<$BlogRSDURL$>

Tuesday, June 10, 2008

Ólíkt hafast menn að
Ég hef verið að velta því fyrir mér hvernig aganefndir HSÍ og KSÍ geta tekið jafn ólíkt á málum og raun ber vitni. Þá ber ég saman dóma þeirra Aðalsteins Eyjólfssonar fyrrum þjálfara Stjörnunnar í handboltanum og Guðjóns Þórðarssonar þjálfara Skagamanna í fótboltanum. Eins og þetta blasir við mér þá eru brot þeirra ósköp svipuð. Þeir blása í fjölmiðlum eftir leik og halda sig við ummælin í fjölmiðlum næsta dag á eftir. Í báðum tilfellum er vegið að starfsheiðri dómara svo þetta sé nú pent orðað. Aðalsteinn fékk tveggja mánaða bann og Guðjón fékk eins leiks bann. Eðli brotanna er í mínum huga afskaplega svipuð og því spyr maður sig hvernig refsingarnar geta verið svo ævintýralega fjarri hvorri annari? Nú getur hver fyrir sig haft á því skoðun hvort aganefnd HSÍ hafi gengið of langt eða aganefnd KSÍ gengið of skammt en þetta lítur alla vega mjög einkennilega út. Ekki eru þessar íþróttagreinar neitt stórkostlega ólíkar heldur og í báðum tilfellum eru menn staddir í miðjum deildarkeppnum.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?