<$BlogRSDURL$>

Friday, December 11, 2009

Eitt síðasta vígið fallið
Síðuhaldari er orðinn vanur því að sjá ýmis furðulegheit á götum sódómunnar fyrir sunnan. Fátt kemur honum á óvart í þeim efnum en þó gerðist það í gær að síðuhaldara féllust hreinlega hendur. Var síðuhaldari á leið til hins ágæta nuddara Eiríks Sverrissonar til þess að láta hann taka á brjósklosinu. Á mörgu öðru átti síðuhaldari von en að sjá antísportistann Jón Eggert Víðisson hlaupa um Þróttarahverfið eins og hann væri orðinn of seinn á framboðsfund hjá Kristjáni Möller. Ekki hefur það oft komið fyrir að Jón Eggert þessi hafi verið bendlaður við óhóflega íþróttaiðkun, nema þá helst þegar rifjuð er upp sagan af því þegar hann fór að dansa á knattspyrnuvellinum, af því þjálfarar hans Halli Pé og Nesi skipuðu honum að hreyfa sig á vellinum!

Þó svo að hlaupagikkurinn væri mjög einbeittur í þessari þrekraun sinni þá var nú ekki annað í stöðunni en að taka hann tali enda hefur Jón verið búsettur erlendis um hríð. Upp úr krafsinu kom að Jón er ekki bara hættur að reykja heldur fara Frakkar svo hryllilega í taugarnar á honum að hann hefur tekið upp á því að fara út að skokka þar ytra. Málið er orðið svo alvarlegt að Jón segist hafa tekið stefnuna á að hlaupa hálft maraþon. Maraþon vill hann þó ekki stefna á því hann óttast að það muni leiða til röð maraþonhlaupa af hans hálfu, en síðuhaldari viðurkennir fúslega að hann tapaði aðeins þræðinum þegar Jón útskýrði þær pælingar allar. Jón lagði þó aukinn þunga í þá röksemdafærslu sína þegar hann benti á að fyrsti maraþonhlauparinn hefði látist. Þá líklega fyrir aldur fram þó hann hafi ekki getið þess sérstaklega. Nú er bara að krossleggja fingurna og vona að einhver þýða verði í samskiptum Jóns og Frakkana áður en hann endar á afreksmannastyrk hjá ÍSÍ.

Passið ykkur á myrkrinu

This page is powered by Blogger. Isn't yours?