<$BlogRSDURL$>

Wednesday, September 05, 2007

Neytendahornið
Ekki hefur verið mikið um neytendavæl á þessari annars ágætu bloggsíðu en nú verður aðeins brugðið út af þeirri venju. Síðuhaldari rekur sig gjarnan á að mikið er um fólk í þjónustustörfum ýmis konar sem hefur verið þjálfað sem vélmenni. Sjálfstæðri hugsun hefur verið útrýmt í flestum tilfellum og forritun er tekin við. Hjá þessu fólki er allt fyrir fram ákveðið. Farið er með sömu rulluna og sömu hlutirnir gerðir á sama hátt dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð. Þetta kannast til dæmis allir við sem einhvern tíma hafa þurft að eiga við Lánasjóð íslenskra námsmanna. Mikilvægt er að raska ekki ró þessara vélmenna með því að koma með truflandi óskir sem gætu sett þau út af laginu. Síðuhaldari mun nú taka tvö dæmi:

Fyrir kemur að síðuhaldari þarf að hringja í 118 og nýta sér þjónustu símaskrárinnar. Þar eru vélmennin forrituð þannig að þau eiga að lesa upp númerið í heimasíma fyrst og síðan GSM númerið. Af fenginni reynslu spyr síðuhaldari því strax um GSM númerið hjá viðkomandi. Þá fær síðuhaldari UNDANTEKNINGALAUST gefið upp númer í heimasímanum. Þá þarf að endurtaka beiðnina sem er svo sem allt í lagi því 118 rukka ekki svo mikið fyrir sekúnduna.

Þegar síðuhaldari ákveður að brjóta upp matarræðið og færa sig yfir í hollustuna þá snýr hann sér til fyrirtækisins Subway. Þar eru vélmenninn forrituð til þess að spyrja í lokin hvort kúnninn vilji salt eða pipar. Síðuhaldari kýs að nýta sér hvorugt og til þess að prófa vélmennin þá segir síðuhaldari að þetta sé komið, þegar hann er búinn að velja sósuna. Þá er UNDANTEKNALAUST spurt hvort síðuhaldari vilji salt eða pipar.

Síðuhaldari gerir sér grein fyrir því að þessi atriði eru ekki þess eðlis að setja þjóðfélagið á hliðina en eru kúnstug engu að síður. Og lærdómurinn sem þið börnin góð getið dregið af þessu er sá, að það hefur ekkert upp á sig að ætla að reyna að forrita vélmenni upp á nýtt.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?