<$BlogRSDURL$>

Friday, February 27, 2009

Skotleyfi fyrir HáEmm
Síðuhaldari varð fyrir því að skila inn BA ritgerð í janúar síðastliðinn. Sú aðgerð hefur nú dregið þann dilk á eftir sér að Kristín (sem spælir okkur egg) vill fyrir alla muni útskrifa síðuhaldara úr stjórnmálafræði á morgun. Eftir einungis tíu ára nám. Fyrir utan Frú Margréti þá hefur líklega engin sýnt þessari námsframvindu annan eins áhuga og verndari Bloggs fólksins; Halldór Magnússon. Þessu er hér með komið á framfæri og er honum nú frjálst að skopast að síðuhaldara á commentakerfinu, ekki það að hann hafi einhvern tíma þurft leyfi til þess.
Passið ykkur á myrkrinu.

Orðrétt
"Sama má segja um Baug, Norðurljós og Kaupþing. Byggist gagnrýni og eftir atvikum rannsókn á þessum fyrirtækjum á málefnalegum og faglegum forsendum eða flokkspólitískum?"

- Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í ræðu í Borgarnesi þann 8. febrúar 2003.

Thursday, February 26, 2009

Munnmælasögur#96
Nú verður boðið upp á eina bolvíska munnmælasögu sem ég hef oft heyrt en held að hafi ekki birst fyrr á prenti eftir því sem ég kemst næst. Í leiðinni eru lesendur aftur minntir á að Munnmælasaga#100 verður frábær. Farið því ekki langt eins og sagt er í sjónvarpinu.

"Hannibal Guðmundsson, var bóndi á Hanhóli á sinni tíð, en vann einnig í talsvert mörg ár í fyrirtæki föðurs míns í Víkinni. Hannibal var meðal annars þekktur fyrir að eiga sextán börn. Einu sinni sem oftar var alþingismaðurinn Þorvaldur Garðar Kristjánsson að vísitera í Bolungarvík en hann var þingmaður fyrir Vestfjarðakjördæmi. Vinsskapur var og er á milli hans og foreldra minna. Þorvaldur gisti því gjarnan heima hjá okkur á ferðum sínum um kjördæmið og karl faðir minn leiddi hann oft á tíðum á milli kjósenda. Eitt sinn bar svo við að þeir vinirnir voru að heilsa upp á starfsmenn fyrirtækisins. Þorvaldur þekkti kannski ekki alla Bolvíkinga með nafni en kveikti á perunni um leið og hann fékk einhverjar vísbendingar um hver viðkomandi væri. Þegar röðin var komin að því að heilsa upp á Hannibal þá hvíslar faðir minn að Þorvaldi: "Þetta er hann Hannibal. Sá sem á fimmtán börn þú veist." Hannibal heyrði greinilega til þeirra því hann spurði um leið: "Nú! Og hver á þá eitt???"

Orðrétt
"Jón Baldvin Hannibalsson vill andlitslyftingu í formannsstól Samfylkingar og feta þannig í spor Framsóknar með sinn nýja og ferska Sigmund Davíð. Ingibjörg Sólrún komin fram yfir síðasta söludag að mati hins gamla krataformanns. Helst vill Jón Baldvin að Jóhanna Sigurðardóttir taki við, en hún mun eiga lengstan starfsaldur núverandi þingmanna. Að öðrum kosti ætlar hann sjálfur í slaginn enda ekki nema rétt skriðinn á áttræðisaldur."
- Hlynur Þór Magnússon, blekbóndi, á bloggi sínu þann 19. febrúar 2009.

Wednesday, February 25, 2009

Hressandi frambjóðandi
Gera má ráð fyrir að þessi prófkjörssíða verði sú mest hressandi í þeirri prófkjörshrinu sem framundan er.
Passið ykkur á myrkrinu.

Tuesday, February 24, 2009

Orðrétt
"Hinn kunni dægurlagasöngvari og Morfísdómari, Þorbjörn Báruson eða Tobbi í Venus, hefur orðið uppvís að því að ræða um eiturlyf í síma við mann sem grunaður var um að eiga fullt af eiturlyfjum og selja þau til eiturlyfjaneytenda fyrir himinháar upphæðir.

Baggalútur hefur undir höndum eftirfarandi uppskrift að símtali milli Tobba (T) og eiturlyfjasalans (E):

T: Já er það Maggi.
E: Já.
T: Viltu koma?
E: Jájá.
T: Ég á ristað brauð með osti.
E: Noh - ég kem með sultuna!
T: Heyrðu komdu með heila krukku - strákarnir éta þetta allt.
E: Ókei. Bláberja?
T: Mja... eða hitt þarna þúveist... jarðarberja.

