<$BlogRSDURL$>

Friday, November 30, 2007

Orðrétt
"Uppáhaldsiðja danskra og sænskra blaðamanna virðist um þessar mundir sú að skrifa um Ísland. Skrifin eru út af fyrir sig landkynning, en fæstir munu víst álíta þau heppilega landkynningu....Þeir segja íslenzkt kvenfólk næstum nauðga erlendum karlmönnum. Þetta þykjast þeir staðfesta með því að birta myndir af sjálfum sér í hópi íslenzkra stúlkna. En þær myndir eru teknar á fölskum forsendum. Blaðamennirnir ljúga að stúlkunum um tilgang myndatökunnar.....Þeir segja Vestmannaeyinga einnig kaupa nýja og dýra bíla fyrir peninga úr Viðlagasjóði"
- Úr greininni "Sex paradísin Ísland" í marz-apríl hefti tímaritsins Samúels árið 1974.

Thursday, November 29, 2007

Munnmælasögur#70
Iðnaðarráðherra hefur með miðnæturhugvekjum sínum komið næturfærslum í tísku og vissulega er síðuhaldari fórnarlamb tískunnar. Nú verður því splæst í liðlega tuttugu ára gamla munnmælasögu.

"Siggi Sveins er ekki bara frændi Rúnars Geirs vinar míns, heldur var hann einnig frambærilegur handboltamaður. Eitt sinn var hann í keppnisferð með landsliðinu í Austur - Þýskalandi á Bogdans-tímanum, eða Jóns Hjaltalíns-tímanum eins og Sossi vinur minn myndi sennilega kalla þetta eftirminnilega tímabil í handboltasögu þjóðarinnar. Á þessum tíma þurftu kommarnir í austrinu múr til þess að halda fólki "réttu" megin í Þýskalandi. Mjög strangt eftirlit var með ferðum í gegnum landamærin. Ferðaplönin voru á þá leið að íslenski hópurinn færi með rútu til Danmerkur og þaðan skyldi flogið heim. Áður en rúta landsliðsins yfirgaf svæðið, náðu leikmenn að spóka sig aðeins og kíkja á mannlífið. Siggi rakst á hermann í fullum herklæðum og fór að ræða við hann um búninginn. Lýsti Siggi yfir áhuga sínum á því að kaupa fatnaðinn en tungumálaörðuleikar voru ekki að þvælast fyrir honum eftir að hafa verið atvinnumaður í Þýskalandi.

Skemmst er frá því að segja, að Sigga tókst að festa kaup á búningnum á staðnum, eftir að hafa beitt öllum sínum sannfæringarkrafti ásamt því að ota spennandi gjaldmiðli að dátanum. Skildu báðir aðilar sáttir eftir þessi frjálsu viðskipti, þó svo að seljandinn hafi auðvitað látið þarna vöru af hendi sem ekki var leyfilegt að selja. Þegar Sveinsson birtist hróðugur í rútunni og sveiflaði herklæðunum, var honum bent á að uppátækið gæti haft alvarlega eftirmála í för með sér. Í besta falli myndu landamæraverðirnir aðeins gera gallann upptækann, en í versta falli yrði rútan kyrrsett og mannskapurinn myndi lenda í löngum yfirheyrslum. Í hópnum voru einnig blaðamenn og fleira fylgdarlið. Þegar komið var að landamærunum höfðu landamæraverðirnir greinilega haft einhverjar fregnir af berstrípuðum hermanni og óðu þeir inn í rútuna. Þar var gerð dauðaleit en hvergi fundust herklæðin, einungis sveittar íþróttatreyjur og táfýlusokkar. Siggi kom gallanum hins vegar til Íslands og ólíklegt er að margir Íslendingar státi að slíkum grip. Hvernig fór hann að þessu? kann nú einhver að spyrja og var það í raun sáraeinfalt bragð. Siggi var með búninginn á herðatré. Þegar landamæraverðirnir voru gráir fyrir járnum inni í rútunni þá smeygði hann gallanum út fyrir gluggann og svo inn aftur þegar verðirnir voru fyrir utan rútuna. Örvhendum er greinilega ekki alls varnað."

