<$BlogRSDURL$>

Tuesday, June 30, 2009

Orðrétt
"Evrópusambandið hefur stillt Íslendingum upp við hlaupendann í rússneskri rúllettu með þeirri nýjung að kúlan er sjö ár á leiðinni eftir að hleypt verður af. Sambandið hefur löngum þótt svifaseint. En það er aðeins Alþingi Íslendinga sem getur tekið í gikkinn. Samfylkingin er búin að afskrifa Ísland og þingmenn hennar munu ekki hika við það. Athyglin beinist því að nokkrum þingmönnum vinstri grænna á næstu dögum.

Í umræðum um Icesave málin er því látlaust haldið fram að enginn vilji eiga viðskipti við „okkur“ ef ríkissjóður Íslands tekur ekki á sig þá mörg hundruð milljarða króna sem Tryggingasjóður innistæðueigenda - innistæðutryggingakerfið samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins - getur ekki greitt. Þetta er auðvitað fjarstæða. Það hugsa engir stjórnendur einkafyrirtækja eða banka sem svo að öll íslensk fyrirtæki séu svikamyllur þótt tryggingakerfi innistæðueigenda hafi brugðist."

- Vef-þjóðviljinn í dag.

Saturday, June 20, 2009

Munnmælasögur#104
Fyrir nokkrum árum fór Gísli Jón Hjaltason frændi minn ásamt öðrum bolvískum kyfingum í ferð til Islantilla á Spáni. Var þar leikið golf í tíu daga eða svo og fór Gísli á kostum innan golvallarins sem utan. Hér verður síðar bætt við sögum úr ferðinni ef vel liggur á síðuhaldara. Annars vegar frá rútuferð á leið til flugvallarins og hins vegar frá salernisferð Jóns skyttu og Rögga pensils á flugvellinum.

"Gísli Jón getur nú verið dálítið utan við sig á köflum eins og hann á kyn til. Sá "eiginleiki" getur haft sínar spaugilegu hliðar eins og þessi saga sýnir glögglega. Gísli hafði ekki veitt því neina athygli að alla ferðina voru íslensku kylfingarnir að nýta sér ódýra þjónustu í klúbbhúsinu. Þar buðu Spánverjar upp á alþrif á golfkylfum fyrir einungis 2 evrur en gengi íslensku krónunnar var talsvert hagstæðara í þá daga. Síðuhaldari er ekki með nákvæmar tölur í þeim efnum en vísar á Guðbjart Flosason varðandi allar slíkar upplýsingar. Á síðasta degi ferðinnar dettur Gísla Jóni í hug, að það gæti nú verið þjóðráð að þrífa kylfurnar áður en heim væri haldið, enda búið að nota þær mikið í ferðinni. Gaf Gísli sig á tal við starfsmenn í klúbbhúsinu og innti þá eftir því hvort þær ættu græjur til að þrífa golfkylfur. Ekki gátu Spánverjarnir neitað því og tóku Gísla ljúfmannlega þegar hann falaðist eftir því hvort hann mætti nota græjurnar og þrífa kylfurnar í klúbbhúsinu.

Nokkru síðar kemur Gísli lukkulegur heim á hótel og hittir þar fyrir nokkra Bolvíkinga á hótelbarnum. (Hvar annars staðar?) Segir Gísli þeim frá þessari merkilegu uppgötvun sinni; að hægt væri að fá lánaðar græjur til þess að þrífa kylfur í klúbbhúsinu. Voru menn frekar undrandi á þessum tíðindum Gísla en áttuðu sig fljótt á því að tveggja evru kylfuþrif Spánverjana höfðu greinilega farið fram hjá Gísla. Héldu menn niðri í sér hlátrinum og spurðu Gísla hvort hann hefði kannski gefið Spánverjunum þjórfé fyrir liðlegheitin. Svaraði Gísli því játandi og spurðu menn í framhaldinu hversu mikið Gísli hefði gefið í þjórfé. Þegar Gísli sagði þeim að hann hefði gefið Spánverjunum nákvæmlega 2 evrur í þjórfé þá ætlaði þakið að rifna af hótelinu enda gátu menn ekki haldið niðri í sér hlátrinum öllu lengur."

Friday, June 19, 2009

Orðrétt
"99 prósent af list er drasl og 99 prósent af hönnun er drasl. Hvaðan góðir hlutir koma er ekki aðalatriðið."

-Guðmundur Oddur Magnússon, a.k.a Goddur, prófessor við Listaháskólann í Fréttablaðinu í dag spurður um hvort eðlilegt væri hjá Reykjavíkurborg að útnefnda fataönnuð sem borgarlistamann.

Tuesday, June 16, 2009

170 þúsund
Sápustykkið fór yfir 170 þúsund kílómetra markið í gær.

