<$BlogRSDURL$>

Friday, May 29, 2009

Fagnaðarlæti í N-Kóreu
Síðuhaldari skilur ekki þennan misskilning sem er í gangi varðandi aðgerðirnar í Norður Kóreu. Menn virðast halda að kommarnir hafi verið að sýna einhverja ógnandi tilburði með þessum kjarnorkusprengjum sínum. Þetta er alger misskilningur. Þeir voru einungis að fagna því að skoðanasystkini þeirra hefðu komist til valda á Íslandi. Vandamálið var að þeir áttu ekki flugelda til að skjóta á loft, systuflokknum á Íslandi til heiðurs, vegna þess að slíkt húmbúkk er náttúrulega harðbannað í Norður Kóreu. Þeir urðu því að notast við kjarnorkusprengjurnar en það verður að taka viljann fyrir verkið hjá þeim. Menn eiga því náttúrulega ekki að venjast að upplýstar þjóðir láti byltingarsinna sprengja lýðræðislega kjörna ríkisstjórn og kjósi síðan yfir sig sósílisma í kjöldfarið. Það er því ekki nema von að mannúðartröllin í Norður Kóreu gleðjist yfir þessu og líklega halda þeir ekki vatni yfir nýja heitinu á sósíalismanum: "Norrænt velferðarþjóðfélag"!

Orðrétt
"Hann er með blauta ullarvettlinga maðurinn"
- Svali Björgvinsson sálfræðingur um körfuboltamanninn Ben Wallace í þriðja leik Orlando og Cleveland í útsendingu á Stöð2 sport á dögunum.

Tuesday, May 26, 2009

Hryllingsmyndir
Morgunblaðið hefur nú tekið þá ákvörðun að birta myndir af þeim sem rita um íþróttakappleiki með umfjölluninni í blaðinu. Þessi nýbreytni er þegar komin í gagnið á síðum blaðsins. Rétt er að biðja lesendur Morgunblaðsins afsökunar á þessu. Það er jú ástæða fyrir því að við erum ekki að vinna í sjónvarpi.

Sunday, May 24, 2009

Orðrétt
"Þeir [Færeyingar] láta menn ekki hafa heimildir til að kaupa brennivín nema þeir hafi borgað skattana sína. Þetta er alveg snilldargóð hugmynd, afar góð og holl þjóðfélagsleg hugmynd. Fyrst leggur þú þitt af mörkum til samfélagsins og síðan máttu fara og kaupa eitthvað af brennivíni fyrir afganginn ef einhver er."
- Steingrímur J. Sigfússon aðalritari VG á Alþingi hinn 2.mars 1988.

Hugrenningar úr Hólshreppi
Nýr pistill frá síðuhaldara á vikari.is. Ágætar tvíbökur.

Friday, May 22, 2009

Orðrétt
"Við megum ekki láta hagsmuni fárra víkja fyrir hagsmunum margra"
- Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra leggur línurnar fyrir kjörtímabilið í stefnuræðu sinni á Alþingi mánudaginn 18. maí 2009.

Tuesday, May 19, 2009

Orðrétt
Tillaga ríkisstjórnarinnar um aðild að Evrópusambandinu er slíkt fádæma rugl að hún á sér engan líka. Verði hún samþykkt fær ríkisstjórnin samþykki Alþingis fyrir því að leggja inn umsókn um aðild að ESB án nokkurra skilyrða né samningsmarkmiða og það sérkennilega er að ákveðið er fyrirfram að aðildarsamningur verði gerður og um hann kosið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er þó skýrt að ætlunin er að gera samning hvað sem tautar og raular. Meira að segja segir í greinargerð með tillögunni að stjórnvöld áskilji "sér rétt til að mæla með eða leggjast gegn samningnum þegar hann liggur fyrir enda eru settir margvíslegir fyrirvarar við hugsanlegan stuðning við málið". Hvers konar þvættingur er þetta? Hver á að trúa því að sá sem gerir samning og undirskrifi hann ætli sér svo ekki að mæla með því að hann verði samþykktur?
- Kristinn H. Gunnarsson fyrrverandi alþingismaður í færslunni "Fádæma rugl" á heimasíðu sinni þann 14. maí 2009.

Friday, May 15, 2009

14.maí
14. maí er sjálfsagt ekki síður merkilegur dagur en til dæmis 15. maí eða bara einhverjir aðrir dagar. En í gær voru sex ár liðin frá því að uppáhaldsvefrit síðuhaldara; Vef-þjóðviljinn birti þessa fróðlegu og áhugaverðu færslu.

Orðrétt
"Taktu eftir því að Úkraína og Bosnía eru einu fyrrum Júgóslavíu ríkin sem eru í úrslitunum annað kvöld"
- Páll Óskar Hjálmtýsson tónlistarmaður og landafræðingur ræðir um Eurovision söngvakeppnina í hádegisfréttum RÚV í dag.

