<$BlogRSDURL$>

Thursday, April 30, 2009

Munnmælasögur#102
Þar sem kosningar eru nýafstaðnar þá verður hér boðið upp á skemmtilega kosningasögu. Ólafur Jens Daðason fyrrum Alþýðubandalagsmaður bjó ásamt Hrönn konu sinni í Reykjavík á valdatíma R-listans sáluga. Kom sá tími að þau skyldu ganga til sveitastjórnakosninga eins og aðrir landsmenn. Hefur þetta líklega verið árið 1998 en það er aukaatriði. Aðalatriðið er að þarna var um tvo turna að ræða í Reykjavík, annars vegar R-listann og hins vegar Sjálfstæðisflokkinn. Jenni og Hrönn höfðu rætt sín á milli um kosningarnar og ætlaði Jenni að kjósa Sjálfstæðisflokkinn en Hrönn ætlaði að greiða R-listanum atkvæði sitt.

Jenna féll þetta þungt og fannst skelfilegt til þess að hugsa að hans góða atkvæði yrði bara núllað út af atkvæði Hrannar. Þegar kjördagur rann upp voru þau snemma á ferðinni því þau höfðu ákveðið að fara út úr bænum í sumarbústað. Þegar þau eru að renna úr hlaði fer Jenni að impra á því hvort þau geti ekki alveg eins sleppt því að kjósa. Atkvæði þeirra muni núlla sig út hvort sem er og ágætt væri að koma sér strax af stað og sleppa við umferðina. Þessi uppástunga kom Hrönn mjög á óvart. Fram að þessu hafði hún aldrei vitað til þess að Jenni nýtti ekki sinn lýðræðislega rétt í kosningum. Braut hún aðeins heilann um þetta og Jenni hélt áfram að telja henni trú um að óþarfi væri fyrir þau að kjósa. Eftir smá umhugsun fannst Hrönn að hún yrði að fara á kjörstað, annað væri einfaldlega kjánalegt. Það varð úr og þau fóru og kusu. Hrönn var eins og áður segir mjög undrandi á þessum tilburðum í Jenna, þar til hún komst að því að Jenni hafði skellt sér í utankjörstaðaratkvæðagreiðslu nokkrum dögum áður án þess að láta hana vita! Jenni gerði því allt sem hann gat í þessum kosningum og hefur gert allar götur síðan.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?