<$BlogRSDURL$>

Saturday, March 27, 2010

Orðrétt
"Þetta er dæmigert fyrir tómlæti Íslendinga í garð Kim Kardashian. Þeir láta upp til hópa eins og hún sé ekki til."

- Orri Páll Ormarsson stjörnublaðamaður Morgunblaðsins í Ljósvakanum í Morgunblaðinu þriðjudaginn 23. mars 2010.

Monday, March 22, 2010

Munnmælasögur#109
Þórður Gunnarsson, rannsóknarblaðamaður á Morgunblaðinu, kom að máli við síðuhaldara og heimtaði að hér yrði sögð ný munnmælasaga.

Í Munnmælasögu#87 var þess getið að Vestfirskir Gleðipinnar voru rændir í einum verslunarmannahelgar leiðangri sínum fyrir margt löngu. Þeir voru þá staddir í Atlavík og óprúttnir einstaklingar brutust inn í tjaldbúðir þeirra og stálu flestu steini léttara. Komust þjófarnir vissulega í feitt því Gleðipinnarnir höfðu ýmislegt misnauðsynlegt með sér í slíkar ferðir. Morguninn eftir reyndu Gleðipinnarnir að sleikja sárin þegar þeir áttuðu sig á því höggi sem þeir höfðu orðið fyrir. Undruðust menn mjög að enginn þeirra skyldi vakna við allan umganginn sem verknaðinum hlýtur að hafa fylgt. Heyrðist þá Benni Óskars umla: "Mér fannst ég rumska eitthvað í nótt og heyrðist einhver segja: Hér er ekkert meira að hafa"!!!

Big Ron#4
"Hann getur kastað lengra en ég get farið í frí"

- Big Ron Atkinsson um Rory Delap leikmann Stoke í sjónvarpslýsingu fyrir nokkrum árum.

Sunday, March 21, 2010

Hinir vammlausu
DV hefur undanförnum vikum boðið upp á tvö áberandi viðtöl við þekkta athafnamenn. Hið fyrra við Jóhannes Jónsson og hið síðara við Pálma Haraldsson. Í svipinn man ég ekki eftir viðtali sem hefur verið pantað með jafn áberandi hætti og viðtalið við Jóhannes. Alla vega ekki í frjálsum fjölmiðli. Ekki fór á milli mála að það átti að gera manninn alþýðlegan. Svo alþýðlegan reyndar að það mátti ekki einu sinni kalla hann Jóhannes Jónsson eða Jóhannes í Bónus á forsíðu blaðsins. Þettu eru jú þau nöfn sem iðulega hafa verið notuð um þennan mann í fjölmiðlum. Nei nú er hann skyndilega orðinn Jói í Bónus eins og stóð á forsíðu blaðsins. Til þess að hnykkja örugglega á því hvað þessi alþýðlegi maður er mannlegur þá var birt mynd af honum með barnabörnunum yfir hálfa síðu.

Síðara viðtalið virtist ekki vera pantað, alla vega var það ekki eins áberandi og í fyrra tilfellinu. Það var ekki heldur eins og slepjulegt og frekar til þess fallið að selja blaðið sem gerir jú út á lausasölu. Það sem vakti mesta athygli síðuhaldara var einfaldlega málflutningur viðmælandans, Pálma Haraldssonar. Hann sagði í raun í viðtalinu að hann væri snarklikkaður, og ef laganna verðir væru ekki að vakta hann dag og nótt þá væri hann líklegur til þess að brjóta lögin. Það er alla vega ekki hægt að skilja málflutning hans öðruvísi, þegar hann útskýrir framferði sitt og viðskiptafélaga sinna. Hann var annars vegar bara þáttakandi í leiknum og hins vegar áttu opinberir aðilar að stoppa hann. Það er út af fyrir sig stórkostleg hugmyndafræði að ætlast til þess að aðrir stoppi mann áður en maður framkvæmir eitthvað ósiðlegt eða áður en maður brýtur lögin.
Passið ykkur á myrkrinu.

