<$BlogRSDURL$>

Tuesday, February 12, 2008

Síðuhaldari og brasilíska sjálfsvarnarlistin
Fyrir mörgum árum síðan setti Elvar Þórólfs mig á einhvern lista hjá fyrirbæri sem heitir Núið. Síðan þá fæ ég sendan póst frá þessu apparati alla virka daga. Að komast út úr þessu er líklega álíka erfitt og að segja sig úr íslenskum stjórnmálaflokki. Kannski var þetta hans leið til þess að hefna fyrir það þegar ég "bað" Elvar um að kjósa frænda minn í prófkjöri í dauðariðlinum fyrir svona fimm árum síðan. Í Núinu fær maður sem sagt tölvupóst, velur eitt númer og fær stundum vinning frá einhverjum þjónustufyrirtækjum. Eitt sinn þegar ég opnaði þetta, blasti við mér smettið á Pétri Jóns, sem þá hafði unnið einhverja utanlandsferð. En það er önnur saga og skemmtilegri. Í morgun þá opnaði ég þetta og fékk meldinguna: Til hamingju. Þú hefur unnið tvær vikur í Jiu Jitsu !!!

Ekki minnist ég þess að hafa nokkurn tíma á uppvaxtarárum mínum í Bolungarvík heyrt nokkurn mann minnast á Jiu Jitsu. Mér datt helst í hug að þetta væri götunafn í Grafarvoginum og ég hefði unnið einbýlishús. Götunöfnin í Grafarvoginum eru nefnilega mörg hver undir asískum áhrifum eins og Múrurimi. En þar sem ég er mjög tæknilega sinnaður maður hóf ég rannsókn á Netinu. Þá kom þetta upp úr dúrnum. Það gæti verið fróðlegt að nýta þessar tvær vikur sem maður fær frítt og æfa sig svo á strákunum í blaðamannastúkunni: Benna, Tom, Henry og hvað þeir heita nú allir þessir spekingar. Ég mun leyfa lesendum að fylgjast með framgangi málsins ef einhver verður.
Passið ykkur á myrkrinu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?