<$BlogRSDURL$>

Wednesday, June 18, 2008

Kaffihúsaspekingum er fátt óviðkomandi
Að undanförnu virðist ekki hafa verið hægt að þverfóta hérlendis fyrir útlærðum sérfræðingum í ísbjarnabjörgunum. Það virðast ekki vera mörg svið sem kaffihúsaspekingar treysta sér ekki til að fara inn á í fjölmiðlum. Eftir fall fyrra bjarndýrsins fyrir norðan fengu ófáir kaffihúsaspekingar að þenja sig í fjölmiðlum. Var þá gjarnan fullyrt að lítið sem ekkert mál væri að fanga slíkt dýr lifandi og óskiljanlegt að slíkt smáræði skyldi ekki hafa verið reynt. Ekki gat maður skilið þetta öðruvísi en að slík aðgerð væri álíka auðveld og að taka snuðið út úr smákrakka, svo vitnað sé í Hexíu de Trix. Það var því mikið ólán fyrir kaffihúsaspekingana þegar annar bangsi synti fjórsund upp á Ísland. Eftir öll stóryrðin þá var nú komin sú krafa að bjarga dýrinu, fyrst það er á annað borð svona sáralítið mál. Yfirmaður Halla Pé bauðst til að borga brúsann og haldið var til Skagafjarðar með álíka mikinn mannafla og Bretar sendu til Írak. Þá gerðist hins vegar hið ótrúlega; að kaffihúsaspekingarnir höfðu farið með rangt mál og niðurstaðan varð nákvæmlega sú sama og í fyrra skiptið. Nema núna var skyttunum bannað að mynda sig með kvikindinu.

Við getum öll verið viss um að nú muni vaskir íslenskir fjölmiðlamenn leggja mikið upp úr því að elta uppi alla fullyrðinga- og yfirlýsingaglaða kaffihúsaspekingana sem þöndu sig í fjölmiðlum. Munu nú fulltrúar fjórða valdsins að sjálfsögðu ganga hart að kaffihúsaspekingunum og spyrja hví þeir séu að fullyrða hitt og þetta um eitthvað sem þeir hafa ekki hvolpsvit á. Munu staðfastir íslenskir fjölmiðlamenn í framhaldinu gefa kaffihúsaspekingunum tækifæri til þess að biðjast afsökunar eða draga fullyrðingar sínar til baka.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?