<$BlogRSDURL$>

Friday, September 30, 2005

Stóra Óshlíðarmálið að taka á sig mynd
Göng um Óshlíð eru það nýjasta nýtt. EKG.is lætur sverfa til stáls á sínum fyrsta ríkisstjórnarfundi. Það held ég að DV eigi eftir að skemmta sér yfir því. En þó verður ekki framhjá því horft að þessi áfangi er mikill sigur fyrir Frú Margréti Kristjánsdóttur móður mína og áhugamanneskju um umferðarmál. Frú Margrét er jafnframt talin eiga heiðurinn af vegriðinu á Hlíðinni og tvöföldun Reykjanesbrautarinnar. Þetta er því einungis enn ein rósin í hnappagatið en reikna má með að bílhræðsla Margrétar minnki nokkuð við þessar breytingar. Vert er þó að geta þess að áunnin bílhræðsla er kannski ekki óeðlileg ef maður þarf að sitja í bíl hjá síðuhaldara, JFE og Ásgeiri Þór.
Akið á Guðs vegum.

Sunday, September 25, 2005

Orðrétt
"Forsenda farsæls stjórnmálastarfs er að lýðræðislegar leikreglur séu virtar þannig að andi heiðarleika og trausts skapist"
-Bolli Thoroddsen formaður Heimdallar og lýðræðisfrömuður í framboðsgrein í Morgunblaðinu 4. ágúst 2004.

Wednesday, September 21, 2005

Síðuhaldari og þotuliðið
Eins og nærri má geta styður síðuhaldari Gísla Martein til forystu í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins. Það er nú orðið opinbert þar sem síðuhaldari er nú á sérstökum stuðningsmannalista á heimasíðu Gísla-lestarinnar. Á forsíðunni blikka nú síðuhaldari, Eiður Smári og Óli Stef til skiptis! Þessir allra dáðustu!
Gangið á Guðs vegum

Tarfurinn hreppti hnossið
Það var enginn annar en hinn hættulega viðkunnalegi ísfirski Iron Maiden aðdáandi Jón Smári Jónsson sem varð 30.000 gestur þessarar ágætu bloggsíðu frá því að talning hófst. Jón er búinn að senda ristjórninni ljósmynd þessu til sönnunar og hneppir því hrossið eins og einhver sagði. Til hamingju Jón!
Gangið á Guðs vegum.

Sunday, September 18, 2005

Landsbankadeild lokið
Landsbankadeildinni lokið og loksins féllu Framarar. Ég ætla að birta spána mína aftur til gamans en hún fór í loftið rétt fyrir mót. Þar virðist óskhyggjan hafa borið mig ofurliði er ég spáði KR sigri, höfuðlausum her. Hins vegar voru menn að spá Grindavík og ÍBV falli yfir landið þvert og endilangt, en síðuhaldari hlustaði ekki á svoleiðis kjaftæði og spáði Þrótturum og Frömurum falli. Hægt er að finna rökstuðninginn og spána í færslum frá því í maí.

Spá síðuhaldara:
1. KR
2. FH
3. ÍA
4. Valur
5. Fylkir
6. Keflavík
7. ÍBV
8. Grindavík
9. Fram
10. Þróttur

Lokastaðan:
1. FH
2. Valur
3. ÍA
4. Keflavík
5. Fylkir
6. KR
7. Grindavík
8. ÍBV
9. Fram
10. Þróttur R.

Friday, September 16, 2005

Tíminn stendur kyrr
Ekki er hægt að segja annað en tíminn standi kyrr þegar maður heyrir af svona andláti. Þetta verður líklega eins og með morðið á Kennedy, allir eiga eftir að muna hvar þeir voru staddir þegar þeir heyrðu þessi ótíðindi. Blessuð sé minning þeirra beggja.
Gangið á Guðs vegum.

