<$BlogRSDURL$>

Thursday, August 31, 2006

Orðrétt
Skemmtileg var hún, forsíðumynd Morgunblaðsins á mánudaginn. Þar mátti sjá hnúfubak stökkva upp úr sjónum, ef svo mætti segja, við nefið á spenntum gestum í hvalaskoðunarferð. Sagði í fréttinni að hnúfubakurinn hefði stokkið allt að 300 sinnum fyrir hópinn sem hefði verið „algerlega dolfallinn“. Allt virðist ganga hvalaskoðunarfyrirtækjunum í hag. „Allt stefnir í metsumar hjá hvalaskoðunarfyrirtækjunum á Húsavík og þannig segir Heimir Harðarson hjá Norður-Siglingu að ætla megi að fyrirtækið muna sigla með hátt í 30 þúsund farþega á þessu ári, sem væntanlega er met á landsvísu“, segir í frétt Morgunblaðsins og má samgleðjast hvalaskoðurum með árangurinn. Og þegar búið er að samgleðjast þeim, þá kemur að því að spyrja hvar þeir séu nú allir sérfræðingarnir sem fullyrtu hvað eftir annað að þessi nýja atvinnugrein yrði fyrir óbætanlegu tjóni ef leyfðar yrðu vísindaveiðar á hvölum. Hafa allir gleymt stóryrðunum og glamrinu sem látið var ganga yfir menn fyrir örfáum misserum? Af hverju eru þær hrakspár ekki rifjaðar upp?

Hvalaskoðunarsamtök Íslands sögðu að ákvörðun um vísindaveiðar væri „bein aðför að greininni“, verið væri að „fórna meiri hagsmunum fyrir minni“, ákvörðunin myndi „skaða ferðaþjónustuna á Íslandi almennt og hvalaskoðun með beinum hætti“. Samtök ferðaþjónustunnar mótmæltu eins og venjulega og skildu vitaskuld ekki af hverju ekki hefði verið haft samráð við samtökin áður en teknar væru ákvarðanir um vísindaveiðar á hvölum. Tuttugu og ein ferðaskrifstofa í Evrópu tók upp á því að skrifa undir yfirlýsingu um að vísindaveiðar á hvölum gætu haft „hörmuleg áhrif, ekki eingöngu á hvalina sem eru veiddir heldur eingöngu á blómstrandi hvalaskoðunarútgerð og íslenskt efnahagslíf í heild sinni.“

Nú hafa vísindaveiðar á hvölum verið stundaðar með ágætum árangri en að vísu án samráðs við Samtök ferðaþjónustunnar. Allt stefnir í metsumar hjá hvalaskoðunarfyrirtækjum og ætti það að segja meira en mörg orð um endalausar heimsendaspár „aðila á markaði“, sem alltaf virðast geta farið á taugum og telja sig auk þess hafa íhlutunarrétt um hvaðeina. Og það segir ekki síður sögu um íslenska fjölmiðla að enginn þeirra fylgir eftir löngum fréttum sínum af málflutningi hvalaskoðunarfyrirtækjanna þegar reynsla er komin á hrakspárnar.

-Vef-þjóðviljinn þann 24. ágúst 2006.

Tuesday, August 22, 2006

Allir kunna textann!
Verndari Bloggs fólksins vakti athygli mína á spaugilegu viðtali í hinu virta fréttablaði Fréttablaðinu. Þar var rætt við mann að nafni Helgi Valur Ásgeirsson og titlar hann sig trúbador. Þar segir þessi metnaðarfulli trúbador orðrétt: "Ég hef spilað mikið í partýum og þegar ég ætla að trylla gesti tek ég lagið Gin and Juice með Snoop Doog. Það er svo gaman að taka það því það kunna allir textann..."

Ekki efast síðuhaldari um það eitt andarblik að gestirnir tryllast þegar maðurinn spilar þetta lag óumbeðinn og ótilneyddur. Til dæmis hugsa ég að þessi maður yrði frá að hverfa í partýi á Traðarstígnum með svona hegðun. Hin fullyrðing hans um að allir kunni textann vefst hins vegar meira fyrir mér. Dettur mér strax einn maður í hug sem er nátengdur mér sem aldrei hefur heyrt minnst á Snoop Doog og hvað þá þetta lag sem mig minnir að ég hafi heyrt í endurgerð myndarinnar "Heaven can wait".