Wednesday, May 13, 2009

Munnmælasögur#103
Í mörgum bæjum er algengt að gælunöfn séu notuð í daglegu tali og þar er Bolungarvík engin undantekning. Slík nöfn festast gjarnan í minninu frekar en skírnarnöfnin sjálf. Einhverju sinni komu íslenskir ferðamenn í bæinn og fóru að spyrja heimamenn um fólk sem þau hefðu haft kunningsskap við. Þekktu þau ekki mjög náið en sögðust vilja banka upp á hjá þeim fyrst þau væru stödd í Víkinni. Spurðu þau einn Víkarann hvar þau og Jón og Guðbjörg byggju. Kannaðist hann ekki við að þau byggju í bænum. Ferðalangarnir spurðu því annan heimamann hvar Jón Guðfinnsson og Guðbjörg Hermannsdóttir byggju í bænum. Sá viðmælandi kannaðist ekki heldur við þetta fólk og var aðkomufólkið hætt að skilja í þessu. Þegar þau nefndu þetta við þriðja heimamanninn fengu þau svipuð viðbrögð. Þá létu þau fylgja með að þau héldu að gatan sem þau byggju við héti Höfðastígur. Þá kviknaði skyndilega á perunni hjá heimamanninum sem ekki hafði kannast við Jón Guðfinnsson og Guðbjörgu Hermannsdóttur. Sagði hann skyndilega: "Jaaaáaa. Evvi og Bugga. Þau búa hjá skólanum og heilsugæslustöðinni."

Tuesday, May 12, 2009

Spá fyrir Pepsí-deildina
Hin árlega spá gleymdist hreinlega í þetta skiptið og kemur því þegar einni umferð er lokið af tuttugu og tveimur. Annars held ég að mín spá sé nú ekki mjög frábrugðinn þeim sem hafa farið í loftið hér og hvar.

1. FH
2. Keflavík
3. Fram
4. KR
5. Valur
6. Breiðablik
7. Grindavík
8. Fylkir
9. Fjölnir
10.ÍBV
11.Stjarnan
12.Þróttur

FH er the team to beat. Ofboðslega rútínerað lið með góðan mannskap. Búnir að spila sama kerfið í mörg ár og eru mjög stöðugir. Gleymdu heldur ekki að rækta 2. flokkinn þegar velgengnisárin hófust og fá reglulega efnilega stráka upp í meistaraflokk sem geta gengið inn í leikkerfi þeirra. Þeir eiga eftir sýna mestan stöðugleika en ég held að það hafi verið heilbrigt fyrir mótið að þeir skyldu tapa í fyrstu umferð. Þá er von um smá spennu. Keflavík hefur misst mjög sterka leikmenn á síðustu tveimur árum. Engu að síður eru mjög sterkir leikmenn í liðinu, Hólmar, Símun, Jóhann B og fleiri. Ef danski markvörðurinn og slóvenski miðvörðurinn standa fyrir sínu þá verða þeir öflugir. Eru búnir að vera við toppinn í nokkur ár. Fram sýndi stöðugleika í fyrra. Voru skynsamir og vel skipulagðir. Litlar breytingar hjá þeim þegar uppi er staðið. McShane bættist við hópinn í dag, þeirra besti maður í fyrra. Reynir Leós farinn en Kristján Hauks í staðinn. Ekki óraunhæft að þeir haldi 3. sætinu. KR gæti hæglega endað ofar en í 4. sæti en þá þarf ýmislegt að ganga upp. Spurning hvernig Hollendingarnir Rutgers og Prince koma út. Miðjan verður gríðarlega sterk með þá Jónas Guðna og Baldur Sig. Bjarni getur auk þess leyst þá af. Þessi spá breytir ekki röðun á fimm efstu liðunum frá því í fyrra. Valsmenn eru því áfram í 5. sæti. Eins og fram hefur komið er nánast búið að skipta nýju liði inn og það væri ævintýralega sterkt hjá Willum ef hann næði að pússla því almennilega saman í bara 22 leikja móti. Þetta lið er hins vegar líklegt til afreka 2010 ef rétt er haldið á spilunum. Breiðablik hefur framleitt góða leikmenn á færibandi undanfarin ár en hafa misst reynda erlenda leikmenn. Góðir knattspyrnumenn í liðinu en einn stuðningsmaður liðsins sagði við mig að þeir yrðu brothættari en margan grunar. Grindavík spjaraði sig síðasta sumar eins og síðuhaldari reiknaði með. Jankovic er mjög klókur þjálfari og nær jafnan miklu út úr sínum mannskap. Liðið þarf vissulega á því að halda að lykilmenn skili sínu til þess að þessi spá gangi eftir. Fá væntanlega fleiri stig á heimavelli en í fyrra. Fylkir er með mun yngra lið en undanfarin ár. Það vantaði alla gleði hjá þeim í fyrra og kannski er Óli Þórðar rétti maðurinn til þess að rífa þá upp en breiddin er sennilega ekki mikil í hópnum. Fjölnir kom síðuhaldara talsvert á óvart í fyrra. Ásmundur hefur gert þvílíka hluti í Grafarvoginum undanfarin ár. Hann hefur misst marga lykilmenn og telst líklega gott að halda liðinu uppi en margir reynslulitlir leikmenn í byrjunarliðinu. Síðuhaldari hefur ekki séð ÍBV spila í ár. Ef þeir ná upp Eyjastemningu og fá sinn skammt af stigum á heimavelli þá geta þeir bjargað sér. Leiðinlegt að spá einhverjum falli. Siðuhaldari veit lítið um lið Stjörnunnar og spáir þeim þess vegna falli. Spurning hvernig þetta kemur út hjá þeim að æfa og spila 50/50 á gervigrasi og grasi. Þeir byrjuðu mótið vel og geta eflaust komið á óvart. Þróttur stóð sig vel í fyrra og fékk mikið framlag frá lykilmönnum í fyrra eins og Sigmundi, Danry og Jackson. Tveir þeirra farnir og Danry færist aftar á völlinn. Þróttarar voru klókir í fyrra og nýttu líkamlega styrk mjög vel. Þetta gæti orðið mun erfiðara hjá þeim í sumar.

