<$BlogRSDURL$>

Sunday, June 29, 2008

Þjóðernisdeilur settar á ís
Síðuhaldari getur vel unað Spánverjum að verða Evrópumeistarar. Gott fótboltalið þó þeir hafi ekki getað unnið Íslendinga á Laugardalsvellinum fyrir tæpu ári. Þeir hafa aldrei orðið Heimsmeistarar og aðeins einu sinni áður Evrópumeistarar. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Spánverjar eru með sterkt lið með þekktum leikmönnum. Það hefur nú verið reglan frekar en undantekningin enda hafa Barcelona og Real Madrid verið stórveldi um langa hríð. Ástæðan fyrir því að Spánverjar hafa ekki sigrað á stórmótum er fyrst og fremst skortur á samstöðu innan þeirra eigin leikmannahóps. Þjóðerniskenndin hefur verið rík og alltaf hafa verið nokkrir leikmenn sem líta ekki á sig sem Spánverja og vildu frekar spila fyrir Katalóníu eða Baskahéruðin. Þessi kynslóð spænskra knattspyrnumanna á heiður skilinn fyrir að setja þjóðernisrembingin í annað sæti og fótboltann í fyrsta sæti.

Varðandi Þjóðverja þá er þetta í þriðja skipti sem þeir tapa úrslitaleik á stórmóti síðan 1992. Sjálfsagt er ekki hægt að vinna svona mót með Jens Lehmann í markinu. Nú má velta fyrir sér hvort einkenni þýska landsliðsins séu eitthvað að breytast. Í stað þess að klára alltaf mikilvæga leiki og seiglast í gegnum mót þá hafa þeir nú tapað þremur af síðustu fjórum úrslitaleikjum sínum. EM 92, HM 02 og EM 08. Sigruðu hins vegar á EM 96. Kannski verða Þjóðverjar þekktir í nánustu framtíð fyrir að tapa úrslitaleikjum frekar en að vinna þá. Tóti Tarfur yrði nú ekki hrifinn af því.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?