<$BlogRSDURL$>

Monday, August 30, 2004

Klám-/spennumynd
Ég heyrði gasalega skemmtilega frétt í útvarpinu í dag. Þannig er mál með vexti að norskum fangelsisyfirvöldum þótti upplagt að gefa einum dæmdum glæpamanni þar í landi helgarfrí frá svartholinu til þess að heimsækja foreldra sína. Hafði það vitaskuld enginn áhrif á þá ákvörðun að maðurinn er forsprakki Bandidos-gengisins í Noregi, en sem kunnugt er þá er heiðarleiki þeirra félagsmanna á svipuðu plani og hjá Dalton bræðrunum, Bjarnabófunum og Bjöggalingunum. Í foreldraheimsókn sinni tókst manninum að ræna peningaflutningabíl á einhverri bryggju ásamt Nýnasista og þriðja manni sem ákvað að leggja á flótta er lögreglu bar að garði...sjóleiðina! Ekki er allt búið enn. Fjölmiðlum til happs var heiðarlegur góðborgari nærstaddur enda búsettur í nágrenninu. Var hann upptekinn við vinnu sína, sem er klámmyndagerð og þar sem hann var með myndavélina í gangi þá beindi hann henni að atburðunum eftir að hafa heyrt fjóra skothvelli. Maðurinn sem um ræðir heitir Thomas "Rocco" Hansen og kannast síðuhaldari að sjálfsögðu ekkert við hann, en kannski að einhver lesandi bloggs fólksins geti sagt nánar frá hans afrekum.
Ég þakka þeim sem lásu
Góðar stundir

Tuesday, August 24, 2004

Frægir í Frakklandi
Gætum við Vestfirðingar orðið frægari í Frakklandi en við erum í dag? Ég held ekki. Samkvæmt fréttum er Nói albínói á hvers manns vörum í Frakklandi, og hún var jú tekin upp að mestu leyti í Bolungarvík en einnig á Flateyri, Þingeyri og Ísafirði ef ég man þetta rétt. Nú í vetur kom frétt um að mynd af Ósvör væri á hverri einustu lestarstöð í París. Myndin var reyndar aðallega af norðurljósum sem sáust vel á myndinni en það er óþarfi að hengja sig í smáatriðin. Til þess að undirstrika þessa áðurnefndu vinsældir Vestfirðinga í Frakklandi þá birti BB vefurinn frétt í dag þess efnis að fugl frá Dýrafirði hefði sést spígspora um grundir Frakklands. Reiknað er með yfirlýsingu frá franska utanríkisráðuneytinu á hverri stundu vegna málsins. Erum við að meika það eða hvað?
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Kynslóðabilið
Brátt er að baki mikið tónleikasumar á klakanum. Fyrr í sumar var ég staddur í stofunni hjá Möggu systur og Jón Friðgeir sonur hennar og Kolbrún Ýr dóttir Einars bróðurs höfðu séð Metallica nokkrum dögum áður og voru á leið á aðra tónleika um kvöldið. "Á hvaða tónleika eru þið að fara í kvöld?" spurði Ásgeir bróðir. "Placebo" var svarað. "Placido" hváði Geiri og spurði nánar: "Placido Domingo" ???
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Sunday, August 22, 2004