Monday, November 26, 2007

Tilkynningar
Halli Pé Novaforstjóri er búinn að pranga nýju símanúmeri inn á síðuhaldara sem er 7700110. Gamla númerið er því komið í salt í bili en verður kannski tekið upp að nýju ef Nova stendur sig ekki. Þetta lítur reyndar vel út hjá þeim, þau mega eiga það.

Hin tilkynningin er sú að búið er að uppfæra tenglalistann hægra megin á síðunni. Þar hefur einhverjum verið hent út fyrir bloggþurrð og nýjir komnir inn í staðinn. Einnig voru einhverjar slóðir sem ég átti alltaf eftir að uppfæra eins og Base og Stuðfinnur.

Sunday, November 25, 2007

Eftirminnilegur útvarpshrekkur
Umboðsmaður minn, Henry Birgir, er búinn að setja inn á síðuna hjá sér stórkostleg tilþrif þeirra Capone útvarpsbræðra. Frábær útvarpshrekkur sem er sérstakur fyrir þær sakir að hann var ekki planaður, heldur hringdi eitthvað konugrey í vitlaust númer og lenti á Caponebræðrum af öllum mönnum, þegar hún ætlaði að hringja í eitthvað fyrirtæki. Alveg ljómandi fínar tvíbökur.
Passið ykkur á myrkrinu.

Thursday, November 22, 2007

Mæli með þessu stöffi
Las í dag einhvern beittasta og fyndnasta pistil um þjóðfélagsmál sem ég hef rekist á í annan tíma. Þar var það félagi minn Sigurður Elvar sem hélt á penna á blogginu sínu. Þar tæklar hann uppeldismálin af mikilli snilld og forræðishyggjuliðið fær einnig sinn skammt. Ilmandi fínar tvíökur þarna á ferðinni. Blogg Elvars.

Wednesday, November 21, 2007

Útvarpsstöðin Lífæðin - comeback !!
Það er ekkert annað. Útvarpsstöðin Lífæðin snýr aftur undir stjórn Tóta Vagns og er það afskaplega vel til fundið. Þessu uppátæki Tóta man ég vel eftir enda þáttakandi í þessu að einhverju leyti í Gaggó. Eitt sinn var ég með þátt ásamt Gumma Gunnars en það gigg reyndist stökkpallur fyrir hann inn í starf hjá svæðisútvarpinu á Akureyri. Annað árið var ég með þátt ásamt Jóni Valgeir sem hefur nú verið sendur í rafvirkjastörf til Arabíu og verið vinsamlegast beðinn um að koma aldrei nálægt útvarpi aftur. Eitthvað hefur þetta því gengið misjafnlega hjá manni.

Eins man ég eftir því að hafa verið gestur í þætti Gunnars Hallssonar, fyrrum meðlims í hljómsveitinni Berklar. Núverandi skólastjóri á Grenivík var ásamt mér gestur í þættinum. Sú útsending fékk líklega afskaplega mikla hlustun því það geysaði ofsaveður þann daginn og alveg á mörkunum að Frú Margrét hleypti mér í stúdíóið/Grunnskólann. Mitt hlutverk í þættinum var að svara spurningum um íslenska knattspyrnu. Sá hluti þáttarins hafði því sjálfsagt takmarkað skemmtanagildi. Hinn hluti þáttarins var hins vegar öllu skemmtilegri, þar sem Valdimar Víðisson fór hamförum í spjalli um tónlistarsmekk sinn. Las hann þar upp úr fleiri fleiri aðdáendabréfum sem hann og eigandi RB bílaleigunnar sendu á milli sín. Það voru ljómandi fínar tvíbökur. Í þessari upprifjun langar mig einnig til þess að skora á þá Gunnar Magnús Jónsson og Óskar Skúlason að snúa aftur með sinn rómaða þátt í tilefni af þessu comebacki.
Passið ykkur á myrkrinu