Samkvæmt heimildum Baggalúts í undirheimum Reykjavíkur er þar alkunna að ristað brauð þýði í raun heróín og sulta er þekkt launheiti fyrir krakk. Ekki er vitað hvaða áhrif hneykslið hefur á störf Tobba fyrir Morfís.

- Baggalútur þann 19. febrúar 2009.

Monday, February 23, 2009

Það er alltaf næsta ár
Blaðamannaverðlaunin voru afhent á dögunum. Þeir sem eru brjálaðir yfir því að síðuhaldara skyldu ekki hlotnast þessi heiður þurfa ekki að örvænta. Grein síðuhaldara um knattspyrnuferil Alberts Guðmundssonar birtist nefnilega ekki í Mogganum fyrr en 4. janúar 2009. Nú var hins vegar verið að verðlauna fólk fyrir árið 2008 og greinin því ekki gjaldgeng fyrr en að ári.
Passið ykkur á myrkrinu.

Orðrétt
"Árum saman hafa fjölmiðlamenn og álitsgjafar talað um að alþingi sé að "breytast í afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið". Þingmenn meti mál "ekki sjálfstætt", taki bara við málum og "stimpli", og "lesa ekki einu sinni málin".

Í dag gerðist það, að annar þingmaður Framsóknarflokksins vildi vinna frumvarp betur í þingnefnd. Ríkisstjórnin er bálreið. Forsætisráðherra titrar og skelfur í viðtölum. Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir er sárhneyksluð, vonsvikin og undrandi í fréttatímum og veltir fyrir sér öllum hugsanlegum möguleikum nema þeim að þingmaðurinn vilji einfaldlega vanda sig og ekki samþykkja illa unnið frumvarp.

Nú eru engar áhyggjur af því að þingið sé "afgreiðslustofnun". Nú er ekki talað um "flokksræði". Nei nú er hneyksli að þingmaðurinn stimpli ekki frumvarpið og haldi sér saman.

Í dag lýsti Jóhanna Sigurðardóttir seðlabankastjórafrumvarpinu sem "stóra málinu" hjá ríkisstjórninni. Íslenska ríkið samdi fyrir jól við alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ýmis ríki um veruleg lán. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn skilaði skýrslu á dögunum og taldi þar þróunina hafa síðan verið betri og hraðari en hann hefði búist við, og nefndi sérstaklega "skynsamleg inngrip Seðlabankans". Var skýrslan í raun mikið lof og prís um Seðlabanka Íslands, þó íslenskum fréttamönnum þyki það ekki fréttnæmt, sem er nær einsdæmi um álit að utan. Það er alveg ljóst að núverandi skipulag Seðlabanka Íslands kemur ekki í veg fyrir að Ísland fái lán, aðstoð og góð samskipti við erlend ríki og stofnanir. Engar efnahagsráðstafanir standa og falla með skipulagi Seðlabankans. Ofuráhersla ríkisstjórnarinnar og ekki síst Samfylkingarinnar á seðlabankastjórafrumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur er mikið rannsóknarefni, þó sú rannsókn verði að fara fram án íslenskra fréttamanna og álitsgjafa."

- Vef-þjóðviljinn í dag.

Sunday, February 22, 2009

Munnmælasögur#95
Nú er rúmur mánuður síðan þessi vinsæli dagskrárliður var uppfærður. Er verndarinn og líkamsræktarfrömuðurinn, Halldór Magnússon, ekki ánægður með þessa þróun. Hefur hann sagt félögum sínum í Stúdíó Dan að síðuhaldari sé hættur að nenna að skrifa munnmælasögur og birti þess í stað bara tölvupósta frá honum. Úr þessu skal nú snarlega bætt og um leið er athygli lesenda vakin á því að saga númer 100 verður frábær en þau tímamót nálgast nú óðfluga. Fylgist með.