Gallabuxnamaðurinn strandaði skútunni
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari í handknattleik, fráfarandi vonandi, náði einum sigri í fimm leikjum á Ólympíuleikunum. Á Evrópumótinu í vetur náði hann einu jafntefli í þremur leikjum. Nú er einungis tvennt í stöðunni, hengja hann í gallabuxunum á Austurvelli eða leyfa Óla Stefáns að skipta um ríkisfang. Ég get þulið upp mistök hjá Guðmundi sem tækju margar síður, en ætla aðeins að nefna örfá dæmi:
1)Hann vill leika austur-evrópskan handknattleik þar sem leikið er fremur kerfisbundið og leikstjórnandinn er aðallega í því að leysa inn á línu. Það er banvænt þegar Óli er ávallt tekinn úr umferð. Til þess að leysa þá stöðu þyrfti hugmyndaríka leikmenn af skandinavíska skólanum eins og Arnór Atla eða Ragga Óskars. Sóknarleikurinn hefur verið slakur í mörg ár. Hann var með skásta móti í Svíþjóð 2002 en þá voru Patti og Dagur líka á góðu róli. Samt sem áður komu mjög mikið af mörkum úr hraðaupphlaupum á því móti.
2)Róbertarnir Sighvatsson og Gunnarsson voru báðir valdir í hópinn sem varamenn fyrir Fúsa. Hvorugir geta spilað vörn og fyrir vikið var línumaðurinn Vignir Svavarsson skilinn eftir, en hann er hörkuvarnarmaður og hefði getað minnkað álagið á varnarmennina.
3)Dagur Sigurðsson er leikstjórnandi ekki skytta! Hann gæti hugsanlega komist skammlaust frá stöðu leikstjórnanda þar sem hann þarf ekki að skjóta í tíma og ótíma. Guðmundur er hins vegar að láta hann spila skyttu á fjórða stórmótinu í röð.
4)Allir eru sammála um að Guðjón Valur sé eitt helsta tromp íslenska liðsins. Því vekur furðu að spila hann út úr sóknarleiknum með því að setja Garcia við hliðina á honum sem getur ekki hreyft sig til vinstri í ógnunum. Auk þess er enginn valinn í hópinn til þess að hvíla hann. Leikstjórnandinn Kristján Andrésson er ekki í landsliðsklassa og spilaði þess vegna ekkert. Í staðinn hefði átt að velja mann sem hefði getað hvílt Gauja eitthvað, hann er ekki ofurmenni.
5)Það er Óli Stef ekki heldur. Ásgeir Örn á að spila meira, það væri gott fyrir Óla að geta pústað meira. Ásgeir er tilbúinn, ef þú spilar vel á móti Magdeburg og Barcelona í Meistaradeildinni þá ertu tilbúinn í landsliðið.

Það er ástæða fyrir því að Guðmundur er landsliðsþjálfari og hann tekur sínar ákvarðanir burt séð frá því hvað einhver bloggari segir sem aldrei hefur þjálfað handboltalið. En hann verður líka að falla með þeim ákvörðunum sem eru út í hött og axla þannig sína ábyrgð.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Thursday, August 19, 2004

Öld liðin frá fæðingu afa
Dr. Kristján Þorvarðarson afi minn í móðurætt fæddist á þessum degi fyrir 100 árum síðan, bara svo því sé nú öllu haldið til haga. Í tilefni þessa hefur móðurfólk mitt ákveðið að leita upprunans og hefur tekið kúrsinn á Hólsfjöll þar sem kirkjur og kirkjugarðar munu væntanlega verða fyrir barðinu á þeim. Sjálfur eyddi ég deginum með Stefan Hilmarz og öðru þotuliði í Stjórnmálafræðinni þar sem við tókumst á við Aðferðafræði III. Heilinn minn litli er því úrvinda og mun ég því þruma betur yfir netvöfrurum á morgun.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Wednesday, August 18, 2004

Lítill Halim kominn í heiminn
Einn þekktasti fyrrverandi tengdasonur Íslands Halim Al er orðinn afi. Blogg fólksins óskar Halim til hamingju.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Monday, August 16, 2004

Ótrúlegur árangur hjá Bigga
Skagamaðurinn Birgir Leifur Hafþórsson hefur átt ótrúlegt sumar í golfinu. Vann Íslandsmótið af öryggi, vann Íslandsmótið í holukeppni af álíka öryggi og nú vann GKG deildakeppnina um helgina. GKG hefur að ég held aldrei átt möguleika á því að vinna sveitakeppnina fyrr en nú, en auk þess að fá Bigga í fyrra þá fengu þeir reyndar Úlfar Jónsson (Kylfing aldarinnar) til sín sem þjálfara nú í sumar. Birgir Leifur er því búinn að vinna allt í sumar og var auk þess bara fjórum höggum frá því að spila á elsta atvinnumannagolfmóti í heimi: Opna breska meistaramótinu. Það er hlægilegt til þess að hugsa að þegar Íslandsmótið fór fram á Hellu sumarið 2002, þá ræddu margir misvitrir golfsérfræðingar um það að Birgir þyrði ekki að vera með. Margir héldu því þá fram að Björgvin Sigurbergs, Óli Már, Sigurpáll og Örn Ævar væru ekki síðri en Biggi. Á þessum tíma var Birgir að spila á Challenge túrnum sem er einskonar 2. deild í Evrópu, á eftir evrópsku mótaröðinni. Hann hafði þá ekki leikið á Íslandsmótinu síðan 1997, en þá vann hann örugglega og gerðist atvinnumaður. Atvinnumönnum var síðan leyft að vera með á ný 2001. Biggi mætti aftur á Íslandsmót 2003 og 2004 og vann örugglega í bæði skiptin. Ég held að það sé því lítil spurning um hver sé besti íslenski kylfingurinn. Það vill svo sérkennilega til að golfkennarinn minn Andrés Davíðsson er þjálfari Birgis Leifs, en eitthvað virðist annar lærisveinninn vera tregari en hinn:)
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Thursday, August 12, 2004