Munnmælasögur#30
Hrólfur heitinn Jónsson vann lengi sem trésmiður í fyrirtæki föður míns. Var hann ráðinn fyrst í hálfan dag í kringum 1956 og vann þar næstu þrjátíu árin. Eða þar til hann mætti ekki einn daginn og hringt var í hann til að athuga hvort hann væri veikur; "Ég er orðinn sjötugur" var svarið en Hrólfur vildi ekki hafa mikið umstang í kringum sig. Á tímabili starfaði ungur maður í fyrirtækinu sem kallaður var Teddi og fannst Hrólfi hann fremur sérkennilegur. Teddi þessi vann ýmis störf meðal annars á krananum og hans helsta einkenni var linnulaus Kókdrykkja. Þegar hann byrjaði að þéna þá hófst hann handa við að kaupa í búið hjá sér en hann var nýbyrjaður í sambúð og átti ekkert í innbúið. Hans fyrsta verk var að kaupa sér hljómflutningsgræjur. Það fannst Hrólfi afskaplega undarleg ráðstöfun og hafði á orði að nær hefði verið að kaupa pott til þess að sjóða fiskinn í. Síðar hætti Teddi störfum hjá JFE og fór til sjós á Dagrúnu. Einn blíðvirðismorgun eru pabbi og Hrólfur mættir fyrir klukkan 8 í vinnu og eru að fylgjast með lífinu á höfninni þegar þeir sjá Dagrúnu koma í land, löngu fyrir áætlaðan tíma. Þá mælti Hrólfur: "Nú hefur Dagrúninn orðið kóklaus".

30 þúsund heimsóknir
Frá því að mælingar hófust á heimsóknartíðni á þessari ágætu bloggsíðu þá hafa yfir 29.500 sinnum verið flett á þessari síðu. Það styttist því í stórafmæli og tilefni til þess að verðlauna lesendur. Vinningurinn í 20 þúsund heimsókna leiknum gekk ekki út þar sem vinningshafi gaf sig ekki fram. Vinningurinn færist því yfir á 30 þúsundaleikinn. Vinningshafi þarf að senda ritstjórn bloggsins mynd af blogginu þar sem sannanir eru færðar fyrir heimsókn númer 30 þúsund. Vinningshafi fær í verðlaun óvissuferð í brekkusöng með Kalla Hallgríms á Flúðum (etv tekur hann KR-lagið) í fylgd valinkunnra manna; ristjóra síðunnar, Guðföður síðunnar DJ Base og verndara síðunnar HáEmm.
Gangið á Guðs vegum.

Tuesday, September 13, 2005

Fagmennskan lifir á RÚV
Fyrir nokkrum misserum síðan tókst fréttamönnum RÚV að forða fréttastofu útvarps frá því að maður utan úr bæ kæmi og spillti fagmennskunni á fréttastofunni. (Vonandi lesa Svavar og Heiðar þetta ekki). Fagmennskan hefur því fengið að lifa eins og fréttin af viðbrögðum fræðimanna við ráðningu Doddssonar í Bleðlasankann, (nafn fengið að láni frá Flosa Ólafssyni), ber glöggt vitni. Dregnir voru á land tveir "hlutlausir fræðimenn" og skoðunum þeirra gert hátt undir höfði hjá fréttastofu útvarps. Þetta voru tveir af þekktustu krötum landsins, Ágúst Einarsson og Þorvaldur Gylfason. Um þetta hefur sem betur fer verið fjallað bæði á Vebbanum og pistli Andrésar Magg í blaðinu Blaðið, en ég ætla líka að vekja athygli á þessu hér. Þeir fóru mikinn í gagnrýni sinni á ráðninguna, hún væri ekki fagleg og maðurinn væri vanhæfur og hvaðeina. Nú gef ég Vebbanum orðið:

"Það vill svo til að Ágúst þessi Einarsson sat á Alþingi fyrir forvera Samfylkingarinnar með hléum frá árinu 1978 til 1999 og er faðir núverandi varaformanns þess flokks. Hann er því í þessu sambandi miklu frekar andstæðingur Davíðs í stjórnmálum en fræðimaður sem hefur einungis áhuga á að gefa hlutlaust álit á skipuninni í bankastjórastólinn. Hinn „fræðimaðurinn“, Þorvaldur Gylfason, hefur árum og nánast áratugum saman skrifað reglulega greinar í dagblöð, nú síðast Fréttablaðið, þar sem hann hefur haft lítið annað fram að færa en hallmæla Davíð Oddssyni og ríkisstjórnum hans. Hann hefur árum saman ranglega spáð hörmungum í efnahagslífi landsins, að því er virðist eingöngu til að klekkja á ríkisstjórnum Davíðs og það leynir sér ekki að honum hefur verið mjög í nöp við manninn. Þorvaldur ritaði jafnvel heila bók um hrakspár sínar árið 1995 og bar hún hið dramatíska nafn Síðustu forvöð. Í bókinni sagði hann allt stefna norður og niður ef ekki yrði farið að ráðum sínum í efnahagsmálum. Í engu var farið að ráðum Þorvaldar en við tók mesti fjörkippur í íslensku efnahagslífi sem um getur."

