gulltryggja vinstra vorið þann 12. maí.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?