<$BlogRSDURL$>

Tuesday, November 18, 2008

Nýr pistill á Víkaranum
Ef einhverjir átta sig ekki á því hvað footballer wife er að tala um í commenti við síðustu færslu, þá er síðuhaldari er með nýjan pistil um sápustykkið á Víkara.is. Hann má nálgast hér. Þetta eru rjúkandi fínar tvíbökur.
Passið ykkur á myrkrinu.

Monday, November 17, 2008

Blóðbankinn er ekki farinn á hausinn
Síðuhaldari fór í dag í Blóðbanka Ólafs Helga og gaf blóð í fyrsta skipti. Leið síðuhaldara betur í brisinu á eftir. Reyndar hafði gjaldkerinn sem tók við innlögninni mjög gaman að því að skoða niðurstöðurnar úr prufunni sem tekin var úr mér fyrir einhverjum mánuðum. Síðuhaldari mun víst hafa sett einhvers konar innanhússmet í járnmagni. Mér skilst að lágmarkstala fyrir járn sé 8 til þess að maður megi gefa blóð. Síðuhaldari mældist með 345! Þetta fannst gjaldkeranum fyndið. Ég átta mig ekki á því hvers vegna þetta er. Það eina sem mér dettur í hug sem líkleg ástæða, er aðfarir Guðmundar Gunnarssonar, fyrrum flugfreyjumanns, við að blanda mjólkuhristing á Shell-skálanum á árum áður. Guðmundur var/er náttúrulega léttur sem fjöður og réð ekkert við mótorinn í hristaranum, heldur þeyttist bara með eins og Mary Poppins í tíu vindstigum. Guðmundur skóf því alltaf allt járn innan úr dollunum þegar hann var að útbúa hristinginn. Mér finnst líklegt að viðskiptavinir Shell-skálans á þeim tíma séu með mun hærra járnmagn í blóði en aðrir.
Passið ykkur á myrkrinu

Friday, November 14, 2008

Orðrétt
"Það er mikið rætt um ábyrgð stjórnmála- og embættismanna þessa dagana. Menn benda ásakandi á einstaka ráðherra og ríkisstjórnir fyrr og nú, þingið eins og það leggur sig, seðlabanka og fjármálaeftirlit. Ekki ætlar Vefþjóðviljinn að andmæla því að stjórnmála- og embættismenn geti misstigið sig, hann gerir miklu fremur ráð fyrir því. Og ekki ætlar Vefþjóðviljinn heldur að andmæla því að menn geti farið illa að ráði sínu í einkarekstri. Frjáls markaður væri til lítils gagns ef fyrirtæki fengju ekki að fara á hausinn.

En það er sláandi að bera saman örlög þeirra sem mistókst á markaðnum og hinna sem sagt er að hafi klúðrað stjórn landsins. Stjórnendur og eigendur bankanna eru allir farnir heim til sín með gríðarlegt persónulegt tap og skuldabagga. Stjórnendur ríkisins sitja allir á sínum stað. Þetta er einmitt ein af ástæðum þess að Vefþjóðviljinn hallar sér fremur að frjálsum markaði."

- Vef-þjóðviljinn þann 12. nóvember 2008.

Sunday, November 09, 2008

Klovn
Ef þið hafið ekki ennþá hrasað um þessa þætti þá er kominn tími til að bæta úr því. Þvílík dæmalaus snilld. Síðuhaldari var að spjalla við Lars Christiansen um Klovn eftir leik Hauka og Flensburg. Verð þó að viðurkenna að samtalið fór fram á ensku þrátt fyrir Hróarskeldu rætur mínar. Lars tjáði mér að þeir væru nákvæmlega sömu vitleysingarnir í venjulegi lífi. Við vinstri hornamennirnir erum svo léttir í þessu.
Passið ykkur á myrkrinu.

Friday, November 07, 2008

Munnmælasögur#92
Fyrir mörgum árum síðar var Þorlákur Ragnarsson starfsmaður hjá Bakka sem var með starfssemi bæði í Bolungarvík og Hnífsdal. Reynt var að nota Þorlák í einhver uppbyggileg störf og kom það því í hans hlut að fara fyrir starfsfólkið í Ríkið á Ísafirði á föstudögum. Einhverju sinni var Þorlákur staddur í slíkri sendiferð og hafði í nógu að snúast í Ríkinu, þar sem hann ýtti á undan sér innkaupakörfu eins og í matvörubúðum. Þar var einnig staddur HáEmm, verndari Bloggs fólksins, aldrei slíku vant. HáEmm er um tveir metrar á hæð en Þorlákur er um einn meter á hæð. HáEmm stóð fyrir aftan Þorlák í röðinni, hallaði sér yfir öxlina á honum og bar dýrðina í smekkfullri kerrunni augum. Spurði HáEmm við þetta tækifæri: "Á bara að taka annað kvöldið ??"

Orðrétt
"Þetta er dáldið heavy mess"
- Bragi Kristjónsson, fornbókasali, um skipulagið í búðinni hjá sér, í Kiljunni miðvikudaginn 5. nóvember 2008.

Sunday, November 02, 2008

Munnmælasögur#91
Sú var tíðin að Valdimari Víðissyni var treyst fyrir skólastjórastarfi á Grenivík. Einhverju sinni hittist svo á að Guðmundur Gunnarsson, fyrrum flugfreyjumaður, lagði leið sína á Grenivík. Guðmundur leit sem kunnugt er við í flestum deildum Háskólans á Akureyri og þurfti þarna að gera verkefni í viðskiptafræði- eða kennara- eða fjölmiðlafræðináminu. Ræddi hann við Valdimar um að mæta á staðinn og taka upp efni úr skólastarfinu á myndband. Þegar Guðmund bar að garði voru nemendur og kennarar á Grenivík að halda hátíðlegan; "Dag íslenskrar tungu". Guðmundur heilsaði upp á skólastjórann sem mátti ekkert vera að því að ræða við hann út af stressi. Var hann að gera fjölmarga hluti í einu og tíu mínútum síðar var hann byrjaður að halda ræðu. Ávarpaði hann mannskapinn og ræddi um dag íslenskrar tungu. Guðmundur stóð álengdar og hlýddi á boðskapinn með myndbandstökuvélina sér við hlið. Eitthvað virtist nærvera Guðmundar setja skólastjórann út af sporinu því hann var sífellt að gjóa augunum á Guðmund. Þegar Valdimar er stressaður þá á hann það til að verða mjög óðamála og vaða úr einu í annað eins og Nonni Geiri í sínu besta formi. Við þessar aðstæður sem hér hefur verið lýst, þá lét Valdimar þessi skemmtilegu ummæli falla í miðri ræðu um dag íslenskrar tungu: "Já, þetta er hann Guðmundur Gunnarsson. En hann kemur þessum degi nákvæmlega ekkert við" ! Við svo búið hélt hann áfram að tala um Jónas Hallgrímsson og einhverja slíka drykkjumenn.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?