Monday, May 11, 2009

Mánudagur
Er þetta ekki svolítið stemningin í dag? Reyndar er nú mikil saga á bak við umfjöllunarefnið í laginu. Þar sem Kalli Hallgríms hefur svo gaman að svona tónlistargetraunum þá er nú í lagi að spyrja; um hvað voru Boomtown Rats að yrkja? Að sjálfsögðu bannað að googla en sigurvegarinn fær ráðherrastól í sósíalistastjórninni um áramót.

Friday, May 08, 2009

Eftirhermur
Svo virðist sem fleiri en feðgarnir Rögnvaldur pensill Magnússon og Magnús Hansson geti hermt eftir samtímamönnum sínum. Til dæmis er Guðmundur Gunnarsson, fyrrum flugfreyjumaður, alveg prýðileg eftirherma en hann vill ekki segja frá því. Hann er hræddur um að það þyki ekki nógu töff. Samkvæmt rannsóknum síðuhaldara þá hafa menn einnig spreytt sig á eftirhermulistinni utan landssteinanna. Gæðaleikarinn Kevin Spacey er greinilega nokkuð langt leiddur eins og þetta brot sýnir glögglega.

Wednesday, May 06, 2009

Orðrétt
Í gær birti Morgunblaðið viðtal við Þórhall Sigurðsson leikstjóra, og eins og margir vinstrimenn hefur hann ýmsar fróðlegar hugmyndir um lífið og tilveruna. Þannig vefst það ekki fyrir Þórhalli hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn hafi stýrt Reykjavíkurborg áratugum saman. Það var auðvitað ekki vegna fylgis flokksins meðal borgarbúa heldur vegna samstöðuleysis vinstrimanna. Eða eins og Þórhallur fullyrðir hikstalaust við þá lesendur Morgunblaðsins sem eftir eru: "Þetta fólk hélt Sjálfstæðisflokknum við völd í Reykjavík, ásamt því að hinir flokkarnir voru sundurlyndir. Það er nefnilega staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn náði aldrei 50% fylgi í Reykjavík, en var samt með meirihluta, því hinir flokkarnir voru sundraðir."

Já það er "nefnilega staðreynd" fullyrðir Þórhallur blákalt í viðtalinu. Raunar er staðreyndin sú, að frá því Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður árið 1929 og þar til flokkurinn fékk meira en 60% atkvæða undir forystu Davíðs Oddssonar í borgarstjórnarkosningum árið 1990, gerðist það beinlínis oftar en ekki að flokkurinn fékk meira en 50% atkvæða í sveitarstjórnarkosningum í Reykjavík. Alls gerðist það níu sinnum á þessum tíma að Sjálfstæðisflokkurinn fékk meira en 50% gildra atkvæða í Reykjavík. Eða nánar tiltekið: árið 1930 fékk hann 53%, 1938 54,7%, 1950 58,8%, 1958 57,7%, 1962 52,8%, 1974 57,8%, 1982 52,5%, 1986 52,7% og 1990 60,4%. Eða eins og Þórhallur Sigurðsson fræðir lesendur Morgunblaðsins: "Það er nefnilega staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn náði aldrei 50% fylgi í Reykjavík."

Má Vefþjóðviljinn leggja það til, að næst þegar Morgunblaðið vill fara til Þórhalls Sigurðssonar eftir staðreyndum, að blaðið reyni þá Ladda frekar.

- Vef-þjóðviljinn hinn 4. maí 2009.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?