<$BlogRSDURL$>

Friday, November 16, 2007

Samvinna Reykjavíkurborgar og Stöðvar2 ??
Eftir fréttatíma kvöldsins á Stöð2 þá velti ég því fyrir mér hvort fréttastofan sé komin í einhvers konar samstarf við ráðhúsið. Í fréttatímanum var greint frá að borgarstjórinn með Dabba greiðsluna hefði rokið af stað á leikskóla í borginni vegna skilaboða sem honum bárust frá ungum nemanda. Fréttin var auðvitað mjög hjartnæm, enda skilaboðin þau að Degi Bergþórusyni Eggertssyni væri afar umhugað um ungviðið í borginni. Nú eru vinnustaða- og skólaheimsóknir eitthvað sem borgarstjórar á hverjum tíma reyna að sinna eftir því sem ég best veit og spurning um fréttagildi þess. Samkeppnisaðilinn á RÚV sá heldur ekki ástæðu til þess að fjalla um málið, enda gæti orðið ærið verk að fylgja borgarstjóra eftir í allar slíkar heimsóknir. Eftir að hafa horft á fréttina þá sækir að mér sú spurning hvort Dagur eða einhver úr hans starfsliði hafi látið Stöð2 vita af heimsókninni, því fréttastofan var mætt og náði myndum af "viðburðinum". Ég get auðvitað ekki útilokað að fréttastofan hafi heyrt af þessari heimsókn eftir öðrum leiðum og brunað á staðinn í tæka tíð, en ég hallast þó frekar að því að þarna hafi verið um PR útspil að ræða hjá Degi og Gumma Steingríms. Ef svo er þá má einnig velta því fyrir sér af hverju Stöð2 varð fyrir valinu frekar en einhver annar fjölmiðill.

Uppfært laugardaginn 16. nóvember:
Ég sé í Mogganum í dag að sá ágæti miðill hefur líka slegist í för með borgarstjóranum. Í það minnsta er frétt um málið ásamt mynd frá Árna Sæberg.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?