Tuesday, November 20, 2007

Birgir Leifur áfram á Evrópumótaröðinni
Birgir Leifur var að ljúka leik á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina í golfi. Hann endurnýjaði keppnisrétt sinn með glans og fékk tvö fugla á síðustu þremur holunum. Púttin höfðu verið að stríða honum framan af í dag en það er eftirtektarvert hvað kallinn er orðinn sterkur á taugum. Í fyrra tryggði hann sér einnig keppnisrétt með góðum endaspretti. Lokaúrtökumótin fyrir PGA og Evrópumótaröðina eru gjarnan nefnd erfiðustu golfmótin á heiminum á ári hverju, vegna þess að þar er einfaldlega allt undir. Blogg fólksins sendir Bigga og Andrési hamingjuóskir.
Passið ykkur á myrkrinu.

Monday, November 19, 2007

Kynlíf
Lengi hefur staðið til að vekja athygli á hinni ört uppfærðu vefsíðu handbolti.is hér á þessu annars ágæta síðuhaldi. Handboltafrömuðurinn úr Eyjum, Hlynur Sigmarsson, er allt í öllu á síðunni eftir því sem ég kemst næst. Ungi framsóknarmaðurinn, Henry Birgir, benti mér á tímamótaviðtal á svokölluðu Veftv á síðunni, þar sem óvenjuleg viðtalstækni Hlyns fær að njóta sín. Þar er hann með eiginmann Florentinu Grecu í viðtali, en hún er markvörður Stjörnunnar. Viðtalið fer fram á ensku og er lesendum sérstaklega bent á lokahnykk viðtalsins þar sem Hlynur fer skyndilega að ræða kynlíf þeirra hjóna, og skoðanir Alla þjálfara á því. Gríðarlega fínar tvíbökur þarna á ferðinni.
Passið ykkur á myrkinu.

Friday, November 16, 2007

Samvinna Reykjavíkurborgar og Stöðvar2 ??
Eftir fréttatíma kvöldsins á Stöð2 þá velti ég því fyrir mér hvort fréttastofan sé komin í einhvers konar samstarf við ráðhúsið. Í fréttatímanum var greint frá að borgarstjórinn með Dabba greiðsluna hefði rokið af stað á leikskóla í borginni vegna skilaboða sem honum bárust frá ungum nemanda. Fréttin var auðvitað mjög hjartnæm, enda skilaboðin þau að Degi Bergþórusyni Eggertssyni væri afar umhugað um ungviðið í borginni. Nú eru vinnustaða- og skólaheimsóknir eitthvað sem borgarstjórar á hverjum tíma reyna að sinna eftir því sem ég best veit og spurning um fréttagildi þess. Samkeppnisaðilinn á RÚV sá heldur ekki ástæðu til þess að fjalla um málið, enda gæti orðið ærið verk að fylgja borgarstjóra eftir í allar slíkar heimsóknir. Eftir að hafa horft á fréttina þá sækir að mér sú spurning hvort Dagur eða einhver úr hans starfsliði hafi látið Stöð2 vita af heimsókninni, því fréttastofan var mætt og náði myndum af "viðburðinum". Ég get auðvitað ekki útilokað að fréttastofan hafi heyrt af þessari heimsókn eftir öðrum leiðum og brunað á staðinn í tæka tíð, en ég hallast þó frekar að því að þarna hafi verið um PR útspil að ræða hjá Degi og Gumma Steingríms. Ef svo er þá má einnig velta því fyrir sér af hverju Stöð2 varð fyrir valinu frekar en einhver annar fjölmiðill.

Uppfært laugardaginn 16. nóvember:
Ég sé í Mogganum í dag að sá ágæti miðill hefur líka slegist í för með borgarstjóranum. Í það minnsta er frétt um málið ásamt mynd frá Árna Sæberg.

Tuesday, November 13, 2007

Orðrétt
"Guðni Ágústsson upplýsti á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í dag að núverandi forsætisráðherra væri "daufur og sinnulaus". Við fyrstu heyrn hljómar þetta auðvitað furðulega og menn velta fyrir sér hvað Guðni sé að fara. En svo auðvitað sést að Guðna er vorkunn. Hann er auðvitað að bera Geir saman við síðasta forsætisráðherra á undan honum, hinn snarpa og hressa Halldór Ásgrímsson. Og þá er ekki nema von að flestir virki daufir og sinnulausir í samanburðinum."
Vef-þjóðviljinn þann 10. nóvember 2007.

