<$BlogRSDURL$>

Wednesday, November 29, 2006

Munnmælasögur#54
Það er orðið svívirðilega langt síðan að síðasta Munnmælasaga datt hér inn. En sú 54. er góð og er af verndara bloggs fólksins, Halldóri Magnússyni Gleðipinna. Sagan gerist er HáEmm stundaði nám af krafti við MÍ til forna og síðar verður önnur saga dregin fram frá þeirri skólagöngu og er þá fjallað um skyndipróf hjá HáEmm í tjáningu.

"Þegar Gleðipinnarnir voru í MÍ þá var kunnur enskukennari, Guðjón Ólafsson, nýbyrjaður að kenna við skólann og átti eftir að gera lengi. Þegar Halldór átti að skila ritgerð hjá Guðjóni þá leitaði hann að sjálfsögðu til eldri systur sinnar sem sjaldan eða aldrei fékk undir 9 í einkunn. Hjá henni fékk hann ritgerð sem hafði fengið einkunina 9 örfáum árum áður og hafði verið skilað hjá öðrum enskukennara. Halldóri var því ekkert að vandbúnaði nema að breyta forsíðunni sem hann og gerði. Þegar Guðjón skilaði ritgerðunum sá Halldór að hann hafði fengið 7 í einkunn sem honum fannst heldur rýr uppskera þar sem hann hafði skilað ritgerð upp á 9. Í rökstuðningi Guðjóns stóð meðal annars: Að mörgu leyti mjög góð ritgerð en kannski full samhengislaus. Samhengislaus! Hvaða dauðans della, hugsaði Halldór með sér. Þegar hann fór að blaða í gegnum ritgerðina áttaði hann sig á því að hann hafði einhvers staðar tapað tveimur heilum blaðsíðum innan úr ritgerðinni og því ekki furða að Guðjóni hafi fundist hún fremur samhengislaus."

Orðrétt
"Sterkur orðrómur er um að innan skamms hefjist tökur á nýjum íslenskum raunveruleikasjónvarpsþætti. Þátturinn nefnist “Survivor: Bolungarvík” og munu þar 20 þekktar miðbæjarrottur glíma við erfiðasta verkefni lífs síns – búsetu í krummaskuði. Stjórnandi þáttanna er sjálfur Dr. Gunni og verða þátttakendur í “Survivor: Bolungarvík” kynntir til sögunnar á síðum Fréttablaðsins áður en langt um líður. Þá hefur kyntröllið og tískulöggan Trausti 200 verið fenginn til að gefa álit sitt á væntanlegum þátttakendum.

Sagan segir að miðbæjarrotturnar muni dveljast í “brjáluðu blokkinni” meðan á tökum stendur og verður verkefni þeirra í þáttunum m.a. að koma sér í mannsæmandi vinnu og aðlagast hinum afskekkta bolvíska þjóðflokki. Vikulega munu áhorfendur fá að senda einn þátttakanda heim á malbikið en sú miðbæjarrotta sem lifir lengst af í fámenninu, fábreyttninni og doðanum fær sérstök verðlaun frá Samtökum landsbyggðarandstæðinga. Miðbæjarrotturnar eru farnar að undirbúa sig undir förina í villta vestrið og hafa nokkrar þeirra m.a. sést taka strætó upp í Grafarvog til að komast í snertingu við lífið á landsbyggðinni. Einn þátttakandi hefur látið hafa það eftir sér að helst af öllu óttist hann af fá ekki hamborgara í Bolungarvík. Annar þátttakandi segist hafa lesið í Fréttablaðinu að það sé hættulegt að ferðast til Bolungarvíkur því þar sé furðufuglaflensa að ganga og að þar sé auðveldlega hægt að smitast af heilabilun.

Ekki er ljóst á hvaða sjónvarpsstöð “Survivor: Bolungarvík” verður tekinn til sýninga en orðið á götunni er að þessa stundina sé slegist um sýningaréttinn og er talað um að til samanburðar sé enski boltinn á góðu verði."
-Baldur Smári Einarsson viðskiptafræðingur á bloggi sínu í gær.

Thursday, November 23, 2006

Þrítugur vatnsvirki
Orri Örn Árnason eftirlitsmaður og fasteignabraskari er þrítugur í dag samkvæmt almennu almanaki. Blogg fólksins óskar Orra frá Hjalli til hamingju með tímamótin og lætur hér fljóta með gamla sögu af kappanum sem birtist á þessu annars ágæta bloggi 23. maí 2005.

