<$BlogRSDURL$>

Saturday, January 30, 2010

Nokkrir punktar um Frakkaleikinn

- Aftur sýndu Frakkar að þeir eru í öðrum klassa en við, því miður. Stórsigur okkur á þeim á HM í Þýskalandi 2007 kemur í veg fyrir að þeir falli í þá gryfju að vanmeta Ísland. Þar var þeim pakkað saman. Þó þeir hafi verið án algers lykilmanns í dag, Bertrands Gille þá áttum við varla séns.

- Rætt og ritað hefur verið um sóknarleik Íslands sem þann besta sem sést hafi í mótinu. Frakkar höfðu greinilega kortlagt sóknarleik okkar gaumgæfilega því þeir áttu nánast alltaf svör við leikkerfunum. Það er nógu erfitt að koma góðu skoti í gegnum frönsku vörnina en ef það tekst þá bíður sá besti í bransanum, Thierry Omyer í markinu og það er nánast ósanngjarnt.

- Þetta var að mig minnir fyrsti leikurinn í keppninni þar sem íslenska liðið þarf að elta. Í öllum öðrum leikjum hefur Ísland byrjað af krafti og náð forskoti sem þeir hafa haldið lengst af leikjanna. Þetta var því eiginlega ný staða fyrir íslenska liðið að lenda undir megnið af fyrri hálfleik.

- Aron var frábær í fyrri hálfleik og Arnór í þeim seinni. Frökkum hefur líklega verið slétt sama því á sama tíma eru þeir að halda Óla, Gauja og Robba gersamlega niðri.

- Nikola Karabatic brenndi ekki af skoti hjá Frökkum og við erum að tala um leik í undanúrslitum á stórmóti. Það er með ólíkindum.

Passið ykkur á myrkrinu.

Wednesday, January 27, 2010

Orðrétt
"Alexander er þjófóttasti maðurinn á Evrópumótinu. Hann má þakka fyrir að vera ekki leiddur burt í handjárnum."

- Adolf Ingi Erlingsson í beinni útsendingu á RÚV frá leik Íslendinga og Rússa á EM.

Munnmælasögur#108
Rúmir tveir mánuðir eru síðan síðasta Munnmælasaga birtist á þessu síðuhaldi og því eins gott að gleðja lesendur með sögu af Halldóri Magnússyni, verndara Bloggs fólksins. Vegna EM í handbolta verður boðið upp á handboltasögu af HáEmm.

Dóri spilaði handbolta með Ísfirðingum á Menntaskólaárunum og þótti frambærileg skytta eftir því sem Einar Garðar frændi minn hefur sagt mér. Hávaxinn, þrekinn, örvhentur og skotfastur en af slíkum eiginleikum er sjaldnast offramboð í handbolta. Þá var leikið í þremur deildum á Íslandsmótinu. Ísfirðingar léku í þeirri neðstu enda ekki einu sinni með boðlegt íþróttahús og léku væntanlega undir merkjum ÍBÍ. Auk Einars Garðars hafa Einar Halldórs og Oddur Jóns líklega verið í liðinu og svo skilst mér að hinir og þessir Ísfirðingar hafi verið með við og við, eins og Ómar Torfa. Ég hef nú ekki heyrt mjög margar sögur frá þessum tíma fyrir utan leikinn á Selfossi þar sem Einar Garðar handarbraut einn heimamanninn, þegar Einar frumsýndi nýja varnartækni sem hann ætlaði að kenna Ísfirðingum.

Dóri þótti harður í horn að taka og féll fljótt í ónáð hjá dómarastéttinni. Fór það svo að Dóri lauk sínum handboltaferli án þess að fá nokkurn tíma að kynnast því hvernig væri að leika í síðari hálfleik. Áður en til þess kom var alltaf búið að gefa honum rautt spjald. Dóri þekkir því síðari hálfleik aðeins af afspurn. Ef menn hefðu haldið einhverja skrá yfir tölfræði í handboltanum þá væri Dóri líklega handhafi einhverja Íslandsmeta. Til dæmis var eitt sinn búið að reka hann af velli eftir um 10 mínútna leik. Væri það ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að þá fékk hann sína þriðju 2 mínútna brottvísun og þar af leiðandi rautt spjald. Af þessum 10 mínútum hefur Dóri þá setið 4 mínútur á hliðarlínunni í kælingu auk þess sem dómarar byrja yfirleitt leikina á því að veifa gula spjaldinu fyrir fyrsta brot. Halldóri hefur þá væntanlega tekist að brjóta fjórum sinnum alvarlega af sér á einhverjum 6 mínútum sem hann var inni á vellinum! Þó skal ekki útilokað að um dómaraskandal hafi verið að ræða og Dóri hafi verið hafður fyrir rangri sök.

Friday, January 22, 2010

Orðrétt
"Ég er alveg í góðu lagi, en það var heppni að ég náði að koma mér ómeiddum út. Það hefði nú verið ljóti missirinn ef ég hefði farið."

- Snillingurinn Sophus Magnússon í viðtali á www.bb.is hinn 4. janúar 2010 eftir að kviknaði í rútu sem hann ók.

Wednesday, January 13, 2010

Stunginn í Þórðarsveig
Mannslíkaminn er voldugt og merkilegt fyrirbæri sem síðuhaldari botnar lítið í. Meira að segja hin háæruverðugu vísindi skilja ekki mannslíkamann nema að litlu leyti sem sést kannski best á því að ekki er hægt að finna lækningu við fjölmörgum hættulegum sjúkdómum. Maður er því alltaf að heyra eitthvað nýtt í sambandi við mannslíkamann. Í dag skrifaði ágætur kunningi síðuhaldara, Jón Hákon Halldórsson, frétt á heimasíðu sína www.visir.is. Þar segir hann frá því að maður í Grafarholti hafi verið stunginn í Þórðarsveig. Síðuhaldari skal alveg játa að hann hefur ekki hugmynd um hvar á líkamanum Þórðarsveigur er eða hvaða hlutverki hann þjónar.