Tom hirti verðlaunin
Það var enginn annar en hinn eitraði íþróttapenni Fréttablaðsins og fótbolti.net, Tom, sem átti flettingu númer 100 þúsund á þessu ágæta síðuhaldi. Hefur hann sent ritstjórninni ilmandi fína ljósmynd þessu til staðfestingar. Fær hann að launum sent áritað lyklaborð og mynd af Bolungarvík.
Passið ykkur á myrkrinu.

Sunday, November 11, 2007

Valdarán í uppsiglingu?
Sagan segir að EG ættarveldið ætli sér stóra hluti í Víkinni á næstu sjómannadagshelgi. Ekki er nákvæmlega vitað hverju veldinu gengur til en talið er að fjölmennt verði í gjörninginn.

Wednesday, November 07, 2007

Já ráðherra
Ekki er allt gull sem glóir.

Tuesday, November 06, 2007

Orðrétt
"Lögreglan á Leifsstöð stöðvaði nú fyrir stundu karlmann á 5392. aldursári sem talinn er tilheyra hópi svokallaðra erkiengla. Maðurinn, sem talaði með sterkum aramískum hreim, kom fljúgandi til landsins einn síns liðs og þverbraut allar öryggisreglur flugvallarins við lendingu. Talið er að hann hafi ætlað að undirbúa jarðveginn fyrir sölu á svokölluðu englaryki í undirheimum Reyjavíkur."
- Baggalútur þann 3. nóvember 2007.

Fletting númer 100 þúsund innan seilingar
Ný styttist í að teljarinn á þessari ágætu síðu fari í flettingu númer 100 þúsund og rétt að koma á skemmtilegum vetrarleik að því tilefni. Sá sem dettur inn á síðuna í þessari tímamótaflettingu getur sent sönnunargögn því til staðfestingar á kris@vikari eða hm@ov.is. Að sjálfsögðu er verðlaunin ekki af verri endanum en viðkomandi mun fá sent áritað lyklaborð frá síðuhaldara, auk ljósmyndar af Bolungarvík.
Passið ykkur á myrkrinu

Monday, November 05, 2007

Bílar
Range Roverarnir eru ekkert öðruvísi í London heldur en í Bolungarvík.
Passið ykkur á myrkrinu.

Orðrétt
"Björgvin vinur minn hringdi í mig um daginn til að biðja mig um að koma með sér á tónleika með Mugison. Hann hafði keypt sér plötu og varð bara að láta mig vita hvað hann var hrifinn af henni. Ég var fyrir vestan þegar hann hringdi. Sat við eldhúsborðið hjá pabba og mömmu og drakk kaffi og át rúnstykki úr Gamla bakaríinu. The Mugifamily var þarna öll með okkur svo ég rétti bara Ödda símann svo Bjöggi gæti þakkað fyrir sig milliliðalaust. Þetta var mjög fyndið. Þeir eru nú kunnugir Björgvin og Öddi. Því þegar við Björgvin vorum saman í Kennó spiluðum við stundum saman á gítarana og sungum. Við vorum að semja músík, en lika að skemmta, mest í skólanum. Þá var Öddi yfirleitt fenginn til að vera hljóðmaður og rótari. Hann átti heima þarna í nágrenni við skólann og var með hljómsveit sem æfði í bílskúrnum. Það var því létt að fá lánaða magnara og snúrur hjá honum og hann var alltaf til í að aðstoða frænda sinn."
- Kalli Hallgríms trúbador á bloggi sínu.

Thursday, November 01, 2007

Blackburn í toppbaráttunni
Knattspyrnustjóri Blackburn Rovers er 44 ára í dag. Hann tók við liðinu í bullandi fallbaráttu á sínum tíma en núna er liðið í toppbaráttunni og hefur aðeins tapað einum deildarleik á tímabilinu. Einhverra hluta vegna er þó ekki talað um liðið sem meistaraefni.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?