<$BlogRSDURL$>

Thursday, December 27, 2007

Næturvaktin
Síðuhaldari mun nú feta í fótspor iðnaðarráðherra og skrifa aðeins um Næturvaktina. Síðuhaldari hefur ekki fengið önnur eins hlátursköst í annan tíma, og þá sérstaklega í tveimur til þremur atriðum, sem rétt er að nefna ekki ef einhverjir skyldu eiga eftir að leggjast yfir þetta. Úrvals tvíbökur þarna á ferð. Það heyrir til tíðinda að karl faðir minn þrælaði sér í gegnum alla tólf þættina. Hann hefur lýst áhyggjum sínum af því að enginn muni framar versla við þessa bensínstöð Skeljungs, og veltir því fyrir sér hvernig virðulegt fólk eins og Þjóðleikhússtjóri hafi verið platað til þáttöku.

Brimbrjóturinn kominn út
Vek athygli Bolvíkinga nær og fjær á því að Brimbrjóturinn er kominn út. Mæli þar sem sérstaklega með frásögn Bjarna Benediktssonar af mannskaðaveðrinu í byrjun febrúar 1968. Einnig er í blaðinu viðtal við Magnús Pálma. Mætur maður þar á ferð sem segir skemmtilega frá, þó vissulega hefði verið hægt að fá betri penna til að skrifa niður eftir honum. Alveg ágætar tvíbökur.

Orðrétt
"Þið eruð nú ekki þjakaðir af háskólagráðum"
- Sigmar Guðmundsson í samtali við Jón Ásgeir Jóhannesson og Magnús Scheving í Kastljósi kvöldsins.

Sunday, December 23, 2007

Naríur á gjafaprís
Foreldrar mínir rákust um daginn á Ingvar Ástmars og Jónu Lassa í Köben. Í tal barst að Ástmar væri einn eiganda nýrrar tuskubúðar á Laugaveginum. Ingvari og Jóni Friðgeir fannst afar merkilegt að þar væri hægt að kaupa nærbuxur á 9.900 krónur. Og það væri meira að segja hægt að fá þær í fleiri en einum lit !

Monday, December 17, 2007

Ný pistill
Búið er að birta nýjan pistil eftir síðuhaldara á Víkaranum. Ilmandi fínar tvíbökur þarna á ferðinni.

Munnmælasögur#71
Um leið og lesendur eru hvattir til þess að versla ástralskt kengúrukjöt hjá Kaupfélagsstjóranum í Samkaup, þá fer hér í loftið ein saga af honum og verndara Bloggs fólksins, HáEmm.

"HáEmm fór í sumar með eitthvert af börnunum sínum til læknis á Ísafirði. Þegar HáEmm var á heimleið mætti hann Kaupfélagsstjóranum í biðstofunni. Um leið og læknirinn fylgdi Kaupfélagsstjóranum inn á skrifstofuna þá kallaði HáEmm á lækninn og dró hvergi af sér: "Í Guðanna bænum gefðu honum eitthvað verðlækkandi" !!

Big Ron#3
Eftir mikla trúarbragða umræðu undanfarna daga, kom upp í hugann ein saga til viðbótar, af Big Ron Atkinson, en hann mun seint deyja úr minnimáttarkennd. Big Ron var um tíma knattspyrnustjóri hjá West Bromwich Albion, en þá léku kunnir kappar með liðinu eins og Bryan Robson og Cyrille Regis. Nokkrum árum síðar rakst Big Ron á Cyrille Regis, sem þá hafði rætt opinskátt um það í fjölmiðlum, að hann hefði frelsast. Big Ron var ekki orða vant frekar en fyrri daginn: "Hvaða þvæla er þetta að þú hafi verið að finna Guð? Þú lékst undir hans stjórn hjá West Brom í fjögur ár!"