"Saga númer 23 er splunkuný og átti sér stað í Borgarnesi þar sem Orri badmintonstrumpur hefur sest að. Eftir að hann hóf störf hjá verkfræðistofu í bænum fannst honum rétt að splæsa á sig fasteign á svæðinu. Keypti hann einbýlishús fyrir um 4 milljónir. Sagði reyndar að það þyrfti að vinna svolítið í því til þess að koma því í betra stand. Að öðru leyti væru þetta kjarakaup. Smiður allra landsmanna Jón Steinar frá Seljanesi óð upp eftir til þess að leggja Orranum lið við uppbyggingu kastalans. Var Jóni nokkuð brugðið er hann sá herlegheitin, en er hann hafði jafnað sig héldu þeir félagar í Húsasmiðjuna í plássinu. Þar afgreiðir þá lifaður heimamaður sem fer að inna þá eftir því hvar þeir séu að byggja. Orri ber sig mannalega og segir stoltur: "Brákabraut 11a". Ekki kannaðist afgreiðslumaðurinn við þá adressu þó hann væri fæddur og uppalinn Borgfirðingur. Orri lýsir fyrir honum staðháttum og helsta nágrenni og þá hrópar afgreiðslumaðurinn upp yfir sig; "Keyptirðu Hjallinn" ?? Á þessum tímapunkti þurfti Jón að bregða sér frá vegna ört aðkallandi hláturskasts. Orri spyr hvað maðurinn meini með þessu og afgreiðslumaðurinn svarar: "Ég hef búið hér alla mín hundstíð og þetta hús hefur aldrei verið kallað annað en Hjallurinn. Hefur það aðallega verið notað til hassreykinga undanfarna áratugi". Orri hafði nú ekki eins gaman af þessari búðarferð og Jón."

Orðrétt
"Af hverju rennur Eddan aldrei til 37 ára karlkyns sjónvarpmanna með stórt nef , fæðingarblett á efri vör og hár á bakinu, sem sameina í starfi sínu fréttaviðtöl og beinar lýsingar frá alþjólegum söngvakeppnum á milli þess sem þeir hjóla í vinnuna frá Kórsölum og eignast fósturbörn útum hvippinn og hvappinn."
-Sigmar Guðmundsson á bloggi sínu 21. nóvember.

Wednesday, November 22, 2006

Skeytin fljúga á milli Framara og Valsara
Varla hefur verið jafn stirt á milli Framara og Valsara í annan tíma. Ekki það að stuðningsmenn þessara félaga hafi eitthvað verið að fallast í faðma í gegnum tíðina. Málið með Bó í fyrra gerði mikinn usla og kaup Vals á Helga Sig voru sem olía á eld. Í kjölfarið skrifaði Framarinn Steingrímur Sævarrrrr Ólafsson grein á skúbbsíðuna sína sem mörgum hefur sennilega sviðið undan. Það er gaman að fylgjast með síðunni hans Steingríms þar sem hann nær oft að vera fyrstur með samsæriskenningar og fréttir. Í þetta skiptið fannst mér hann hins vegar frekar ósmekklegur. Stóra spurningin sem brennur á vörum bolvískra knattspyrnuáhugamanna er hins vegar sú; í boði hvaða félags verður Hálfdán Gíslason í sjúkraþjálfun næsta sumar?

Tuesday, November 21, 2006

Orðrétt
"En það ríkti mikil sátt um þennan lista og þetta snérist auðvitað fyrst og fremst um að fá hæft fólk."
-Gullkálfur Sjálfstæðisflokksins, Herdís Þórðardóttir, í Morgunblaðinu í gær eftir fund kjördæmisráðs Norðvestur sem Skagfirðingar sniðgengu.

Monday, November 20, 2006

Magnað afrek Bigga
Birgir Leifur vann ótrúlegt afrek með því að komast inn á evrópsku mótaröðina í golfi. Hann hafnaði inni á topp 30 en um 900 kylfingar hófu keppni. Þetta er jafnframt rós í hnappagat Andrésar Davíðssonar þjálfara hans. Gaman er að geta þess að Andrés er einnig með Íslandsmeistarann Sigmund Einar Másson og síðuhaldara sjálfan á sínum snærum. Einn munur er þó á því hjá Bigga og Simma er talað um golfþjálfara en hjá síðuhaldara er talað um golfkennara!
Blogg fólksins óskar Biggs og Andrési til hamingju.