Þessir tveir fræðimenn sem bera hag Seðlabankans svo mikið fyrir brjósti gerðu ekki veður út af því þegar Alþýðuflokksmaðurinn Jón Sigurðsson varð Seðlabankastjóri fyrir áratug síðan eftir ráðherrasetu. Gott ef Ágúst var ekki einn af þeim sem réðu Jón stjórnmálamann til Seðlabankans. Fyrir mína parta mega menn svo sem gagnrýna málefnalega þegar stjórnamálamenn fá störf að lokinni þingmennsku/ráðherrasetu en þessir tveir voru síður en svo heppilegir til verksins að þessu sinni, enda hefur heift þeirra í garð þess sem nú var ráðinn ekki farið fram hjá sæmilega vakandi fólki.

Gangið á Guðs vegum.

Raggi byrjar vel hjá Ivry
Raggi krulli Óskars byrjar vel hjá nýja klúbbnum í Frakklandi. Ivry vann fyrsta leik 23:15 og Raggi setti 8/2. Hann mun hafa sloppið naumlega við brunann um daginn en kærasta hans býr á stórbrunasvæðinu. Annar ÍR-ingur Bjarni Fritz byrjaði líka vel með Creteil, setti 4 í jafntefli gegn Montpellier. Síðuhaldari spilaði nú með báðum þessum köppum í Breiðholtsgettóinu í den, skandall að maður sé ekki atvinnumaður. Annars virðist mesta fárið hjá Frökkunum hafa verið í kringum heimkomu Jacksons Richardsonar sem er kominn heim og leikur með Chambery, þar sem gamli Stjörnumaðurinn Moskalenko spilar ef ég man rétt. Jackson er flottur, sperning hvort eitthvað púður sé eftir í kallinu.
Gangið á Guðs vegum.

Friday, September 09, 2005

EG ættin fær ráðuneyti
Það voru víst einhverjar breytingar á landsstjórninni í fyrradag. Dabbi dúskur er búinn að fá nóg og farinn að telja peninga. Ekki held ég að Seðlabankinn versni við það. Einar frændi orðinn sjávarútvegsráðherra. Málaflokkur sem hann þekkir út og inn og veit að hverju hann gengur. Hins vegar er þetta ekki embætti sem hjálpar mönnum að vinna vinsældarkosningar. En sem betur fer eru ekki allir stjórnmálamenn í vinsældakeppni. Já það er ekki að spyrja að EG-ættinni, búinn að troða sínum fulltrúa í ráðherrastól. Hvað gerir Dynastíið næst?
Gangið á Guðs vegum.

Nýtt útlit
Baldur Smári er kominn með nýtt útlit og bloggið hans líka. Hægt er á nálgast myndir af hinum nýja Baldri á hinu nýja bloggi.
Gangið á Guðs vegum.

Tuesday, September 06, 2005

Bakþankar Baugsmanna
Mikið djöfull eru Bakþankarnir orðnir þunnir og leiðinlegir aftan á Fréttablaðinu. Haaaa?(Birt með góðfúslegu leyfi Valtýrs Björns). Þetta er óttalega klént eitthvað. Heitasta heitasta helvíti. Á tímabili voru nefnilega teknir góðir sprettir á þessari baksíðu. Af hverju í dauðanum notar þetta lið ekki þetta tækifæri til þess að synda gegn straumi rétttrúnaðar og populisma? Heitasta helvíti. Hæstvirtur síðuhaldari ykkar bauð nú reyndar fram krafta sína í vetur og fékk þetta svar frá Jóni Kaldal: "Erum ágætlega sett með Bakþankapenna í augnablikinu". Leyfi ég mér að vera algerlega ósammála þessari fullyrðingu Kaldals og gera honum þann greiða að giska á að hann lesi ekki Bakþankana núorðið. Eina hrósið fær Gnarrinn sem er þó alla vega að hrista upp í fólki.
Gangið á Guðs vegum.

