Wednesday, April 22, 2009
Munnmælasögur#101
Þeir bræður Jakob Elías og Magnús Már Jakobssynir voru eitt sinn staddir í Hafnarfirði á kosningadegi. Líkaði þeim það hlutskipti heldur illa eins og gefur að skilja en ákváðu þó að reyna að hafa uppi á einhverju kosningastuði þegar kvölda tók. Höfðu þeir fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum í þessum kosningum og fóru á kosningavöku hjá sjálfstæðismönnum í Hafnarfirði. Heldur fannst þeim þó rólegt yfir á þeim bænum og töldu að stuðið væri meira á kosningavöku hjá krötunum enda Hafnarfjörður þekktur kratabær. Það stóð heima. Bella og Magga líkaði þó ekkert sérstaklega við félagsskapinn og fljótlega kom á daginn þeir bræður áttu litla samleið með Hafnafjarðarkrötum. Þegar þeir fundu að þeirra skoðanir áttu ekki upp á pallborðið þá fóru bræðurnir með rökræðuna alla leið og létu heimamenn fá það óþvegið. Brugðust kratarnir reiðir við og upphófust stimpingar í kjölfarið. Bræðurnir eru nú tveggja til þriggja manna makar þegar kemur að líkamlegum burðum en engin má við margnum. Lögðu þeir því á flótta úr mannhafinu og stefndu út í nóttina. Sluppu þeir við illan leik og voru þá óhultir.
Fóru þeir ferða sinna fótgangandi og rákust fljótlega á mann í slæmu ásigkomulagi. Var hann brennivínsdauður utan í girðingu og veðrið hryssingslegt. Eins og menn vita sem kynnst hafa Bella og Magga þá eru þetta drengir góðir. Sáu þeir að við svo búið mætti ekki standa - þessi óreglumaður myndi ekki eiga góða nótt framundan við þessar aðstæður. Bræðurnir vissu að lögreglustöðin yrði á vegi þeirra á gönguleiðinni og Maggi hóf því manninn á loft og setti hann yfir axlirnar á sér. Við þessar aðfarir varð maðurinn viðskotaillur mjög og hóf að berja frá sér. Gekk hann svo langt að Maggi bjargvættur hans neyddist til þess að leggja á hann hendur. Við það slokknaði eðlilega í manninum og bræðurnir röltu af stað með manngreyið á öxlum Magga.
Sóttist þeim ferðin ágætlega þar til maðurinn rankaði við sér á nýjan leik. Greip þá um sig fyrri árásarhneigð og tók hann upp fyrri iðju. Maggi bjargvættur hans neyddist því aftur til þess að rota manninn svo hann yrði til friðs. Öðruvísi myndi þessa mannbjörg aldrei geta orðið staðreynd. Á rölti þeirra bræðra gekk þetta svona nokkrum sinnum. Maðurinn rankaði við sér á öxlum Magga, réðist á hann og endaði það náttúrulega ávallt með því að Maggi rotaði hann. Lögreglumönnum í Hafnarfirði hefur líklega brugðið nokkuð þegar bjargvættirnir skiluðu manninum í hendur lögreglunnar. Var hann þá orðinn fremur illa útlítandi eftir átökin við bjargvættinn.
Þeir bræður Jakob Elías og Magnús Már Jakobssynir voru eitt sinn staddir í Hafnarfirði á kosningadegi. Líkaði þeim það hlutskipti heldur illa eins og gefur að skilja en ákváðu þó að reyna að hafa uppi á einhverju kosningastuði þegar kvölda tók. Höfðu þeir fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum í þessum kosningum og fóru á kosningavöku hjá sjálfstæðismönnum í Hafnarfirði. Heldur fannst þeim þó rólegt yfir á þeim bænum og töldu að stuðið væri meira á kosningavöku hjá krötunum enda Hafnarfjörður þekktur kratabær. Það stóð heima. Bella og Magga líkaði þó ekkert sérstaklega við félagsskapinn og fljótlega kom á daginn þeir bræður áttu litla samleið með Hafnafjarðarkrötum. Þegar þeir fundu að þeirra skoðanir áttu ekki upp á pallborðið þá fóru bræðurnir með rökræðuna alla leið og létu heimamenn fá það óþvegið. Brugðust kratarnir reiðir við og upphófust stimpingar í kjölfarið. Bræðurnir eru nú tveggja til þriggja manna makar þegar kemur að líkamlegum burðum en engin má við margnum. Lögðu þeir því á flótta úr mannhafinu og stefndu út í nóttina. Sluppu þeir við illan leik og voru þá óhultir.
Fóru þeir ferða sinna fótgangandi og rákust fljótlega á mann í slæmu ásigkomulagi. Var hann brennivínsdauður utan í girðingu og veðrið hryssingslegt. Eins og menn vita sem kynnst hafa Bella og Magga þá eru þetta drengir góðir. Sáu þeir að við svo búið mætti ekki standa - þessi óreglumaður myndi ekki eiga góða nótt framundan við þessar aðstæður. Bræðurnir vissu að lögreglustöðin yrði á vegi þeirra á gönguleiðinni og Maggi hóf því manninn á loft og setti hann yfir axlirnar á sér. Við þessar aðfarir varð maðurinn viðskotaillur mjög og hóf að berja frá sér. Gekk hann svo langt að Maggi bjargvættur hans neyddist til þess að leggja á hann hendur. Við það slokknaði eðlilega í manninum og bræðurnir röltu af stað með manngreyið á öxlum Magga.
Sóttist þeim ferðin ágætlega þar til maðurinn rankaði við sér á nýjan leik. Greip þá um sig fyrri árásarhneigð og tók hann upp fyrri iðju. Maggi bjargvættur hans neyddist því aftur til þess að rota manninn svo hann yrði til friðs. Öðruvísi myndi þessa mannbjörg aldrei geta orðið staðreynd. Á rölti þeirra bræðra gekk þetta svona nokkrum sinnum. Maðurinn rankaði við sér á öxlum Magga, réðist á hann og endaði það náttúrulega ávallt með því að Maggi rotaði hann. Lögreglumönnum í Hafnarfirði hefur líklega brugðið nokkuð þegar bjargvættirnir skiluðu manninum í hendur lögreglunnar. Var hann þá orðinn fremur illa útlítandi eftir átökin við bjargvættinn.