<$BlogRSDURL$>

Monday, June 16, 2008

Orðrétt
"Ég er ekki viss um að ég skilji náttúruverndarbaráttuna á Íslandi. Fyrst snerist þetta um Eyjabakka. Það tókst að færa góð rök fyrir því að þeir væru náttúruperla sem ekki mætti fórna. Ég man að ég heyrði Össur Skarphéðinsson tala fyrstan manna um Kárahnjúka - hann sagði að þeir væru góður virkjanakostur í stað Eyjabakka. Svo voru Kárahnjúkar allt í einu orðnir einstæð náttúruperla. Maður heyrði í sífellu talað um Kringilsárrana. Samt mátti lesa í Árbók Ferðafélagsins grein eftir Hjörleif Guttormsson þar sem sagði að þarna væri ekkert sérstakt að sjá.

Þá eru það Þjórsárver. Þeim hefur líklega verið bjargað. En kannski voru þau ekki í raunverulegri hættu. Í hugum náttúruverndarsinna voru Þjórsárverin nefnilega skilgreind mjög vítt, en í ráðherraúrskurði um Norðlingaölduveitu var gert ráð fyrir að hún væri öll kirfilega utan friðlandsins. Þetta var samt kallað að 2fórna" Þjórsárverum.

Svona má halda áfram. Steingrímur J. Sigfússon sagði á sínum tíma að eðlilegt væri að virkja í neðrihluta Þjórsár. Stuttu síðar hófst mikil barátta gegn virkjunum á þessum stað. Samt er Þjórsá alsett virkjunum og tæplega hægt að segja að þarna myndu neinar náttúruperlur fara undir vatn. Menn töluðu um að gufuaflsvirkjanir væru æskilegri en vatnsaflsvirkjanir, af þeim væru minni náttúruspjöll. En nú snúast menn öndverðir gegn hverri gufuaflsvirkjuninni á fætur annarri. Því er lýst yfir af sjálfum borgarstjóranum í Reykjavík sem miklum sigri að ekki megi reisa Bitruvirkjun. Hefði hann ekki fremur átt að verða sorgmæddur vegna glataðra tækifæra til atvinnu og uppbyggingar?

Við Eyjabakka og Kárahnjúka var baráttan aðallega gegn virkjanaframkvæmdum - álverin sjálf komu miklu minna inn í umræðuna. En nú er eins og sá tónn hafi breyst. Iðnaðurinn er orðinn vondur í sjálfu sér, ekki bara orkuverin sem knýja hann áfram. Samt eru útlendingar sífellt að hrósa okkur fyrir að nota hreina orku. En maður er farinn að fá á tilfinninguna að íslenskir náttúruverndarsinnar verði sífellt róttækari og einstrengingslegri og muni helst leggjast gegn öllum virkjanaframkvæmdum og þungaiðnaði, hvaða nafni sem hann nefnist.

- Egill Helgason, meintur tvífari, á bloggi sínu þann 11. júní 2008.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?