<$BlogRSDURL$>

Wednesday, May 12, 2010

Orðrétt
"Seðlabankar Evrópulanda hafa í morgun hamstrað ríkisskuldabréf Grikklands og fleiri skuldsettra Evrulanda. Hlutabréf banka og fjármálafyrirtækja hækkuðu í kjölfarið. Auður var færður frá skattgreiðendum til hlutabréfaeigenda í bönkum. Okkur er sagt að það sé verið að bjarga veslings Grikklandi, Spáni og Portúgal með því að Evrópusambandið, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og ýmis ríki heims taki sig nú saman og ausi fé í galtóman ríkiskassann í Aþenu. En hverjum er í raun verið að bjarga? Jú þeim sem tóku þá fáránlegu áhættu að lána yfirskuldsettum ríkissjóði Grikkja. Hvergi virðast þeir sem hafa hagað sér eins og fáráðlingar mega fara í þrot í friði fyrir "björgunaraðgerðum". Svo er þetta allt skrifað á reikning frjáls markaðar. Hve frjáls er sá markaður þar sem menn mega jafnvel ekki verða gjaldþrota?"

- Vef-þjóðviljinn hinn 10. maí 2010.

Monday, May 10, 2010

Spá fyrir Pepsí deildina
Það hefur skapast hefð fyrir því að birta árlega spá fyrir Íslandsmótið í knattspyrnu 2010. Nokkrir lesendur hafa komið að máli við síðuhaldara og farið fram á að slíku verði framhaldið þrátt fyrir slælegar uppfærslur á þessu annars ágæta síðuhaldi.

1. Keflavík
2. FH
3. KR
4. Breiðablik
5. Fram
6. Valur
7. Grindavík
8. ÍBV
9. Stjarnan
10. Haukar
11. Fylkir
12. Selfoss

Er á leiðinni á völlinn að sjá fyrsta leik mótsins en skutla inn laufléttum rökstuðningi. Hann verður þó ekki mjög merkilegur því þessari spá er kastað fram án þess að hafa séð liðin að neinu marki í innanhússsparkinu í vetur. Það má því segja að þessi spá sé út í loftið. Spái Keflavík 1. sæti til þess að halda friðinn við samstarfsmann í bókaútgáfu. Þeir hafa þó mannskapinn í þetta ef litið er til þeirra leikmanna sem snúið hafa heim á undanförnum árum. Lítið að marka árið í fyrra þar sem Hólmar missti um helming úr en hann er náttúrlega lykilmaður. FH er liðið sem þarf að ryðja úr vegi til þess að ná titlinum enda hafa þeir nánast einokað þetta undanfarin ár og nánast óvirðing að spá þeim ekki titlinum. Eru meira spurningamerki vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á leikmannahópnum. Nokkrir mjög reyndir menn farnir. KR hefur mannskapinn til þess að verða meistari og spilamennska liðsins seinni hluta mótsins í fyrra bendir til þess að liðið verði í baráttunni. Liðið þarf þó að sýna að það sé líf eftir Gumma Ben. Það gerðu þeir ekki síðast og Valur ekki heldur í fyrra. Liðin virðast verða háð honum í sóknarleiknum. Breiðablik er lið sem áhugavert verður að fylgjast með. Fyrsti bikarinn kominn í hús og mjög sterk kynslóð tekinn við. Eru einnig með Bolvíkinginn Gumma Kristjáns innanborðs. Fram hefur sýnt stöðugleika undir stjórn Þorvaldar. Engin sérstök ástæða til þess að ætla að það breytist nú. Eru einnig með Bolvíkinginn Jón Guðna innanborðs. Valur er stórt spurningamerki enda miklar breytingar orðið á Hlíðarenda. Þrátt fyrir slakt gengi í fyrra þá eru engu að síður margir gæða knattspyrnumenn í hópnum. Eru einnig með Bolvíkinginn Matthías Guðmundsson innanborðs. Grindavík mun verða á sömu slóðum. Geta unnið hvern sem er þegar þeir eru í stuði en skortir stöðugleika. Grétar, Scotty og Ondo verða skemmtilegir í framlínunni. ÍBV hefur fengið til sín sterka leikmenn eins og Tryggva og Finn til þess að vega upp á móti brotthvarfi Bolvíkingsins Péturs Run. Þeir eru þó alltaf spurningamerki og gætu þess vegna fengið Englendinganna aftur á síðustu stundu og yrðu þá miklu sterkari. Stjarnan kom á óvart í fyrra og eru líklega með sterkara lið en þá. Voru þó ekki burðugir í seinni umferðinni og menn eru hættir að vanmeta þá. Haukar hafa fengið nokkra mjög reynslumikla leikmenn, (þar á meðal stöðugan markmann) sem gætu gert gæfumuninn í fallbaráttunni. Fylki spái ég 11. sætinu til þess að æsa upp stjórnmálafræðing hjá Hagstofunni og vona að Óli Þórðar rambi ekki inn á þetta blogg. Eru reyndar ekki með stóran hóp og comeback Óla Stígs á vormánuðum bendir ekki til þess að útlitið sé gott. Síðuhaldari hefur ekki séð marga leikmenn Selfoss leika knattspyrnu og veit ekkert um þeirra styrk. Þessi spá er sett fram með það í huga að Gummi Ben mun líklega ekki spila.

Wednesday, May 05, 2010

Ekkert nýtt undir sólinni
Síðuhaldari brá sér í kvöldmatnum út á Subway í Ártúnsbrekkunni. Þar var staddur Guðjón Kristinsson frá Dröngum. Sat hann til borðs með tveimur ungum og myndarlegum konum. Í ótryggum heimi er gott til þess að vita að sumt breytist aldrei.

Tuesday, May 04, 2010

Orðrétt
"Sýningunni var vel tekið og í lokin risu menn úr sætum og klöppuðu. Það er að verða lenska hér á leiksýningum og tónleikum að salurinn er að standa upp í tíma og ótíma, eins þótt engin stórafrek hafi verið unnin. Kannski er fólk svona þakklátt fyrir að hafa ekki þurft að sitja undir leiðindum og bulli, eins og svo oft hefur verið í íslensku leikhúsi á síðari árum. En þetta er samt ekki rétt. Hvað eigum við þá að gera þegar leikhúsinu tekst að gera eitthvað virkilega gott - sem við hljótum að vona að einhvern tímann verði? Hoppa upp á stólbök og sætisarma eða upp á sviðið?"

- Jón Viðar Jónsson leiklistargagnrýnandi DV í umfjöllun um Íslandsklukkuna hinn 26. apríl 2010.

Tvær forsíður Daily Star?
Eiður Smári Guðjohnsen prýðir forsíðu slúðurblaðsins Daily Star í dag. Systurblaðið heima á Íslandi sem feðgarnir ritstýra með sama myndarbrag fjallar um málið á heimasíðu sinni í kvöld. Ekkert óeðliegt við að íslenskur fjölmiðill fjalli um það þegar Íslendingur ratar á forsíðu erlends blaðs. Eitt vakti þó athygli mína. Ég get ekki séð að það sé sama forsíðan sem birt er á heimasíðu Daily Star og sú sem dv.is vísar í með sinni frétt. Textinn neðst á síðunni er alla vega ekki sá sami. Dæmi hver fyrir sig: Daily Star útgáfan. Útgáfan sem DV birtir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?