Friday, March 19, 2010

Er aldrei neitt að marka Halla Pé?
Harald Pétursson frændi minn starfar nú hjá símafyritækinu Nova. Starfaði hann áður hjá Vodafone og þar áður hjá Tal en á hverjum tíma voru öll þessi fyrirtæki náttúrlega þau langbestu í þeim bransa að hans sögn og sparaði hann síst yfirlýsingarnar. Halli sagði gjarnan að bestu verðin væru hjá Tali en þegar ég fór að rifja það upp við hann um daginn þá átti það bara alls ekki lengur við. Allt getur þetta nú verið svolítið ruglingslegt fyrir einfaldar sálir eins og síðuhaldara.

Vandfundinn er sá Bolvíkingur sem ekki fékk sér talnúmer þegar Halli var hjá Tali og er síðuhaldari þar ekki undanskilinn. Fékk síðuhaldari númerið 6951977 og þótti það gríðarlega fínt enda fæddur 1977. Þessu fylgir hins vegar sá galli að sá tími kemur að maður vill ekkert endilega vera að flagga fæðingarári sínu á skemmtistöðum borgarinnar. Síðuhaldari fékk því Novanúmer þegar Halli hafði félagaskipti þangað enda hélt hann yfir manni innblásnar ræður um heiðarleika og fjármálasnilli Björgólfs Thors. Halli sýndi mér þá alls kyns sniðug númer enda voru þau flest öll
laus því fyrirtækið hafði ekki hafið starfssemi með formlegum hætti. Síðuhaldari hafði nefnilega verið valinn sem tilraunadýr fyrir Nova. Líklega hefur síðuhaldari þótt tilvalinn í það hlutverk vegna yfirgripsmikillar þekkingar á farsímatækni og ástríðufulls áhuga á tækniframförum ýmis konar. Nova númerin byrja á 77 sem býður náttúrlega upp á ýmsa möguleika. Ég sagði við Halla að það væri ekki erfitt að velja númar. Ég vildi bara fá númerið 7777777 og yrði ekki til vandræða eftir það. Halli sagði að það gengi alls ekki, þó hann hefði áður sagt að ég gæti bara valið mér hvaða númer sem væri. Þetta númer væri bara alls ekki laust og myndi aldrei fara í almenna umferð. Í besta falli myndi Bjöggi nota það sjálfur. Síðuhaldari fékk því númerið 7700110 sem var næst besti kosturinn í stöðunni. Það var hins vegar jafn mikið að marka þessa ræðu eins og aðrar hjá Halla því rúmum teimur árum síðar fer maður á netið og þá er númerið 7777777 í öllum fréttum og í boði fyrir Pétur og Pál!

Passið ykkur á myrkrinu.

Thursday, March 11, 2010

Orðrétt
"Það truflar hann (Rooney) ekkert að hafa hvílt um síðustu helgi. Það truflar Gary Neville ekkert að hafa hvílt í tvö ár."

- G. Ben í banastuði á Sýn í gærkvöldi í lýsingu á leik United og Milan. Það má svo fylgja með að leikurinn fór 4:0.

Tuesday, March 09, 2010

Næturblogg
Um tíma skapaðist talsverð umræða vegna næturbloggs tveggja þingmanna. Annar hefur þeirra hefur horfið af vettvangi stjórnmálanna en hinn var hækkaður í tign. Á þessum tíma voru miklar vangaveltur í gangi hvort það væri tilhlýðilegt að blogga á nóttunni og hvort sumir af hörðustu bloggurum landsins væru að skrifa undir áhrifum áfengis. Síðuhaldari rakst nú á einn bloggara sem virðast hafa sett inn færslu undir áhrifum áfengis eða í mikilli neyslu. Hann heitir Haraldur.
Passið ykkur á myrkrinu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?