Friday, November 17, 2006

Farandverkamaður stjórnmálanna
Vertíðin heldur áfram hjá farandverkamanni stjórnmálanna. Eftir fremur misjafnt fiskerí í ólgusjó stjórnmálanna mun farandverkamaðurinn eyða síðustu tíu dögunum á þessari vertíð, sem senn er á enda, í höfuðstað Norðausturkjördæmis; Akureyri. Þar hefur fréttamaðurinn geðþekki, Guðmundur Eskil Gunnarsson, skotið yfir síðuhaldara skjólshúsi af kunnum höfðingsskap. Næstu dagana er því bara áfram valdi.is!

Wednesday, November 15, 2006

Íþróttahúsagagnrýni#3
Eins og ágætur maður hefur bent á hér þá fór síðuhaldari á tvo leiki í handkastinu um síðustu helgi. Fór í Laugardalshöllina á laugardaginn og sá leik Vals og ÍR. Það er frekar sérstakt að fara í Höllina á óbreyttan deildarleik, sérstaklega þegar hinn ágæti trumbuslagari þeirra Valsara er ekki á staðnum. Valsmenn voru þó með "léttar veitingar" fyrir útvalda í hálfleik og það er ótvíræður plús. En heilt yfir þá var stemmningsleysi yfir þessu og aðstaðan fyrir fréttamenn svona þokkaleg.

Á sunnudeginum fór ég hins vegar í eitt traustasta vígi Sjálfstæðismanna, Garðabæ. Þar er nóg pláss í blaðamannastúkunni sem er fyrir ofan völlinn. Það er plús því fréttamönnum hefur fjölgað á leikjum síðustu árin með tilkomu netmiðla. Þegar komið var á staðinn var ágætt bakkelsi á boðstólum, Pepsi og súkkulaði. Þulurinn í Garðabænum er sniðugur og fer jafnan hamförum með alls kyns innskotum í hátalarakerfinu; músík, stefum og línum úr bíómyndum. Stjörnumenn fóru svo fram úr sjálfum sér í hálfleik og buðu upp á pizzusneið fyrir blaðamenn í hálfleik. Það gerist ekki betra og Ásgarður hlýtur að vera uppáhaldshúsið mitt í augnablikinu.

Tuesday, November 14, 2006

Skólastjórinn í Laufskálanum
Skólastjórinn á Grenivík sendi ristjórn Bloggs fólsksins mors um að hann væri gestur í Laufskálanum á Rás1 í gær. Síðuhaldari hvetur alla nettengda til þess að vippa sér inn á ruv.is og hlusta á þetta spjall og skjall. Síðuhaldari telur jafnframt mjög vel við hæfi að hinn 28 ára gamli Valdimar sé í viðtali í Laufskálanum fremur en X-inu eða einhverri álíka útvarpsstöð. Annars er það verðugt rannsóknarefni fyrir fjölmiðlafræðinema hvernig einn og sami skólastjórinn getur einokað alla fjölmiðlaumræðu í landinu um grunnskólakennslu.

Monday, November 13, 2006

Orðrétt
"Lestu þetta bara Eiríkur(Bergmann Einarsson) og vertu ekki að reyna að sveipa þig einhverju fræðilegu umhverfi því þú hefur það ekki"
- Jón sæti Magnússon lögmaður, í Silfri Egils í gær.

Friday, November 10, 2006

Sýn
Þó ég sé ekki alveg hlutlaus vinnu minnar vegna þá verð ég að hrósa sjónvarpsstöðinni Sýn. Á þessari helgi verða beinar útsendingar frá sex íþróttagreinum: knattspyrnu, handknattleik, körfuknattleik, golfi, hnefaleikum og ruðningi. Þetta er náttúrulega alveg magnað hjá einni stöð. Á helginni eru fimm beinar útsendingar bara frá spænska boltanum.

Stórafmæli þjóðskáldsins
Í dag fagnar þjóðin því að sextíu ár eru liðin frá fæðingu Gylfa Ægissonar. Sýnið nú hámenningunni smá virðingu og raulið Fallerí og Sjúddirarirei í kveld.