Wednesday, December 12, 2007

Hættuleg þróun
Ég frétti að Birna Lár hefði talað fyrir nauðungarsameiningu sveitarfélaga á ráðstefnu sveitarfélaganna í nóvember. Þetta kemur mér frekar á óvart því ég hefði talið að það væri ekki í anda hægri manna að neyða íbúa sveitarfélaga í sameiningar. Það hefur verið einhver umræða í gangi um að lágmarks fjöldi íbúa í sveitarfélagi fari úr 50 í 500. Birna mun hafa sagt að hún vildi sjá þessa tölu fara upp í 1000. Það er ekki góð þróun að mínu mati að stjórnmálamenn/ríkisvaldið taki ákvarðanir um hvort sveitarfélög sameinist eða ekki. Slíkt hefur gjarnan verið sett í dóm íbúanna með kosningu en hins vegar hefur skort á að stjórnmálamennirnir/ríkisvaldið vilji una niðurstöðunni ef sameiningu sé hafnað. Hættan er sú að boðað sé til kosninga um nákvæmlega sama efni þar til "rétt" niðurstaða fæst. Varðandi þessa tölu sem Birna nefndi þá skil ég ekki almennilega af hverju talan 1000 sé eitthvað viðmið. Hver er munurinn á sveitarfélagi sem er með 900 íbúa eða sveitarfélagi sem er með 1100 íbúa? Hann er nákvæmlega enginn. Það er auðvitað gott og blessað ef íbúar í sveitarfélögum vilja sameinast. Ég held að þeir séu full færir um það sjálfir en að þeir séu neyddir til þess af stjórmálamönnum/ríkisvaldinu er hættuleg þróun.
Passið ykkur á myrkrinu

Sunday, December 09, 2007

Orðrétt
"Árið 1987 var ár þungarokkshljómsveitarinnar Whitesnake. Breiðskífa hennar, sem bar nafn hljómsveitarinnar, naut fádæma vinsælda beggja vegna Atlantsála, ekki síst ofursmellurinn Here I Go Again sem kom sér makindalega fyrir á toppi bandaríska smáskífulistans. Bæði var laglínan grípandi og ekki spillti eggjandi myndbandið fyrir. Þar steig ung rauðhærð þokkadís munúðarfullan dans á vélarhlífum tveggja glæsibifreiða íklædd hvítum náttkjól. Þeir karlmenn sem þá voru á aldrinum 13 til 33 ára og kveikja ekki á perunni eru annaðhvort samkynhneigðir eða hafa legið meðvitundarlausir á spítala á þessum tíma."
- Blaðamaðurinn Orri Páll Ormarsson leitast við að svara hinni áleitnu spurningu "Hvað varð um bandarísku leikkonuna og kyntáknið Tawny Kitaen?" í tímamótagrein sinni "Þeysireið þokkagyðju" í Morgunblaðinu í dag.

Á að leysa upp dómarapör?
Dómgæsla í handboltanum er reglulega til umræðu. Lengi hefur loðað við þjóðaríþróttina að dómarar gera afdrifarík mistök einfaldlega vegna þess að reglurnar bjóða upp á of mikla túlkun. Auk þess var spillingin oft á tíðum alls ráðandi í Evrópuleikjum og á stórmótum, þar sem dómarar þáðu mútur. Nýlegt dæmi frá leik Katar og Suður Kóreua sýnir að sá tími er ekki liðinn þó vissulega hafi hlutirnir batnað. Á dögunum sá ég comment á bloggi umbans frá Rúnari Birgi Gíslasyni fyrrum liðsmanni Gettu Betur liðs Laugaskóla. Innlegg hans er með því áhugaverðara sem ég hef orðið var við í slíkri umræðu og ætla þess vegna að birta það hér:

"Þetta mál staðfestir mig enn meir í þeirri trú sem ég hef haft lengi. Það er akkilesarhæll handboltadómara að vera í pörum. Ég hef sagt þetta lengi og rætt við ýmsa handboltamenn sem eru sammála. Afhverju segi ég þetta, t.d. í þessum leik eru ungir og efnilegir dómarar, allavega að sögn Guðjóns formanns dómaranefndar HSÍ. Þessum tveimur mönnum er kastað út í djúpu laugina í þessum leik. Það er ekkert óeðlilegt við það, einhvern veginn verða þeir að öðlast reynslu af stórum leikjum. En þar komum við einmitt að galla dómarapara. Þegar að eru pör þá eru báðir dómararnir jafn ó/reyndir, ef það væru ekki pör eins og er t.d. í körfubolta (já ég var körfuboltadómari og þekki það vel), þá er hægt í þessu dæmi að setja einn kjúkling með reynslubolta á svona leik. Þannig fer sviðsskrekkurinn af kjúklingnum í skjóli reynsluboltans. Smá saman fær svo kjúklingurinn meiri reynslu af svona leikjum og getur dæmt með mönnum með minni reynslu en boltinn sem hann dæmdi með fyrsta leikinn.

