<$BlogRSDURL$>

Thursday, September 28, 2006

Orðrétt
"Þetta eru afar afskekkt svæði og fáfarin, nema helst af smalamönnum á haustin. Þangað er líka fremur fátt að sækja fyrir ferðamenn, nema þá til að skoða hreindýr og minjar um framrás Brúarjökuls. Hvort tveggja er þó aðgengilegt með auðveldari hætti annars staðar..."
- Hjörleifur Guttormsson í Árbók Ferðafélags Íslands 1987, um Kringilsárrana.

Brjósklos#3
Nú skal gripið niður í samtal síðuhaldara og Jóns frá Dröngum í vikunni:

J: Þarftu þá að fara í aðgerð?
S: Maður er ekki sendur í aðgerð nema maður geti ekki sofið á nóttunni.
J: Og getur þú það? (Auðveldlega mátti greina glott í gegnum símtólið)
S: Já enn sem komið er. Það er hins vegar spurning hvort svefn sé besta viðmiðið varðandi mig og hvort ég sem með verki.
J: Til þess að þú gætir ekki sofið þá þyrfti hryggurinn að falla saman!!!

Blogg fólksins óskar Jóni og Pálínu til hamingju með erfingjann.

Tuesday, September 26, 2006

Sperningin
Nú verður varpað fram sperningu til þess að reyna á heilasellur lesenda en sperningar eru gríðarlega vinsælar á bloggsíðum sem þessum. Deila má um hvort sperningin sé aðkallandi en skítt með það. Einn af þeim mönnum sem eru fastagestir í vissum fjölmiðlum er athafnamaður sem gjarnan er kallaður Kiddi Bigfoot en í dag sá ég hans rétta nafn í fyrsta skipti. Hvað heitir maðurinn réttu og fullu nafni?

Brjósklos#2
Já varðandi losið á brjóskinu þá leitaði ég til sjúkraþjálfara sem ég var hjá í boltanum í dentid eftir fjögurra daga verki. Að sögn vitna tók síðuhaldari verkjunum af æðruleysi þó svo að þeir hefðu verið nægir til þess að senda venjulegt fólk í rúmið. Það er nú önnur saga og fallegri. Rúnar sjúkraþjálfari sendi mig til Doktors Boga Jónssonar bæklunarskurðlæknis, sem áframsendi mig í sneiðmyndatöku í Domus Medica. Í myndatökunni fannst mér í fyrsta skipti á ævinni sem ég væri tilraunadýr hjá Nasa. Þá var sjúklingurinn tjakkaður upp og rennt inn í stærðarinnar tæki sem minnti einna helst á líkbrennsluofn. Ekki beinlínis eins og Kodak einnotamyndavélarnar.

Niðurstöðurnar voru svo bæði sorglegar og skemmtilegar. Brjóstklos á milli 4. og 5. hryggjarliðs, úrskurðaði Doktor nokkrum dögum seinna og bætti svo við óborganlegri greiningu: "Þú ert með þröng mænugöng" !!!!! Það er nefnilega það, ég er með þröng mænugöng, hvort sem mér líkar betur eða verr. Ég tjáði skjólstæðingi mínum Gunnari Sigurðssyni þetta og þegar hann mátti loks mæla fullyrti hann að þetta yrði hann með í prógramminu hjá sér á næstu 30 árshátíðum. Það finnst mér svo sem ekki skrítið. Það er eitthvað mjög kómískt við það að vera með þröng mænugöng. Hvað sem það nú þýðir. Kannski þýðir þetta að ég hafi fundið upp meiðsli sem Danni hefur ekki náð sér í?

Friday, September 22, 2006

Brjósklos
Stálið getur bognað en ekki brotnað.

Tuesday, September 19, 2006

Af barneignum
Verndari Bloggs fólksins: HáEmm, hefur sett hnefann í borðið og brugðist við fólksfækkun á Ísafirði með eigin ráðum. Eignaðist hann tvö börn í einu á dögunum og það með sömu konunni. Mun vera talað um tvíbura í slíkum tilfellum. Vitað er af einu dæmi að minnsta kosti um að til séu tvíburar frá Hnífsdal og er reynslan af þeim víst svona og svona. Ljóst má vera að frændur hinna nýfæddu tvíbura Pétur Magnússon og Jón Smári Jónsson séu búnir að setja sig í barnapíu-stellingarnar. Blogg fólksins óskar Dóra og Huldu til hamingju.

