<$BlogRSDURL$>

Friday, June 20, 2008

The dumb and the furious
Hópur fólks hefur komið sér upp samastað á kvöldin úti á Granda, sum sé í nágrenni síðuhaldara. Þarna fer fram vægast sagt undarleg hegðun. Eitthvað hefur víst verið um þetta fjallað í Íslandi í dag/Kastljósi og kannski víðar. Þá safnast gjarnan saman hópur fólks á um hundrað bílum og er farið í spyrnu þar til löggan er búinn að góma alla og dæla inn peningum í formi sekta. Mun rekstrargrundvöllur löggæslunnar á höfuðborgarsvæðinu hafa lagast talsvert við þetta enda sitja þér gjarnan á nokkrum stöðum á þessum slóðum á kvöldin og skjóta á allt hvikt. Ýmislegt fleira gáfulegt finnur fólk sér þarna til dundurs sem minnir einna helst á þegar Jónas Guðmunds var að hringspóla á Bimmanum sem Ása og Gummi Addýar áttu. Bílunum er svo parkerað á risastóru bílaplani fyrir utan Krónuna, með skottin opin og dúndrandi búmm búmm músik. Síðuhaldari ber nú takmarkað skinbragð á bíla en meira að segja honum tekst að sjá að eitthvað hefur verið átt við þessa bíla. Gjarnan er búið að setja einstaklega háa og ljóta spoilera aftan á þá og bílarnir eru jafnframt skreyttir með alls kyns táknum. Segja mér fróðari menn að þarna sé um tilvísun að ræða í einhverja bíómynd sem heiti: "The fast and the furious". Menn eru sum sé að költa yfir sig.

Staðsetningin á þessum uppátækjum er í sjálfu sér ekki algalinn út frá hávaðamengun því akkúrat þarna er náttúrulega ekki íbúðahverfi. Hins vegar hefur síðuhaldari orðið æ meira var við lætin þegar bílarnir eru að spóla af stað, sem segir manni að eitthvað sé þetta farið að færast út á veginn sem liggur út á Seltjarnarnes. Þó maður sé augljóslega orðinn gamall og gráhærður, eins og pistillinn ber með sér, þá fékk síðuhaldari samt skemmtilegan hugstrump. Hann er nú með á teikniborðinu að mæta á sápustykkinu á bílaplanið. Gefa því vel inn og opna svo skottið að svo búnu, þar sem hægt væri að spila Gylfa Ægis eða Lúdó og Stefán. Gæti nú gert lukku hjá unga fólkinu. Verði þetta að veruleika þá tek ég Gumma Gunn með og fæ hann til að festa eitthvað á videófilmu og spila árangurinn á þessu annars ágæta bloggi.

Líf og fjör Daníel !

This page is powered by Blogger. Isn't yours?