<$BlogRSDURL$>

Thursday, July 24, 2008

Orðrétt
Skemmtilegur og nýr fróðleikur birtist í Morgunblaðinu í síðustu viku. Þar skrifa skyndilega grein þeir Þorvarður Helgason og Jón Böðvarsson og fræða landsmenn um atburðina á Austurvelli hinn 30. mars 1949, þegar árás var gerð á alþingishúsið til að reyna að hindra inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið. Samkvæmt grein þeirra Þorvarðar og Jóns er það allt misskilningur. "Fáeinir menn sem tilheyrðu ekki mótmælendahópnum 30. mars 1949 gerðu sér það til gamans að kasta eggjum og moldarkögglum að unga fólkinu á gangstéttinni, og því miður fylgdu nokkrir smásteinar með sem engum skaða ollu, en líklega er rétt að einn þeirra hafi brotið rúðu í þinghúsinu."

Þannig var þetta nú allt börnin góð. Og ekki nóg með það, því einhver illyrmi höfðu þaulskipulagt ögranir gagnvart hinum saklausu borgurum sem komnir voru á Austurvöll, hinu "grunlausa fólki" sem skiljanlega varð "felmtri slegið". Þegar þeir Þorvarður og Jón horfa til baka, þá kemur "í ljós mynstur, kerfi" og var "augsýnilega stefnt að árekstri, óeirðum" - en vitanlega ekki af hinu grunlausa fólki á Austurvelli heldur af þeim sem inni í þinghúsinu voru. Þeir sem köstuðu á alþingishúsið þeir tilheyrðu ekki mótmælendunum og auk þess er þeim Jóni og Þorvarði kunnugt um það að þeir hafi aðeins kastað að gamni sínu, eggjum og moldarkögglum, og enginn skaði orðið nema "líklega" hafi ein rúða brotnað.

Þetta eru mikilvægar upplýsingar og af því að minnsta kosti annar greinarhöfunda er áhugasamur um fleiri atburði en þessa, þá vill Vefþjóðviljinn láta þess getið að nýlega barst blaðinu yfirlýsing sem er litlu ófróðlegri en Morgunblaðs-grein þeirra Þorvarðar Helgasonar og Jóns Böðvarssonar. Yfirlýsingin er svohljóðandi:

Örfáir náungar, sem ekki voru með okkur í för og við þekkjum ekki, stóðu upp við Bergþórshvol þegar við félagarnir komum þangað til að fylgjast með morgunrakstri húsbóndans. Einhverjir þessara manna voru af stráksskap farnir að fikta við það að reykja og munu hafa kveikt sér í vindlingum þarna á hlaðinu, en það olli engu tjóni. Þó er líklega rétt að hálfbrunnin eldspýta hafi fallið í arfasátu er þar stóð fyrir ofan húsin. Hitt er verra, að inni á bænum voru ýmsir óþurftarmenn sem allt gerðu til að æsa upp grunlausa gestina á hlaðinu. Helgi, sonur hjónanna á bænum, ögraði mönnum til dæmis með því að búast kvenfötum og grátur og kveinstafir Skarphéðins bróður hans trufluðu lýðræðislega umræðu á hlaðinu. En við létum ekki eggja okkur til óhæfuverka og fórum fljótlega leiðar okkar, enda var þarna orðið heitt og reyksamt. Er það krafa okkar að mál þetta verði allt rannsakað ofan í kjölinn þar til ofangreindur sannleikur finnst.
Svínafelli, 1. júlí 2008
Flosi Þórðarson.

- Vef-þjóðviljinn þann 2. júlí 2008.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?