Sunday, September 17, 2006

Orðrétt
"Ég held að Tommy Lee sé misskilinn. Ég held að hann sé fínn gaur. Ég er líka viss um að allar þessar sögur um Lifrabólgu C hafa verið búnar til af CIA."
- Jón Góði Ólafsson hljómborðsleikari í Magnavöku á Skjá1.

Óhuggandi
Þingmenn Samfylkingarinnar, þau Margrét Frímannsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir og Jóhann Ársælsson hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér í komandi kosningum. Síðuhaldari er óhuggandi vegna þessa en reynir samt að rifja upp í gegnum tárin hvort þau hafi öll stutt Össur í formannsslagnum. Er Ingibjörg Pandóra frá Leiti byrjuð að hreinsa út? Hún er þegar laus við Guðmund Árna og spurning hvort Jóhanna sé næst?

Saturday, September 02, 2006

Orðrétt
"Það er viðbúið að frændurnir Guðmundur Birgir og Haukur Sigurbjörn hnipri sig saman og fái vægt taugaáfall þegar þeir lesa þessa færslu. Gummi sagði mér nefnilega frá þeirri óskemmtilegu reynslu sinni frá því á síðasta laugardag þegar þeir frændur höfðu ætlað sér að hitta Magnús Hauks og Ragnheiði á Kaffibrennslunni, þar sem þau voru að gæða sér á menningarnæturkræsingum. En það vildi ekki betur en svo að þeir frændur festust á leiðinni.

Jú Kristinn, þeir festust í mannþrönginni fyrir framan Landsbankann við Austurstræti þar sem fólk var komið saman til að hlýða á stórsveitina Mezzoforte. Þeir komust hvorki lönd né strönd, þeim var byrjað að líða mjög illa og Gumma var hugsað til hörmungana á Pearl Jam tónleikum á Hróaskeldu um árið. Þá fyrst fór að kárna gamanið þegar hljómsveitin hóf að leika hið gamalkunna lag "Garden party". Fólk æpti og skríkti. Þeir frændur örugglega líka. Að lokum var þeim það til happs að fólk fór að skekja sér að miklum mætti og losnaði því töluvert um þrengslin. Þeir voru æði fegnir að komast á Kaffibrennsluna í faðm Magga og Rönku sem beðið höfðu hin rólegustu við undirfagra fusion tóna Mexxoforte-manna, grunlaus um þá hörðu lífsbaráttu sem átti sér stað á sama tíma."
-Kriss Rokk bókaútgáfufrömuður í commentakerfinu á bloggi Kristinns Hermanns.

Munnmælasögur#51
Einar Þór Jónsson er annar af uppáhaldsbræðrum mínum. Hann er vel sigldur maður þrátt fyrir ungan aldur og næsta munnmælasaga átti sér stað á ferðum hans um heiminn.

"Einar var eitt sinn að spóka sig á söguslóðum í Aþenu. Hafði hann allan daginn fyrir sér og ætlaði sér að sjá eitt og annað í rólegheitunum í þessari merkilegu borg. Ung kona vindur sér skyndilega upp að honum og gefur sig á tal við hann eins og konur gera jafnan þegar Einar er annars vegar. Var hún hin viðkunnalegasta og Einar nýtti tækifærið og spurði hana um hina og þessa staði þar sem hún var nú innfædd. Fór það svo að hún þvældist með hann um borgina og sýndi honum athyglisverða staði og stiklaði á stóru í sögu borgarinnar. Einari fannst þetta fallega gert af henni en svo sem ekkert ótrúlegt því sjálfsagt hefði hann gert slíkt hið sama ef grískur ferðamaður hefði verið að þvælast í Bolungarvík. Þegar farið var að rökkva og þau búinn að eiga saman eftirminnilegan dag, fer viðmót konunnar nokkuð að breytast. Verður hún smám saman órólegri og aðgangsharðari við ferðamanninn sem varð fremur hvummsa. Á endanum kemur hún sér beint að efninu og spyr hvort Einar ætli ekki að fara að vinda sér í hennar aðalþjónustu og borga henni í kjölfarið svo hún gæti haldið vinnunni áfram. Var þá þarna á ferðinni starfskona í elstu atvinnugrein mannkynssögunnar og hafði innsæi hennar geigað þarna örlítið. Varð sú gríska víst ekki parhrifinn þegar Einar útskýrði fyrir henni að hann hneigðist til sama kyns en þakkaði henni pent fyrir skemmtilega kynningu á heimahögunum."

This page is powered by Blogger. Isn't yours?