Verndari Bloggs fólksins kallar þennan Snoop Doog hinu skemmtilega íslenska nafni Snoppu Hvutti, og hvet ég alla íslenska fjölmiðla til þess að taka þessa þýðingu upp hið snarasta ef vilji er fyrir því að fjalla um þennan mann á annað borð. Verndarinn hefur reyndað verið nokkuð naskur á liprar þýðingar í tónlistarbransanum því hann snaraði Frankie goes to Hollywood slagaranum "Welcome to the pleasuredome" yfir á íslensku á sínum tíma. Hét það þá að sjálfsögðu: "Velkomin í Blesugróf" !!!

Athyglisverð grein hjá Illuga
Bendi á athyglisverða grein frá Illuga Gunnars um umhverfismál í miðopnu Moggans í dag. Greinin er reyndar svar við grein frá einhverjum sem kallar sig Dofri en honum fannst innlegg Illuga í umræðuna um umhverfismál vera hin mesta mengun.

Wednesday, August 16, 2006

Munnmælasögur#50
Þá er komið að sérstakri afmælisútgáfu í munnmælasögum og verður hér birt klassísk saga sem Hlynur Þór Magnússon rifjaði upp í viðtali við Ásgeir Þór Jónsson í héraðsfréttablaðinu Bæjarins Besta fyrir nokkrum árum síðan. Sagan er af Vestfirskum Gleðipinnum og gerðist á námsárum þeirra í Menntaskólanum á Ísafirði en ekki er víst að þeir kæri sig um hversu langt er síðan. Ég hafði nú ætlað mér að nota orðalag Hlyns en finn bara ekki blaðið í augnablikinu og því verður minniskubburinn að duga. Eru lesendur beðnir um að taka viljann fyrir verkið.

Á þeim tíma stóð sláturhús Kaupfélagsins á Ísafirði í niðurníslu og þótti mörgum þetta hálfgert lýti á bænum en húsið blasti við menntskælingum og öðrum sem stunduðu rúntinn. Húsið var algerlega ómerkt sem var nokkuð á skjön við venjur sambandsmafíunnar þar sem merki fyrirtækisins var jafnan áberandi. Eitt sinn þegar nokkrir Gleðipinnanna voru á rúntinum fengu þeir þá snilldarhugmynd að merkja húsið og vekja í leiðinni athygli á því hver bæri ábyrgð á þessu ljóta húsi. Ekki er talið að þeir sem þarna voru á ferðinni hafi verið neinir sérstakir aðdáendur samvinnuhreyfingarinnar en í blaðinu voru þeir Ásgeir Þór, Addi Árna, Jakob Falur, Jón Áki og HáEmm sérstaklega nefndir til sögunnar sem höfuðpaurar (HáEmm hefur reyndar neitað statt og stöðugt að eiga aðild að málinu). Einn morguninn þegar fólk var mætt til vinnu hafði húsið verið merkt á vægast sagt áberandi hátt. Var búið að skella Kaupfélagsmerkinu á húsið og undir merkinu var málað: "Sláturhús Kaupfélags Ísfirðinga. Sómi þess, sverð og skjöldur." Stjórnendur Kaupfélagsins brugðust afar skjótt við þessari óvæntu breytingu á húsinu og komu því snarlega í fyrra horf en þá höfðu hins vegar margir bæjarbúar borið þetta augum og haft gaman af. Sambandsmafían hafði hins vegar takmarkaðan húmor fyrir þessu og gerði þetta að lögreglumáli. Ekki er talið að þeim hafi runnið reiðin við að Vestfirska fréttablaðinu hafi fyrir einhverja tilviljun borist mynd af merkingunni. Var hún vitaskuld birt í blaðinu. Þetta æsilega sakamál komst ekki upp fyrr en því var ljóstrað upp í BB einhverjum fimmtán árum síðar og fyrning saka orðin staðreynd.

Tuesday, August 15, 2006

Hlynur Þór Magnússon
Ég rakst á óborganlega grein á Skessuhorninu eftir Hlyn Þór Magnússon fyrrum þýskukennara í MÍ. Hlynur er frábær penni og er þarna með snarpa neytendagrein. Seint í kvöld var ég að spá í að henda inn tímamóta munnmælasögu en þannig er mál með vexti að þessi sívinsæli dagskrárliður verður þá búinn að ná fimm tugum. Af því tilefni verður sérstaklega fræg munnmælasaga dregin fram í dagsljósið en áðurnefndur Hlynur hafði einmitt birt hana áður á síðum héraðsfréttablaðsins Bæjarins Besta. Þegar þið setjist fyrir framan tölvuskjárinn í fyrramálið þá hafið þið alla vega til einhvers að hlakka.