Orðrétt
"Merkilegt hvað manni langar stundum ógeðslega mikið í Mac eða KFC og svo þegar maður er búinn að éta þetta er eins og maður sé orðinn þunglyndur og finnst eins og einhver hafi skitið upp í sig. Hlýtur að vera einhver dularfull gerfiefni í þessu."
-Dr. Gunni á heimasíðu sinni 29/8´05.

Ágætis pistill Kolbrúnar Bergþórs
Kolbrún Bergþórs er með ágætis pistil inni á heimasíðu Einars Kristins um meinta kosti samstarfs Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Það er svo sem ekki nýtt af nálinni að hún tali fyrir þessu, en í þessum pistli er hún að rökstyðja skoðun sína á sinn hátt. Kris og Gunni Valþórs í eina sæng? Það er sperningin. Ég hef stundum gaman af Kolbrúnu, stundum ekki. Bara eins og gengur en þessi pistill er ágætis innlegg. Hrósa Einari í leiðinni fyrir að bjóða pólitískum andstæðingum að skrifa á síðuna hans. Ekki óvitlaust. Þetta hef ég einnig gert með því að leyfa alls konar fólki að commentera á þessa ágætu síðu. Gefur þetta umburðarlyndi mínu glöggt vitni.
Gangið á Guðs vegum.

Orðrétt
"Gísli Marteinn Baldursson hefur viðurkennt að hann sé alls ekki menntaður heila- og taugaskurðlæknir. „Margir virðast hafa misskilið þau orð mín að ég væri heila- og taugaskurðlæknir, sem eru höfð eftir mér í bókinni íslenskir Íslendingar“, sagði Gísli í samtali við Baggalút í morgun. „Sko - ég er heila- og taugaskurðlæknir, þó ég sé ekki menntaður á því sviði. Það er bara meira svona áhugamál. Ég hef hreinlega ekki haft tíma til að læra þetta. Hinsvegar hef ég fullan hug á að skella mér í þetta með vinnu - það er svo margt hægt í dag. T.d. er hægt að læra allan fjandann í bréfaskóla.""
-Baggalútur 5/9´05.

Monday, September 05, 2005

Munnmælasögur#29
Það þarf víst að fara að herða róðurinn í Munnmælasögunum. Ég er mikill áhugamaður um tilsvör Bó Halldórs og var að lesa eina splunkunýja hjá Dr. Gunna. Læt hana því flakka og bæti kannski við seinna best of sögum af Bo sem birtust í ævisögu hans Bo og co.

Við erum stödd á heimili Bó. Síminn hringir.
Bó: Já?
Ónefndur starfsmaður Saga film: Sæll. Þetta er XXX. Ég er að bóka í nýjan þátt Hemma Gunn, það var lagið. Okkur langar að bjóða þér í þáttinn.
Bó: Það var lagið... Hvað er það?
XXX: Svona skemmtiþáttur þar sem gestir leika á alls oddi og syngja og svara léttum spurningum.
Bó: Nú já. Hvað fæ ég borgað?
XXX (hikandi): Eh, hérna...
Bó: Tuttugu þúsund og málið er dautt!
XXX: Eh nei, við erum nú ekkert að borga fyrir þetta.
Bó: Er það ekki nei? Hvað færð þú borgað fyrir að hringja í mig?

Friday, September 02, 2005

Brostnar vonir
Ég rakst á blað í fórum mínum frá árinu 1995 en um er að ræða enska knattspyrnutímaritið Match. Það er skemmtilegt frá því að segja að þar eru nefndir til sögunnar 11 leikmenn sem Englendingar bundu þá mestar vonir við sem framtíðarmenn. Er þarna er komið sögu eru Englendingar að undirbúa sig undir að halda EM 96 og voru þessir efnilegu leikmenn hugsaðir til þess að spila á HM 98 og vinna, eða vinna HM 2002. Það er skemmtilegt að telja upp þessi nöfn í dag og sjá hvernig til hefur tekist. Þessar ellefu framtíðarstjörnur árið 1995 eru eftirtaldar: Jamie Redknapp, Ian Walker, Sol Campbell, Stan Collymore, Peter Fear!, Trevor Sinclair, Nick Barmby, Robbie Fowler, Kevin Gallen, Garry Flitcroft, og Lee Clark. Já margt fer öðruvísi en ætlað er, en kannski er best að láta lesendum það eftir að dæma um hvernig til hefur tekist með þessar framtíðarstjörnur sem áttu að leiða England til fyrirheitnalandsins.
Gangið á Guðs vegum.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?