Annað sem ég segi oft varðandi þetta paradæmi. Segjum svo að Ísland eigi t.d. frábært par sem dæmir á öllum Ól, HM, Em og hvað þetta allt heitir. Svo gerist það að annar þeirra hefur ekki sömu löngun lengur, kannski ný vinna með meiri kröfur eða stærri fjölskylda sem þarf að sinna. Hann einfaldlega hefur ekki tíma í dómgæsluna lengur. Hinn vill halda áfram en þar sem það er parakerfi þá þarf hann að ná sér í kjúkling og þjálfa hann upp. Hann fær ekki að fara með kjúklinginn á HM, ÓL, EM og allt það.

Svo einn enn punktur sem fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands í handbolta sagði við mig, það er mikið auðveldara að múta pari þar sem báðir koma frá sama landinu en ef t.d. einn kæmi frá Austur Evrópu og hinn frá Vestur. Hangir þetta kannski eitthvða saman með leik Kuwait og SKóreu? Ég styrkist allavega enn í trúnni að handbolti á að hætta með pör ef dómgæsla á að þróast í greininni."

Passið ykkur á myrkrinu.

Thursday, December 06, 2007

Orðrétt
"Íslendingar hætta aldrei að hafa gaman af því að þræta og þjarka og dylgja og drulla yfir náungann. Ef maður skrifar t.d. um óþurft nagladekkja eða eitthvað svoleiðis þá gæti maður átt von á því að fá þau “rök” í athugasemdum að heyrst hafi að maður sé dópsali og hryðjuverkamaður. En þarna eru svo líka oft mjög áhugaverðar málefnalegar greinar klárra náunga og ólík sjónarmið sem vegast á og svo eru þarna þráhyggjusjúklingar, samsæriskenningasmiðir, trúarofstækishallelújahopparar og allskonar furðulegir frauðfroskar og svo náttúrulega fólkið sem er ekki rónni fyrr en maður er með það á hreinu hvað það fékk sér í morgunverð, alveg upp á korn. Semsé öll flóran. Bloggið er skrifleg Þjóðarsál. En miðað við hvað það eru ótrúlega margir illa skrifandi þarna þá finnst mér skrítið að einhver málverndunarfasisti skyldi ekki hafa lagt það til á degi íslenskrar tungu að banna bloggið gjörsamlega."
- Tónskáldið Sverrir Stormsker um bloggheima í nýjasta hefti Mannlífs.

Monday, December 03, 2007

Einræði forðað í bili
Íbúar Venezúela forðuðu sér naumlega frá einræðistilburðum Húgosmundar Chavezarsonar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann segir þó að baráttan muni halda áfram og því spurning hvort tillögurnar verði lagðar í þjóðaratkvæði nægilega oft til að "rétt" niðurstaða fáist. Sem er ekki óþekkt fyrirbrigði. Slíkt tíðkast til dæmis hérlendis þegar íbúar sveitarfélaga hafna sameiningu og þessar pælingar hafa einnig verið varðandi stefnuskrá Evrópusambandsins. En aftur að Húgómundi og einræðinu. Hann lagði sem sagt til að forseti geti setið lengur en í tvö kjörtímabil, og hefur hann raunar lýst sig reiðubúinn til þess að sinna þessu út ævina. Einnig átti forsetinn að fá völd yfir Seðlabankanum, völd til þess að HANDVELJA héraðsstjóra og völd til að lýsa yfir neyðarástandi af litlu tilefni. Í "neyðarástandi" á svo forsetinn að sjálfsögðu að vera einráður. Hér er á ferðinni maður sem þegar hefur skrúfað niður í frjálsum fjölmiðlum í landinu, því best sé jú að bara einn ríkisfjölmiðill geti einbeitt sér að menningarlegri og uppbyggilegri dagskrá. Hafa íslenskir hugsuðir á borð við Guðna Ágústsson talað hlýlega um þennan stjórnmálamann. Ég hef ekki orðið var við að mannréttindasamtök hafi látið hressilega í sér heyra vegna þessara tillagna. Ætli það myndi nú ekki heyrast eitthvað ef núverandi Bandaríkjaforseti myndi leggja fram tillögur á stjórnarskránni til þess að hann gæti setið lengur og ráðið meiru?

This page is powered by Blogger. Isn't yours?