<$BlogRSDURL$>

Sunday, September 09, 2007

Skattgreiðendur borga - blaðamenn frjósa
Það var ekki lítið vælt og lobbíað fyrir því að skattgreiðendur skyldu splæsa nýrri stúku á þjóðarleikvanginn í Laugardal. Þessi stúka hefur nú verið í notkun í eitt ár og þykir meira að segja glæsileg. Það sem er merkilegt er að Knattspyrnusamband Íslands virðist þarna hafa reynt að fremja hinn fullkomna glæp, þ.e.a.s láta skattgreiðendur borga fyrir útrýmingu íþróttafréttamanna. Vissulega kann mörgum að finnast að það væri þjóðþrifaverk að losna við þá stétt manna, en ég er hins vegar á mjög á móti því að menn séu teknir af lífi án dóms og laga.

Í hinni nýju stúku Laugardalsvallar er blaðamönnum gert að sitja utandyra á landsleikjum eins og í kvöld. Þar sem við blaðamenn erum yfirgengilega sjálhverfir þá ætla ég að stikla á stóru í þessu máli. Aðstaða blaðamanna innandyra er takmörkuð og fellur hún í skaut sjónvarpsmanna og útvarpsmanna í einhverjum tilfellum. Annars flokks fjölmiðlungar, eru látnir hýrast úti í gaddinum. Nú er punkturinn auðvitað ekki sá að blaðamenn geti ekki fylgst með leik utandyra eins og hinn almenni áhorfandi. Punkturinn er sá að menn verða að hafa til þess aðstöðu að vinna vinnuna sína. Í roki og rigninu er ekki auðvelt að hripa niður staðreyndir eða halda fartölvu frá skemmdum. Þetta varð ég áþreifanlega var við síðasta haust en landsleikir fara hér gjarnan fram á haustin, og þá eru lægðirnar yfir landinu ekki á undanhaldi. Í fyrra varð maður ekki var við mjög mikla reiði í herbúðum blaðamanna enda hafði KSÍ þá allan veturinn til þess að bæta úr. Það er hins vegar gremjulegt að viðleitnin til þess að gera betur er engin. Ekki að mér vitandi. Svörin eru á þá leið að svona sé þetta víða erlendis.

Ekki þykir mér erfitt að hrekja það sem rök í málinu. Íburður í byggingum hérlendis er ósjaldan meiri en víða í kringum okkur, til dæmis á Englandi. Auk þess má augljóslega benda KSÍ mönnum á að við búum ekki á sólarströnd hafi það farið fram hjá þeim. Við þetta má bæta að það sé kannski eftirsóknarverðara að hýrast úti og fylgjast með knattspyrnunni í öðrum löndum en þeirri sem hér er boðið upp á. En það er vitaskuld smekksatriði. Senda ætti þann sem hannaði þessa stúku í návígi við Kristján Örn Sigurðsson ef ég fengi að ráða.

Það var kaldhæðni örlaganna að borgarstjórinn, sem innheimtir hámarksútsvar af Reykvíkingum, hélt ræðu fyrir leik og mærði þetta mannvirki sérstaklega. Hafði hann til taks hjálparhellu sem hélt yfir honum regnhlíf. Greiðslan mun því ekki hafa haggast. Ekki sé ég eftir því að hafa stutt Gísla Martein. Aðstaða blaðamanna í Laugardalnum er verri en eftir vígslu fyrir fimmtíu árum.

Erfitt er að átta sig nákvæmlega á því hvaða skilaboð KSÍ er að senda með þessu. Kannski vilja þeir eingöngu sjónvarpsumfjöllun um landsleikina í knattspyrnu? Ekki mun standa á mér að verða við þeirri bón. Til þess að vera með táknræn mótmæli þá verður ekki fjallað meira um íslenska knattspyrnu á þessu síðuhaldi fyrr en viðleitni hefur verið sýnd til þess að breyta þessu ástandi. Ég geri mér grein fyrir því að markaðssetning á íslenskri knattspyrnu mun ekki standa og falla með Bloggi fólksins en maður verður að hafa einhver prinsipp. Blogg fólksins er alla vega búið að gefa fordæmi. Það sýður á fleiri blaðamönnum eins og Elvari og Henry.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?