"Í þessum dagskrárlið hefur áður verið sagt frá því þegar Vestfirskir Gleðipinnar fjölmenntu á SUS þing á Selfossi árið 1993 til þess að styðja Jónas Fr. Jónsson í formannsslag gegn Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Á meðal þeirra var Jón Áki Leifsson sem þá stundaði nám í Þýskalandi. Eldri systur Jóns fannst ekki koma til greina að hann héldi á þingið í leðurjakkanum sínum og splæsti þessum líka fínu jakkafötum á fátækan námsmanninn. Jón djammaði í jakkafötunum á þinginu eins og lög gera ráð fyrir á SUS þingi. Jón og Jakob Falur Garðarsson urðu hins vegar fyrir því óláni að rekast á harða stuðningsmenn Guðlaugs Þórs í einhverjum gleðsskapnum. Fór afstaða Jóns og Jakobs í formannskosningunum mjög fyrir brjóstið á mönnunum, sem fyrir vikið lögðu hendur á þá félaga og hentu þeim á kaf í heitan pott í ballfötunum. Hvers vegna mönnunum hefur þótt þetta vera vel við hæfi, er ekki gott að segja en það var heppilegt fyrir þá að þeir skyldu ekki hafa reynt þetta við Halldór Magnússon og Ólaf Sigurðsson sem einnig voru á þinginu. Jón var ljómandi lukkulegur með jakkafötin og var því eðlilega leiður yfir því hvernig komið var. Þegar Jón var kominn upp á hótelherbergi hengdi hann því jakkafötin samviskulega upp til þerris. Það kom því Jóni vægast sagt í opna skjöldu þegar jakkafötin reyndust ónýt þegar hann vaknaði daginn eftir. Kom þá í ljós að þegar Jón hengdi fötin upp kvöldið áður, þá hafði hann gleymt að fjarlægja bjórdósir sem hann var með í sitt hvorum vasanum!"

Friday, February 20, 2009

Orðrétt
"Eins og Vefþjóðviljinn nefndi í fyrradag, þá hækkuðu laun Steingríms J. Sigfússonar um kvartmilljón á mánuði vegna samþykktar "eftirlaunafrumvarpsins" árið 2003. Frá því lögin voru samþykkt hefur hann 61 sinni fengið þingfararkaup með 50% álagi sem formaður stjórnarandstöðuflokks. Vel á annan tug milljóna króna hefur runnið í vasa Steingríms J. Sigfússonar vegna frumvarpsins. Enginn þingmaður hefur borið meira úr býtum en Steingrímur J. Sigfússon vegna samþykktar "eftirlaunafrumvarpsins". Og nú kemur Steingrímur J. Sigfússon, sex vikum fyrir kosningar, þegar Alþingi á að ræða efnahagsmál, og vill slá sig til riddara með því að afnema öll ákvæðin sem lögleidd voru með "eftirlaunafrumvarpinu", nema reyndar það ákvæði sem 61 sinni hefur tryggt honum þingfararkaup með 50 % álagi."

- Vef-þjóðviljinn þann 19. febrúar 2009

Tuesday, February 17, 2009

Tröllakór
Óli Veltir er á landinu þessa dagana. Einhverjum þætti kannski viðeigandi að á meðan á dvöl hans stendur gistir Ólafur í Tröllakór.
Passið ykkur á myrkrinu.

Monday, February 16, 2009

Viskíbirgðirnar kláruðust
Talsverða athygli vakti að viskíbirgðir um borð í vél Icelandair kláruðust í áætlanaflugi fyrir um viku síðan. Hefði það ekki talist til tíðinda ef vélin hefði verið að koma til Keflavíkur frá Ástralíu. En vélin var hins vegar að koma frá Kaupmannahöfn sem er nú ekki ýkja langur flugtími. Síðuhaldari er hryggur yfir því margir skuli telja það skipta máli í þessu sambandi að Vestfirsku gleðipinnarnir, Halldór Magnússon og Ólafur Sigurðsson, skuli hafa verið um borð í vélinni. Það er auðvitað ekkert annað en einkennileg tilviljun.
Passið ykkur á myrkrinu.

Thursday, February 12, 2009

Orðrétt
"Stúlka að nafni Paris Hilton hefur látið í ljós þá ósk að semja tónlist og syngja með Paul McCartney. Væri þar komin tilvalin tenging milli fulltrúa nútímans og gamla tímans. Hún hefur ótakmarkað sjálfstraust, tjáir sig um allt og gerir sig reglulega að fífli á netinu. Hann var í Bítlunum."

- Vef-þjóðviljinn í dag.

Tuesday, February 10, 2009

Foringinn í dúfnakofanum !
Foringinn kíkti í kaffi til mín í dúfnakofann á Grandaveginum í gærmorgun. Íslenska götublaðið DV taldi reyndar að foringinn hefði verið í blokkinni við hliðina að heilsa upp á móður sína. Það er vissulega rétt að foringjamóðirinn býr í blokkinni hér við hliðina og því ágæt yfirbreiða á meðan við Davíð ákváðum næstu skref í heimsmálunum. Á myndinni sem birtist á dv.is sést reyndar í hornið á dúfnakofanum.
Passið ykkur á myrkrinu.