Thursday, November 09, 2006

Orðrétt
"Ungur maður sem ég þekki vel hefur í dag og í gær gert fátt annað en að taka á móti sms skilaboðum vegna prófkjörs Samfylkingarinnar. Hann hefur verið ákaft hvattur af Samfylkingarfólki í kraganum til að mæta á kjörstað og hefur fengið vel á þriðja tug sms skilaboða. Það væri svosem lítið við þetta að athuga ef ekki væri um að ræða 11 ára gamlan fósturson minn, hann Sindra. Þeir stjórnmálamenn sem eru svo desperat að reyna að véla ófermt barnið í prófkjörsslaginn eru Jakob Frímann, Sandra Franks, Katrín Júlíusdóttir, Þórunn Sveinbjarnar, Magnús Norðdahl, Gummi Steingríms, Gunnar Svavarsson, Kristján Sveinbjörnsson, Anna Sigríður Guðnadóttir og Bjarni Gaukur Þórmundsson. Flestir hafa sent fleira en eitt sms.....Sindri er vinsæll hjá Samfylkingunni því á síðast kjördag var hann boðaður á kosningavökufylleri um kvöldið klukkan 21:30. Hann komst því miður ekki því hann var að leika sér með tindátana sína.....Að lokum vil ég biðja Samfylkingarfólk í prófkjörsham afsökunar á að Katla (sjö mánaða) og Salka (þriggja ára) eru símalausar sem stendur. Ef Samfylkingafólk þarf að koma til þeirra einhverjum áríðandi pólitískum boðskap þá er hægt að gera það í kommentakerfinu hér að neðan."
-Sigmar Guðmundsson, Simmi á X-inu, á bloggi sínu 3. nóvember 2006.

Pólitísk greining andstæðings
Ofurbloggarinn Össur Skarphéðinsson var með magnaða grein um daginn á visi.is sem sennilega birtist í Fréttablaðinu líka. Þar fjallar hann um sundrungu innan Sjálfstæðisflokksins og virðist þekkja ansi vel til. Þeir sem hafa skoðanir á Sjálfstæðisflokknum ættu að lesa þessa grein.

Pési með báðar hendur fullar
Pétur Magnússon tók sig til og hélt uppi rökræðum við tvo þingmenn "Frjálslynda" flokksins í einu á bloggi bæjarstjórans í Bolungarvík á dögunum. Afar athyglisvert var að fylgjast með þessu en þar áttu í hlut þeir Magnús sprengjusérfræðingur og Sigurjón ræðuskörungur. Sigurjón gat nú reyndar ekki haft komment sitt styttra en meðal skáldsaga eftir Hallgrím Helgason og keyrði svo um þverbak (Magnús Pálmi þarf endilega að fræða okkur um uppruna þessa orðatiltækis) með því að birta það tvisvar. Þessi skoðanaskipti áttu sér stað undir færslunni Fenjafólkið þann 5. nóvember hjá Grímsa. Fen eru sum sé fleirtala af einu fenj.

Orðrétt
"Hér vaða menn uppi og selja neyðarkall hús úr húsi. Er enginn að fara í prófkjör sem bent getur þjóðinni á þenna andfemeníska áróður!! Hvar er neyðarkerlingin?"
- Halldór Magnússon tæknifræðingur í commenti á Bloggi fólksins þann 3. nóvember 2006.

Tuesday, November 07, 2006

Arískt útlit síðuhaldara
Í sjónvarpsfréttum á sunnudagskvöldið var sýnt frá því þegar fyrirmyndarbörn Nasista hittust opinberlega í fyrsta sinn og báru saman bækur sínar. Fyrir þá sem eru slappir í sagnfræðinni þá voru þessi ljóshærðu og bláeygðu börn tekin frá foreldrum sínum og sett í fóstur hjá Nasistaforingjum. Þeirra ævistarf átti svo að snúast um að dúndra upp arískum stofni og hlúa að honum. Síðuhaldari hefur aðeins brotið heilann eftir þessa frétt og finnst einkennilegt er að þrátt fyrir arískt útlit síðuhaldara þá hefur engin kona beðið hann um að taka þátt í barneignum með sér. Heimur versnandi fer.

Orðrétt
"Það er nánast leiðinlegt hvað þetta er fallegt."
- Ómar Ragnarsson í lýsingu á hnefaleikum á Sýn síðastliðið laugardagskveld.

Monday, November 06, 2006

Ljóðahornið Mósaíksglugginn#11
Þá heldur þessi síst vinsæli dagskrárliður Bloggs fólksins áfram. Ljóðið er eftir Sigurð Helga Guðjónsson og var ort við lag Magnúsar Þórs Sigmundssonar. Helgi Björnsson söng lagið árið 1991 en það heitir Undir regnboganum.

"Yst í norðri
eru nætur bjartar um sumarmál.
En nú ríkir vetur og nístingskuldi
svo næðir í okkar sál.

Þeir ættleiða hvali, þeir ofsækja mig
og ekkert á jörðu fær heift þeirra hamið.
Því ber ég nú í huga mér harm
og hjartað sundur kramið.

Hér höfum við lifað og háð okkar stríð
harðsótt var lífsbjörg sem mótaði þjóð.
Náttúran sjálf hún samdi okkar kjör
með sáttmálans innsigli roðið í blóð.

