<$BlogRSDURL$>

Saturday, July 12, 2008

Munnmælasögur#83
Tölvupóstar hafa verið sendir síðuhaldara héðan og þaðan úr heiminum þar sem óskað er eftir því að birt sé sagan af því hvers vegna Jakob Falur Garðarsson sé kallaður "Kobbi nánös". Eftir lauflétta rannsóknarvinnu getur síðuhaldari boðið upp á söguna á bak við nafnið.

Árið 1993 var haldið sögulegt SUS-þing á Selfossi og þangað fjölmenntu Vestfirskir Gleðipinnar. (Síðar verður hér birt saga af Jóni Áka Leifssyni frá þessu sama þingi.) Jakob Falur og HáEmm, verndari bloggs fólksins, fóru suður með Óla Velti. Þeir voru komnir í töluverða tímapressu, en þeirra beið herráðsfundur hjá stuðningsmönnum núverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins sem bauð sig fram til formanns ásamt núverandi heilbrigðisráðherra. Var því Óli fenginn til þess að keyra. Vissara er að vera ekki með miklar fullyrðingar um hversu langan tíma tók að keyra frá Ísafirði og á Selfoss, en til vísbendingar má benda á að Kobbi og HáEmm fengu sér hjartastyrkjandi á leiðinni til að koma í veg fyrir offsahræðslu. En þeir eru að öðru leyti stakir bindindismenn. Kobbi lagði línurnar fyrir helgina: "Svo skiptum við þessu bara í þrennt. Deilum kostnaði." Kobbi vildi greinilega að fyllstu sanngirni yrði gætt. Gerðu Óli og HáEmm engar athugasemdir við það. Þegar kom að Kobba að borga bensín í Búðardal greip hann hins vegar í tómt. "Strákar, veskið mitt hefur orðið eftir á Ísafirði !" sagði Kobbi vandræðalegur. Þá gall við í Óla þannig að heyrðist um alla Dalina: "Nú nú ! Átti ekki að deila kostnaði ??"

Á þessu augnabliki hefur Kobbi væntanlega gert sér grein fyrir því, að þessar yfirlýsingar hans um kostnaðaráætlun og í kjölfarið veskisleysi, myndi ekki falla í gleymskunnar dá hjá þeim Óla og HáEmm. Það kom honum því sennilega ekki á óvart að þeir skyldu kalla hann "Kobba nánös" alla helgina á Selfossi. En líklega hefur Kobba ekki rennt í grun að fimmtán árum síðar yrði hann enn þekktur víða um land sem "Nánösin".

This page is powered by Blogger. Isn't yours?