Orðrétt
"Því velti ég stundum fyrir mér hvort Íslendingar séu áhugasamari um Evrópusambandið (ESB) en þegnar ríkja þess. Það finnst mér helst þegar saman eru bornar umræður heima á Íslandi um ESB og væntingar sem stór hluti þjóðarinnar virðist bera til þess. Á sama tíma búast þegnar aðildarríkjanna ekki við miklu af sambandinu. Og áhugaleysi þeirra á kosningum til Evrópuþingsins er algjört.

Til að mynda er Frökkum er skítsama um kosningarnar, svo notað sé vont götumál. Hér hefur samt ekki vantað auglýsingar og áróður fyrir því að kjósendur flykkist á kjörstað á sunnudag og 161 flokkur er í framboði. Fjölmiðlar hafa varið miklu rými undanfarnar vikur og lagt sitt af mörkum til að vekja áhuga á kosningunum.

Þá hefur Sarkozy forseti ítrekað hvatt þjóðina til að nýta atkvæði sitt og talað máli Evrópusamstarfsins. En allt kemur fyrir ekki, það sýna hver skoðanakönnunin af annarri undanfarnar vikur. Í könnun Opinionway fyrir fjölmiðlana Apco, La Tribune og BFM og birtist í dag segjast 64% ekki ætla á kjörstað. Hún leiðir og í ljós, að 73% Frakka og 67% Þjóðverja hafi engan áhuga á kosningunum."

- Ágúst Ásgeirsson blaðamaður bloggar frá Frakklandi 5. júní 2009.

Thursday, June 11, 2009

Farið hefur fé betra
Loksins er United að selja Ronaldo og kominn tími til. Ef einhverjir eru svo vitlausir að borga svona upphæðir fyrir einn leikmann þá á United að sjálfsögðu að taka slíku boði. Svo er reyndar spurning hvernig gengur að fá greitt frá Real en það er annað mál. Fyrir þá upphæð sem United fær fyrir Ronaldo geta þeir keypt 3-4 fjóra heimsklassaleikmenn. Liðið verður því mun sterkara auk þess sem félagið losnar við prímadonnu sem virðist ekkert sérstaklega merkilegur karakter.

Friday, June 05, 2009

Orðrétt
"Formanni Félags íslenskra hjúkrunarkvenna var mikið niðri fyrir í gær. Fyrirtækinu Poulsen, sem selur varahluti í bifreiðar, hafði nefnilega orðið á að senda frá sér bækling sem sýndi unga konu í búningi hjúkrunarkonu, þess albúna að hlúa að bifreið. "Þarna er verið að klámgera heila fagstétt, sem er með fjögurra ára háskólanám að baki," hefur Morgunblaðið eftir Elsu B. Friðfinnsdóttur, svo alvara málsins ætti ekki að fara fram hjá neinum. Hér er ekki verið að klámgera einhverjar ómenntaðar kerlingar sem ekki eiga betra skilið og vita sennilega fæstar hvað klám er. Nei, hér er verið að klámgera stétt sem er með fjögurra ára háskólanám að baki svo nú er mælirinn fullur.

Enda kveðst formaður hjúkrunarkvenna hafa brugðist hart við. Hún hafi sent öllum félagsmönnum bréf og beðið þá um að skrifa Poulsen og mótmæla þessum auglýsingabæklingi og segist einnig hafa haft samband við Íslandspóst þar sem hún telji óeðlilegt að fyrirtækið dreifi bæklingnum.

Þetta er auðvitað stóralvarlegt mál. Það er alveg svakalegt að þeir hjá Poulsen séu að klámgera stétt með fjögurra ára háskólanám en geti ekki látið sér nægja einhverja ómenntaða stétt, eða einhverjar stelpur með hámark BA próf. Því rétt eins og fæðingarorlofið, þá eru klámfræðin hugsuð fyrir langskólagengnar konur með háar tekjur."

- Vef-þjóðviljinn í dag.

Thursday, June 04, 2009

Fær Lama lungnabólgu?
Ég yrði hissa ef Dalai Lama fengi ekki lungnabólgu eftir að hafa verið að rolast um á Íslandi í fleiri sólarhringa í þessum kufli sínum einum fata. Svo er náttúrulega milljón dollara spurningin hvort kallinn sé "commando" undir þessu svefnlaki. Annars hefði Árni Páll félagsmálaráðherra mátt sýna Lama smá tillitssemi og smyrja bara einni umferð af brúnkukremi á sig í tilefni dagsins. Dalai Lama virkaði svo hrikalega fölur í samanburði við Árna Pál í kirkjunni.

Wednesday, June 03, 2009

Orðrétt
"Ef ég keyri á akrein á hámarkshraða, jafnvel 10 - 20 km umfram, ekki keyra alveg upp að bílnum mínum og horfa svo á mig eins og ég hafi átt við konuna ykkar þegar þið rífið fram úr. Þetta á sérstaklega við um þá sem aka um á sportbílum og jeppum (það verður líka enn kjánalegra þegar ég stoppa við hliðina á ykkur á næstu ljósum.)"

- Magnús Geir Eyjólfsson, stjórnmálafræðingur freistar þess að bæta umferðarmenninguna í pistli á pressan.is.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?