Þar sem síðuhaldari er nú takmarkaður á margan hátt þá er reyndar ekki óhugsandi að hann hafi hreinlega misskilið orðalagið. Jón Hákon gæti hafa verið að vísa til sérstakrar stungutækni; sem kallist þar af leiðandi að stinga menn í Þórðarsveig. Auðvitað er hugsanlegt að einhvern tíma hafi verið til goðsögn í undirheimum Reykjavíkur sem hafi heitið Þórður og hafi beitt sérstakri stungutækni gegn fórnarlömbum sínum. Hann hafi þá á lumskan hátt sveigt handlegginn til og stungið fórnarlömb sín í síðuna. Fyrir vikið hafi þetta stunguafbrigði verið kallað Þórðarsveigur. Áhugavert væri að vita hvor skýringin lesendum þykir sennilegri.

Passið ykkur á myrkrinu.

Monday, January 04, 2010

Orðrétt
"Það er okkar vissa að við verðum að samþætta kynjajafnrétti í allt okkar starf, ætli okkur að takast að bregðast við loftslagsbreytingum"

- Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra í Fréttablaðinu hinn 19.des. 2009.

Áramótaannáll Vef-þjóðviljans
Sú ágæta hefð hefur skapast á þessu annars fátæklega síðuhaldi að birta nokkra mola úr Áramótaannáli Vef-þjóðviljans sem birtist á www.andriki.is á Gamlársdag.


Nostradamus ársins: Þorvaldur Gylfason sér allt fyrir, skömmu eftir að það gerist.

Flutningsmaður ársins: Atli Gíslason tók sér frí á þingi þegar Icesave-ánauðin var samþykkt. Hann sagðist standa í flutningum. Hver ætli verði dómsmálaráðherra á nýju ári?

Skrauthvörf ársins: Fréttamenn gættu þess að nefna skemmdarvarga aldrei annað en "mótmælendur".

Undantekning ársins: Stöð 2 gerði eina undantekningu og taldi að ótíndir glæpamenn og skemmdarvargar hefðu verið á ferð. Þá hafði kapall í eigu Stöðvar 2 skemmst. Áður hafði bara verið ráðist á alþingishúsið, dómkirkjuna, einkaheimili og ýmsar opinberar stofnanir, svo nú var í fyrsta sinn alvörumál á ferð.


Manngleggni ársins
: Hörður Torfason hélt ræðu fyrir utan seðlabankann og sagðist vita að bankastjóranir væru allir landráðamenn. Síðar í ræðunni kom í ljós að hann vissi fullt nafn eins þeirra, hafði óljósan grun um skírnarnafn annars en vissi ekkert hver hinn þriðji væri.

Afmæli ársins: Ellert Schram varð sjötugur. Af því tilefni skrifaði Ellert Schram afmælisgrein um afmælisbarnið.

Sökudólgur ársins: Forseti bæjarstjórnar Álftaness fann sökudólg þegar bærinn komst nær í þrot. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefði átt að grípa fyrr inn í.

Tilraunamaður ársins: Stefán Ólafsson prófessor upplýsti að hér hefði farið fram "frjálshyggjutilraun" sem mun hafa falist í stórfelldum og ábyrgðarlausum skattalækkunum.

Hvarf ársins: Ekkert sást á árinu til Stefáns Ólafssonar prófessors, sem árum saman húðskammaði stjórnvöld fyrir að hafa hækkað skattbyrði fólks með ósvífnum hætti. Árið 2006 sagði hann meira að segja að sú fullyrðing að skattar hefðu almennt verið lækkaðir á síðustu árum væru "líklega með mestu ósannindum íslenskra stjórnmála í marga áratugi."

Afskriftaröð ársins: Fréttir bárust af því að Björgólfsfeðgar hefðu óskað eftir afskrift helmings skuldar sinnar við Kaupþing. Steingrímur J. Sigfússon sagði í viðtali að þetta væri síðasta lán undir sólinni sem ætti að afskrifa. Gylfi Magnússon sagði að sér hefði svelgst á við fréttina.

Varkárni ársins: Fréttir bárust af því að eigendur Haga hefðu óskað eftir verulegum afskriftum skulda sinna við Kaupþing og að fá að halda fyrirtækjunum. Steingrímur J. Sigfússon neitaði að tjá sig um málið þar sem slíkt væri ekki við hæfi.


Fullveldissinni ársins
: Árni Þór Sigurðsson alþingismaður sat í stjórn Heimssýnar frá 2007-2009.


Evrópusinni ársins
: Árið 2009 varð Árni Þór Sigurðsson formaður utanríkismálanefndar alþingis og gekk strax í að koma í gegn inngöngubeiðni í Evrópusambandið.


Yfirvegun ársins
: "Ég lærði það dálítið snemma í stjórnmálum að sumir sem eru mikið á yfirborðinu, þeir reyna að koma svona merkimiða á andstæðinga sína", sagði yfirvegaður leiðtogi, Steingrímur J. Sigfússon, í löngu sjónvarpsviðtali á Skjá einum í apríl.

Yfirborðsmaður ársins: "Komdu þér í stuttbuxurnar drengur" kallaði bálreiður fjármálaráðherra fram í fyrir þingmanni sem gagnrýndi yfirvofandi skattahækkanir á alþingi, daginn fyrir hið yfirvegaða viðtal við leiðtogann sem er á móti merkimiðum á fólk.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?