Monday, February 09, 2009

Orðrétt
"Allar gönguleiðir upp á fjöllum eru útskitnar því það eru ekki settir kamrar á gönguleiðir. Ég veit ekki hvern djöfulinn okkur liggur á. Hvað ætlum við að gera við eina milljón ferðamanna ef við erum ekki tilbúin að taka við þeim."
- Konráð Eggertsson, hrefnuveiðimaður, í stórbrotnu viðtali við Bigga Olgeirs á bb.is þann 6. febrúar 2009.

Frægðin
Erum við að meika það eða hvað?
Passið ykkur á myrkrinu.

Thursday, February 05, 2009

Orðrétt
Eins og menn muna fékk Baugur útflutningsverðlaun forseta Íslands í fyrra. En Baugur er ekki eina útrásarfyrirtækið sem hefur fengið þá maklegu viðurkenningu. Örfáum misserum áður fékk annað fyrirtæki, Kaupþing banki, þessi sömu verðlaun.

Það var fámenn dómnefnd sem ákvað að verðlauna Kaupþing fyrir þátt þess í útrásinni. Við afhendingu verðlaunanna kom fram hjá nefndinni að "Kaupþing banki fær verðlaunin fyrir þann árangur sem fyrirtækið hefur á skömmum tíma náð á þróuðum mörkuðum erlendis. Fyrirtækið fer fremst í öflugri útrás íslenskra fjármálafyrirtækja og hefur vakið athygli fyrir framsækinn og arðbæran rekstur. Djörfung og dugur einkenna fyrirtækið, starfsmenn þess og stjórnendur. Vöxtur fyrirtækisins hefur verið mjög ör undanfarin ár og hefur það gegnt lykilhlutverki í fjárfestinga- og viðskiptabankastarfssemi hér á landi. Síðustu ár hefur bankinn stóraukið starfsemi sína á erlendri grundu með stofnun dótturfélaga og kaupum á fjármálafyrirtækjum."

Kaupþing fær hér mikil verðlaun fyrir ákafa útrás og gríðarlegan vöxt sinn. Dómnefndin var fámenn en góðmenn og til að tryggja að fagleg sjónarmið réðu en ekki pólitískt ábyrgðarleysi og spilling, var fenginn fulltrúi viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands í nefndina. Það var að sjálfsögðu enginn annar en Gylfi Magnússon dósent sem settist í dómnefndina og verðlaunaði Kaupþing fyrir mjög öran vöxt og ákafa útrás, alnafni Gylfa Magnússonar baráttumanns, sem hefur í snjöllum útifundarræðum krafist þess að allir þeir sem einhvern þátt áttu í að illa fór í efnahagslífinu, haldi sig fjarri öllum "björgunaraðgerðum", og er jafnframt alnafni þess Gylfa Magnússonar sjáanda, sem fréttamenn segja jafnan að hafi séð allt fyrir, varað eindregið við útrásinni og einkum barist gegn stækkun bankanna.

- Vef-þjóðviljinn þann 4. febrúar 2009.

Wednesday, February 04, 2009

Rauðvín og nýja útvegsspilið
Í janúar fékk ég heimboð. Úthverfa Gvendur bauð heim til sín í spilakvöld en hann býr á Helliðsheiðinni. Nú skyldi "Vestfirzka kvótasvindlið" spilað sem er hugarfóstur þeirra Palla Ernis og Péturs Magg. Spilið seldist á við Arnald jólaflóðinu en ég hafði ekki komist í að prófa þetta nýja útvegsspil. Sá ég mér leik á borði og greip með mér rauðvínsflösku sem mér áskotnaðist fyrir að vera uppbyggilegur og jákvæður bloggari. Það var nú kominn tími til að maður fengi eitthvað sem líktist vegtyllum í þessum bloggheimum, fyrst að Ármann Jakobsson og Stefán Pálsson fá alltaf þessi íslensku bloggverðlaun.