Sumarblogg
Bloggheimar eru tiltölulega rólegir yfir sumarvertíðina. Sjálfur hefur síðuhaldari verið fremur afslappaður í uppfærslum en reynir að koma jafnvægi á þetta með haustinu. Maður tekur líka eftir því að heimsóknir eru mun færri en á veturna. En Kalli Hallgríms er á góðri leið með að verða einn ferskasti sumarbloggari lands og þjóðar. Undanfarið hefur hann bæði rifjað upp skemmtilegar sögur úr boltanum í villta vestrinu og mælst til þess að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram í ríkisstjórn, með því skilyrði reyndar að hann verði undir verndarvæng vinstri grænna. Ég sá Kalla reyndar tilsýndar í Borgarnesi á miðvikudagskveldið en það er auðvelt að þekkja hann á göngulaginu. Þetta var í Hyrnunni og merkilegt fannst mér hvernig hann náði að halda takföstu göngulaginu með fullan matarbakka í fanginu. Ég náði ekki að kasta kveðju þar sem ég var að hoppa upp í rútu. Kíkið á Kalli(nn) - hann er hress.

Monday, August 14, 2006

Orðrétt
"Mikið hefur verið um návígi á báða bóga"
-Goðsögnin Bjarni Fel í lýsingu á leik Vals og ÍBV á íþróttarásinni um daginn.

Wednesday, August 09, 2006

Merkisdagur
Merkisdagur í dag. Á þessum degi 1851 stóð Jón Sigurðsson, Vestfirðingur og þekktur djammari í Köben, uppi í hárinu á sendiboða Danakonungs á Þjóðfundinum sem haldinn var í sal Lærða skólans. Mótmælti hann þar í nafni konungs og þjóðarinnar því ranglæti sem þar væri haft í frammi. Síðan þá hafa fjölmargir talið sig talsmenn þjóðarinnar og þá ekki síst ritstjóri Bloggs fólksins sem verður unglegri með hverjum deginum sem líður.
Guð blessi okkur öll.

Tuesday, August 08, 2006

Kúrahnjúkar og Óskar Bjartmarz
Hópur fólks sem kúrir sig í tjöldum á Kúrahnjúkum hefur tekist að gera einhvern Óskar Bjartmarz yfirlöggu á Egilsstöðum að frægasta manni á Íslandi! Það er afrek út af fyrir sig en þau hefðu þó ekki náð þessum árangri nema með dyggum stuðningi íslensks fjölmiðlafólks sem lítið hefur haft fyrir stafni í sumargúrkunni. Þeim hefur verið mikið í mun að gera mótmælunum hátt undir höfði og í einum fréttatíma NFS í sumar var aukinn þungi settur í fréttina með því að segja að fjölmörg tjöld væru á svæðinu. Ég veit svo sem ekki hvað það á að segja manni. Það eru líka fjölmörg tjöld á tjaldstæðinu við sundlaug Bolungarvíkur. Dregur NFS kannski þá ályktun að fólkið í tjöldunum sé að mótmæla störfum Gunnars Hallsonar í sundlauginni? Kannski hefur hann farið gróflega út fyrir verksvið sitt með því að taka upp gítarinn á föstudagsmorgnum? Þessi gítar hefur kannski aldrei farið í lögformlegt umhverfismat! Öll þessi tjöld hljóta að segja fréttamönnum eitthvað.

Wednesday, August 02, 2006

Silvio í góðu stuði
Á þessu myndbandi sést Silvio Berlusconi í góðu stuði en hann er frændi Eiríks einkaklippara frá Ítalíu. Trausti Salvar frændi hans Magnúsar sagði mér um daginn að Silvio hefði verið eitthvað nískur á múturnar fyrst um sinn í ítalska spillingarmálinu og þess vegna hefði Milan fengið harðan dóm. En Silvio bjargaði því að sjálfsögðu. Hversu svalir geta menn orðið?

This page is powered by Blogger. Isn't yours?