<$BlogRSDURL$>

Thursday, January 03, 2008

Áramótaútgáfa Vef-þjóðviljans
Það er orðin hefð fyrir því á þessu annars ágæta bloggi að birta vel valda kafla úr áramótaútgáfu Vef-þjóðviljans:

Yfirlæti ársins:Íslenska landsliðið í fótbolta ofmetnaðist eftir að hafa náð jafntefli við Liechtenstein á heimavelli og steinlá fyrir þeim úti. Enda völlurinn í Vaduz kunn ljónagryfja þar sem meira að segja san-marínóska vélin hefur stundum hikstað.

Sprell ársins: Skemmtilegur strákur á Akranesi plataði Hvíta húsið og var næstum lentur á kjaftatörn við forseta Bandaríkjanna. Íslenskum fréttamönnum þótti þetta mjög skemmtilegt.

Ósvífni ársins: Pörupiltur á Akranesi plataði fréttastofu Stöðvar 2 til að taka viðtal við rangan mann. Þannig eyddi hann dýrmætum tíma fréttamanna, sem eru mikilvægir menn. Fréttamönnum þótti þetta mjög alvarlegt.

Landkynning ársins: Stöð 2 fagnaði því að "milljónir bítlaunnenda" hefðu fengið þau skilaboð frá Yoko Ono, ekkju tónlistarmannsins Johns Lennons, að þeir ættu endilega að fara í heimsókn til Íslands. Bítlaunnendur eru einmitt svo ánægðir með Yoko Ono og framlag hennar til Bítlanna.

Snarræði ársins: Faglegir stjórnendur bresku lögreglunnar gátu naumlega hindrað tvo lögregluþjóna í að bjarga drukknandi dreng úr tjörn. Lögreglumennirnir höfðu ekki lokið viðeigandi námskeiði og höfðu því ekki fullnægjandi fagleg réttindi til að bjarga úr tjörnum. Drengurinn drukknaði að vísu, en verkferlum var fylgt og það er fyrir mestu.

Viðskiptabann ársins: Bandaríska bóksölukeðjan Borders tilkynnti að framvegis yrði hin ógeðfellda bók, Tinni í Kongó, ekki lengur boðin þar til sölu. Viðskiptavinirnir verða þá að láta sér nægja bækur eins og Kommúnistaávarpið og Mein Kampf, sem áfram verða seldar.

Principmenn ársins: Í ljós kom að Stöð 2 hafði þegið fjárstyrk frá álverinu í Straumsvík til að senda út umræðuþáttinn Kryddsíld. Steingrímur J. Sigfússon hafði verið í þættinum og lýsti því yfir að það væri "sérstaklega óviðeigandi" að fá slíka kostun frá "stórfyrirtæki sem stendur fyrir mjög umdeildum áformum". Ögmundi Jónassyni var ekki meira skemmt heldur sagði að slegið hefði verið met "í óskammfeilni og smekkleysu að stjórnmálaforingjar sitji frammi fyrir þjóð sinni í boði Alcan í kjölfar álinnpakkaðrar mútugjafar til Hafnfirðinga."

Fjársafnarar ársins: Á sama tíma barst álverinu bréf þar sem beðið var um fjárstyrk á útgjaldafrekum kosningavetri. Undir bréfið ritaði, fyrir hönd hins áruhreina flokks, Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon.

Áhugamenn ársins: Fréttamenn höfðu nákvæmlega engan áhuga á því að vinstrigrænir leituðu sjálfir eftir fé hjá því sama fyrirtæki og þeir fordæma aðra fyrir að skipta við.

Virðingarröð árins: Morgunblaðið upplýsti að hollenska hirðin hefði þann hátt á, að þar kæmi "Willem-Alexander fram fyrir hönd móður sinnar, Beatrix drottningar, en ekki eiginmaður hennar, Claus prins." – Þetta eru ánægjuleg tíðindi enda væri ekki fallega gert af Hollendingum að draga blessaðan prinsinn fram með konu sinni, nú fimm árum eftir andlát hans.

Refur ársins: Stefán Jón Hafstein nennti ekki að hanga í minnihluta í borgarstjórn og flutti til Malaví.

Fagmennska ársins: Náttúrugripasafn Íslands réði ekki við að geyma geirfugl með öruggum hætti, en fugl safnsins fór illa út úr raka þegar flæddi inn á gólf í safninu. Eins gott að það er auðvelt að fá annan.

Samningsaðilar ársins: Hinn 23. febrúar tilkynnti Hótel Saga að það myndi ekki hleypa umræddu fólki inn á hótelið, þrátt fyrir samning við það um gistingu.

Framlag ársins: Nokkru síðar ákvað hótelið að greiða hópnum nokkrar milljónir króna. En tók skýrt fram að það væru ekki skaðabætur fyrir samningsrof. Greiðslan skoðast því sem frjálst framlag til klámmyndagerðar og sýnir að íslenskir bændur, sem reka hótelið, eru óþreytandi í leit sinni að nýjum búgreinum.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?