<$BlogRSDURL$>

Monday, February 23, 2009

Orðrétt
"Árum saman hafa fjölmiðlamenn og álitsgjafar talað um að alþingi sé að "breytast í afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið". Þingmenn meti mál "ekki sjálfstætt", taki bara við málum og "stimpli", og "lesa ekki einu sinni málin".

Í dag gerðist það, að annar þingmaður Framsóknarflokksins vildi vinna frumvarp betur í þingnefnd. Ríkisstjórnin er bálreið. Forsætisráðherra titrar og skelfur í viðtölum. Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir er sárhneyksluð, vonsvikin og undrandi í fréttatímum og veltir fyrir sér öllum hugsanlegum möguleikum nema þeim að þingmaðurinn vilji einfaldlega vanda sig og ekki samþykkja illa unnið frumvarp.

Nú eru engar áhyggjur af því að þingið sé "afgreiðslustofnun". Nú er ekki talað um "flokksræði". Nei nú er hneyksli að þingmaðurinn stimpli ekki frumvarpið og haldi sér saman.

Í dag lýsti Jóhanna Sigurðardóttir seðlabankastjórafrumvarpinu sem "stóra málinu" hjá ríkisstjórninni. Íslenska ríkið samdi fyrir jól við alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ýmis ríki um veruleg lán. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn skilaði skýrslu á dögunum og taldi þar þróunina hafa síðan verið betri og hraðari en hann hefði búist við, og nefndi sérstaklega "skynsamleg inngrip Seðlabankans". Var skýrslan í raun mikið lof og prís um Seðlabanka Íslands, þó íslenskum fréttamönnum þyki það ekki fréttnæmt, sem er nær einsdæmi um álit að utan. Það er alveg ljóst að núverandi skipulag Seðlabanka Íslands kemur ekki í veg fyrir að Ísland fái lán, aðstoð og góð samskipti við erlend ríki og stofnanir. Engar efnahagsráðstafanir standa og falla með skipulagi Seðlabankans. Ofuráhersla ríkisstjórnarinnar og ekki síst Samfylkingarinnar á seðlabankastjórafrumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur er mikið rannsóknarefni, þó sú rannsókn verði að fara fram án íslenskra fréttamanna og álitsgjafa."

- Vef-þjóðviljinn í dag.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?