Styð Helgu Árna
Vek athygli á vef stuðningsmanna Helgu Árna sem er að bjóða sig fram til formennsku í Heimdalli. Haft var samband við mig og spurt hvort mætti setja mig á lista stuðningsmanna hennar þar sem ég þekki Helgu og styð hana eindregið í þetta embætti. Það var að sjálfsögðu lítið mál að minni hálfu en það kom mér á óvart þegar ég frétti að nafnið mitt hefði verið sett við hliðina á mynd af Val Kilmer.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Saturday, August 07, 2004

Hvar er hvar er hvar er hvar er teljarinn?
Ritstjórn bloggs fólksins lýsir eftir teljaranum sem var hægra megin á síðunni. Síðast sást til hans hér á síðunni síðastliðinn þriðjudag. Ekkert hefur til hans spurst síðan en þeir sem hafa orðið varir við ferðir hans eru vinsamlegast beðnir um að senda tölvupóst á netfanið kristjac@hi.is. Þetta dularfulla hvarf gæti alveg passað inn í lagið hans Guðjóns Rúdolfs vin Einars bróðurs: ,,Hvar er hvar er hvar er hvar er teljarinn hvar er teljarinn hvar er teljarinn?"
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Friday, August 06, 2004

Fylkismenn sáttir
Ég sá viðtal hjá Dolla við Val Fannar hjá Fylki á RÚV. Valur virðist vera jafn leiðinlegur utan vallar og hann er innan vallar en reyndar var viðtalið tekið strax eftir að þeir duttu út úr bikarnum. Ég hjó eftir því að Valur sagðist ekki vera ósáttur við gengi Fylkis að undanförnu og að fjölmiðlamenn hefðu búið það til að liðið væri í krísu. Vegna þessa kíkti ég á úrslit síðustu leikja hjá Fylki og þeir hafa í síðustu fimm deildarleikjum tapað tveimur og gert þrjú jafntefli. Þrír af þessum leikjum voru heimaleikir og svo duttu þeir út úr bikar á heimavelli í gærkveldi. Ekki finnst mér metnaðurinn vera mikill í Árbænum ef þetta er ásættanlegt gengi hjá þessum mannskap.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Wednesday, August 04, 2004

Guttormur iðinn við kolann
Það þurfti ekki minna en sérstaka frétt í Fréttablaðinu í gær til þess að greina þjóðinni frá því að frægasta naut heimsins Guttormur hefði eignast afkvæmi. Er þetta þó ekki í fyrsta sinn sem Guttormi verður kálfi auðið því þetta mun vera sá 24. í röðinni. Í Húsdýragarðinum hefur loftið verið þrungið spennu vegna þessa og fram kom í fréttinni í gær að óskað hefur verið eftir nafni á kálfinn og var gefið upp netfang sem senda mætti tillögur á. Mér dettur nú ekkert frumlegra en Hjörleifur í hug.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Tuesday, August 03, 2004

Langþráð lækkun...loksins
Fékk loksins forgjafalækkun í gær sem ég hef beðið eftir í sumar. Fór úr 12,5 í 11,1 á Opna Carlsberg mótinu í GKG. Var á 81 höggi og fékk 41 punkt. Spilaði með Rögga pensli sem ekki var mjög brattur og lék á 88 höggum, en hann hafði leikið 45 holur daginn áður er hann sigraði í holukeppni í Víkinni. Punktarnir fleyttu mér í 2. - 4. sæti með forgjöf í þessu 180 manna móti og ég get ekki sagt að mér hafi leiðst það neitt sérstaklega að fá bjórkassa í verðlaun. Helsta ástæðan fyrir þessu skori er sú að ég notaði driverinn einungis einu sinni á hringnum, tók yfirleitt 5 tré af teig. Með driver hef ég verið að koma mér í vandræði í undanförnum mótum, en í þessu móti hitti ég um 67% brauta í upphafshöggum.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?