<$BlogRSDURL$>

Monday, May 12, 2008

Munnmælasögur#79
"Skömmu eftir viðburðarrík ár í Menntaskólanum á Ísafirði, héldu Vestfirzku Gleðipinnarnir, Halldór Magnússon og Jón Áki Leifsson, í menningarreisu til meginlands Evrópu. Í ferðinni komu þeir meðal annars við í París en á þeim tíma hélt til í borginni, þeirra gamli skólameistari Björn Teitsson. Var hann í árs leyfi frá störfum sínum við MÍ. Í lestinni á leiðinni til Parísar spurði áhyggjufullur HáEmm ferðafélagann að því, hvort þeir ættu nokkuð á hættu að rekast á Björn í París. Jón taldist veraldarvanari af þeim félögum og hélt nú ekki. Hafði hann gaman af þessum áhyggjum HáEmm og benti honum á að um ellefu milljónir manna byggju á Parísarsvæðinu. Ekki þyrfti því sérfræðing til þess að sjá að líkurnar á því að rekast á lágvaxinn skólameistara væru því harla litlar. Róaðist HáEmm nokkuð við þetta og hófust þeir handa við að drekka í sig menninguna í heimsborginni. Allar götur síðan hefur þessi ferð þeirra félaga reyndar gengið undir nafninu "Paris by night" sem vísar að sjálfsögðu til fótferðatíma þeirra. París í dagsbirtu fór sum sé fram hjá þeim í þessari atrennu en HáEmm hefur skellt skuldinni á lifurstarfssemi Jóns.

Fyrsta kvöld þeirra í París fóru þeir á einhverja Íslendingasamkomu - afar menningarlega að sjálfsögðu. Fyrsti maðurinn sem þeir hittu þar var einmitt téður Björn Teitsson. "Ellefu milljónir manna segirðu !" rumdi í HáEmm en Jón Áki lét háðsglósur HáEmm sér í léttu rúmi liggja og benti félaganum á að ekki væri hægt að telja Íslendingasamkomur með í þessu reiknisdæmi. HáEmm tók þau rök góð og gild. Síðasta kvöld þeirra í París eru þeir félagar að rölti á hinni víðfrægu Champs-Élysées götu. Heyra þeir bankað á rúðu innan frá og líta við. Er þar staddur Björn Teitsson inni á veitingastað og ekki lítið upprifinn yfir því að rekast aftur á gamla nemendur. "Ellefu milljónir manna segirðu !" rumdi aftur í HáEmm."

This page is powered by Blogger. Isn't yours?