Svona hefur það verið
og væri um alla tíð
ef grænir friðarspillar
ei gerðu að okkur hríð.

Ég bið minnar auðmjúku bænar:
Eilífi andi gefðu okkur grið
fyrir grænum frið."

Thursday, November 02, 2006

Afmæli
Hinn lauflétti Einar Þór Jónsson á afmæli í dag og er 39 ára í enn eitt skiptið. Blogg fólksins óskar Einari til hamingju með daginn eins og frænda hans Ásgrími Ásgeirssyni sem er eitthvað yngri.

Einar Kristinn og prófkjörið
Síðuhaldari er ekki einn í því að rembast við að vera sniðugur í umræðu um stjórnmál. Tveir aðrir í þeim hópi eru Pétur Gunnarsson og Jónas Kristjánsson. Undanfarið hafa þeir báðir fullyrt, að Einar Kristinn hafi verið að ná sér í prik fyrir meint prófkjör, er hann aflétti banni við því að hvalveiðimenn fari á sjó. Nú var ég stuðningsmaður þess að Sjálfstæðisflokkurinn héldi prófkjör í Norðvesturkjördæmi en ég hef hins vegar ekki orðið var við að það væri raunin. Heldur þvert á móti vildu kommarnir í Sjálfstæðisflokknum í Norðvesturkjördæmi hafa miðstýrða uppstillingu, og er það eina kjördæmið þar sem flokkurinn stendur fyrir slíku fyrir þessar kosningar. En þar sem að Pétur og Jónas gefa sig út fyrir að vera iðulega með puttann á púlsinum þá kann þetta að hafa breyst. Varla fara þessir snillingar með rangt mál.

Varaformaður í hættu?
Þessi færsla fjallar ekki um að nú sé Guðlaugur Þór Þórsson kominn með ástæðu til þess að hjóla í Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur í varaformannskjöri, þó titillinn gefi ástæðu til þess að halda slíkt. Kannski að fjallað verði um prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík á þessu annars ágæta bloggi á næstunni, eins og Einar J. Skúlason bað mig um í dag. En í þetta skiptið mun hinn lauflétti síðuhaldari fjalla aðeins um prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík, enda Kaupfélagsstjórinn á Ísafirði farinn að hafa áhyggjur af manni.

Þannig er nefnilega mál með vexti að síðuhaldari telur að hinn meðvitaði varaformaður, Ágúst Ágúst, gæti dottið út af þingi. Hann stefnir á 4. sætið í prófkjörinu, enda þrjú fyrstu sætin tekin undir ISG, ofurbloggarann og Jóhönnu Sigurðardóttur, áhugamanneskju um rannsóknarnefndir. Skyldi vera einhugur um varaformanninn í 4. sætið? Nei ekki beinlínis. Fyrrverandi borgarstjóri biður einnig um 4. sætið sem og þingkonurnar Guðrún Ögmunds og Ásta Ragnheiður. Auk þess hefur þingmaðurinn Helgi Hjörvar auga á 4.sætinu sem og Mörðurinn. Auk þess biður Valgerður Bjarnadóttir um 3. - 5. og hinn lítilláti Ellert B. Schram biður ekki um neitt ákveðið sæti en er fyrrverandi þingmaður. Hvað sem fólki kann að finnast um hvaða sæti þingmenn biðja um og hvort það tákni eitthvað, þá yrðu það alla vega söguleg tíðindi ef varaformaðurinn dytti út af þingi. Flokkurinn fékk átta þingmenn síðast og þótti það mjög góð kosning. Varaformaðurinn sem fékk hreint og beint yfirnáttúrulegan stuðning í það embætti á landsfundi flokksins, gæti því hæglega verið í hættu.

Wednesday, November 01, 2006

Leikaraskapur Mourinhos
Er Mourinho orðinn sturlaður? Eftir leikinn í gær sakaði hann leikmenn Barca um leikaraskap! Hvað ætli Drogba hafi oft látið sig detta í leiknum? Ég missti töluna á því eftir korter. Deco er reyndar leiðinleg týpa en Mourinho ætti nú að þekkja hann. Kallinn er orðinn verri en Ferguson var þegar hann var að hrekkja Wenger litla um árið. Einnig held ég að Mourinho mætti nú aðeins ræða við Essien og Carvalho um hvernig þeir spila fótbolta. Tvær af þeim grófari í boltanum í dag. Annars fannst mér athyglisvert þegar Lampard fór inn úr vinstra horninu og hausaði Valdes í markinu. Skemmtilegir handboltataktar.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?