<$BlogRSDURL$>

Saturday, November 20, 2010

Orðrétt
"Stjórnvöldum þykir ekki nóg um upplausn og deilur í þjóðfélaginu og því hafa þau ákveðið að einmitt núna þurfi að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins og að skynsamlegast sé að efna til kosningar til sérstaks stjórnlagaþings. Það hefur gert það að verkum, að fjöldi lukkuriddara er nú í óða önn að finna sér einhver baráttumál, einhverjar stjórnarskrárbreytingar sem alls ekki þoli bið.

Sumum hefur ekki gengið betur en svo, að þeir nefna það fyrst af öllu að breyta þurfi þeirri stjórnarskrárgrein er fjallar um samband ríkisins og kirkju. Svo furðulega vill til, að þar er einmitt sú stjórnarskrárgrein sem minnstar líkur eru á að nokkru sinni verði breytt með stjórnarskrárbreytingu, og því sú grein sem stjórnlagaþingið á minnst erindi við, og er þá mikið sagt.

Í 62. gr. stjórnarskrárinnar segir: "Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum." Í 2. mgr. 79. gr. segir svo, að ákveði alþingi slíka breytingu skuli hún borin undir þjóðaratkvæði.

Stjórnarskránni verður einungis breytt á alþingi, það þarf að gerast tvívegis og með alþingiskosningum á milli. Stjórnarskrárgrein verður því aldrei breytt nema meirihluti alþingismanna ákveði að efna til slíkrar breytingar. Vilji meirihluti alþingismanna gera þá breytingu, að hin evangelíska lúterska kirkja verði ekki lengur þjóðkirkja á Íslandi, verður það að sjálfsögðu gert með þeim hætti sem stjórnarskráin tiltekur, það er að segja með samþykkt alþingis sem í framhaldinu verður borin undir þjóðaratkvæði. Þessari stjórnarskrárgrein verður ekki breytt með stjórnarskrárbreytingu, nema þá að menn vilji festa þjóðkirkjuskipanina sérstaklega í sessi með því að afnema heimild alþingis til að gera á henni breytingar. En það munu þeir víst ekki vilja, sem tala hátt um að breyta 62. grein stjórnarskrárinnar. Kirkjuskipaninni verður því ekki breytt með stjórnarskrárbreytingu heldur lagabreytingu.

Þeir stjórnlagaþingframbjóðendur sem nefna breytingu á kirkjuskipan sem sitt helsta baráttumál, þeir vaða reyk. Þeir ættu fremur að bjóða sig fram til alþingis en stjórnlagaþings."

Vef-þjóðviljinn, hinn 15. nóvember 2010.

Munnmælasögur#110
Fyrir nokkrum árum hélt fjöldinn allur af Bolvíkingum til Islandtilla í Andalúsíu á Spáni til þess að leika golf. Nokkrir traustir menn höfðu farið árlega á Tillann eins og það er kallað og smám saman vatt sá hópur utan á sig. Í ferðinni sem hér um ræðir voru margir snillingar og meðal annara voru Jón Steinar Guðmundsson frá Dröngum og Rögnvaldur Pensill Magnússon.

Á heimleiðinni brugðu Jón og Rögnvaldur sér á salernið á flugvellinum í Portúgal. Jón situr inni á Gustavsberginu en Rögnvaldur stendur við vaskana og fór með einhverjar setningar úr Fóstbræðrum á meðan hann beið eftir Jóni. Skyndilega heyrast mikil hljóð innan úr klósettbásunum og lætin voru slík að þarna hlaut að sitja einstaklingur með alvarlegar meltingartruflanir. Rögnvaldur hrópar upp yfir sig: "Jón!!!" Þar sem þeir félagar eru báðir afskaplega þroskaðir einstaklingar þá sprungu þeir gersamlega úr hlátri, Jón á básnum og Rögnvaldur við vaskinn. Eftir drjúga stund og óhemju mikinn hlátur, þá tókst Jóni loksins að stynja upp með herkjum, hálf vælandi: "Þetta er ekki ég!" Þá rann loks upp fyrir Rögnvaldi að það var alls ekki Jón sem var að misþyrma postulíninu heldur maður á næsta bás sem reyndist vera Íslendingur úr Islandtilla ferðinni. Jón og Rögnvaldur hröðuðu sér út og biðu fyrir aftan nálæga súlu og fylgdust með hver kæmi næst út af salerninu á eftir þeim.

Wednesday, November 10, 2010

Orðrétt
"Nei nei, ég hef aldrei farið ofar en Playboy"

- Bragi Kristjónsson, fornbókasali í Kiljunni í kvöld, spurður um hvort hann hafi einhvern tíma verið með klámfengnar bókmenntir til sölu í búðinni.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?