Fyrirtækið Vín og matur er sem sagt með bloggmarkaðssetningu í gangi hjá sér. Bloggarar fá vín til þess að smakka og fjalla um og breiða svo fagnaðarerindið í faðm næsta bloggara. Frændi minn Stuðfinnur Einarsson, sem er nýorðinn pólitískur, skoraði á mig eftir að hafa birt skemmtilega færslu. Hann fékk sama vín til þess að fjalla um og ég. Amma hans, Mæja Haralds, átti setningu sem líklega á eftir að verða ódauðleg: Passar vel með öllu þó ekki kannski soðinni ýsu !

Ég get nú ekki státað af því að hafa boðið fráfarandi sjávarútvegsráðherra eins og Stuðfinnur gerði en það hefði óneitanlega verið vel við hæfi þar sem við vorum í nýja útvegsspilinu. Við vorum fjórir að spila og smakka rauðvínið; Gestgjafinn Guðmundur Gunnarsson fyrrverandi flugfreyjumaður, Trausti skírari sem er faðir og Jakob Þór Kristjánsson sem kemur úr Eyjafjarðarhreppi og er einn af okkar lærðustu mönnum. Kristjana sem kemur úr Skutulsfjarðarhreppi fylgdist með að allt færi eftir settum reglum þar til henni leiddist þófið og fór út á galeiðuna. Það tók okkur nefnilega eina fimm tíma að klára spilið og fyrir einhverja kaldhæðni örlaganna var það Eyfirðingurinn sem sigraði í Vestfirzka kvótasvindlinu. Eftiminnilegasta atvikið átti sér stað þegar spilið var um það bil hálfnað. Þá segir Trausti skírari: "Mér finnst ég vera farinn að finna illþyrmilega fyrir Gnáaráhrifunum" en hann átti þá íshús í fjórum bæjum en ekkert hráefni.

Vínið, Anima Umbra Rosso, rann hratt og örugglega ofan í menn. Ég svindlaði reyndar örlítið á vínreglunum því þessi týpa er fyrst og fremst hugsuð með mat. Ég gerði því þarna ákveðna tilraun því ýmislegt snakk var á borðum en ekki eiginleg máltíð. Trausti sagði vínið vera full braglítið fyrir sinn smekk. En þegar smekkur Trausta er skoðaður þá er hann mikill aðdáandi alls sem ítalskt er, og þegar ég tjáði honum að vínið væri frá Ítalíu fór hann í allt annan gír og fannst þetta alveg nógu bragðmikið. Úthverfa Gvendur hefur aldrei verið í vandræðum með að koma niður víni og hann var mjög sáttur eins og jafnan þegar hann er að drekka. Sama má segja um síðuhaldara. Þetta rauðvín rennur ljúflega niður en sjálfsagt er æskilegra að drekka það með mat eins sérfræðingarnir segja. Jakob bað mig um að biðja um fleiri flöskur og fleiri tegundir þegar röðin kæmi aftur að mér í þessum blogghring. Jakob ætlar að fjalla um vínið þegar hann fer í doktorsnám númer tvö.

Niðurstaðan var því sú að menn gengu sáttir frá glösum og flaskan kláraðist á nýju brautarmeti. Hugsuðu menn hlýlega til nefndarmanna sem sjá um úthlutun í drykkjustyrksnefnd Víns og matar. Ritstjórn Bloggs fólksins hefur komið sér saman um að skora á Skagasvelginn og blaðamanninn, Sigurð Elvar Þórólfsson, sem lætur gamminn geysa á Moggablogginu. Bloggar hann ósjaldan um þorstavekjandi fylleríssögur.

Passið ykkur á myrkrinu.

Tuesday, February 03, 2009

Framleiðendur brúnkukrems kætast
Nú held ég að sölumenn brúnkukrems geti farið að setja sig í stellingar. Það munu margir brúsar fara í þetta framboð.
Passið ykkur á myrkrinu.

Monday, February 02, 2009

Dýralæknir vs jarðfræðingur
Um nokkra hríð hafa ýmsir álitsgjafar verið uppteknir af því að fráfarandi fjármálaráðherra væri menntaður dýralæknir. Hefur á köflum verið fjallað með niðrandi hætti um þessa menntun og bent hefur verið á að þessi menntun sé ekki heppileg fyrir fjármálaráðherra. Gott og vel. Það er svo sem ekkert að því. En nú verður forvitnilegt að fylgjast með hvort þessir sömu álitsgjafar verði jafn uppteknir af því að benda á að núverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Bjarnfreðarson, sé jarðfræðingur. Munu þeir hafa áhyggjur af því að forsætisráðherra sé flugfreyja eða að umhverfisráðherra sé leikkona og að samgönguráðherra sé íþróttakennari?
Passið ykkur á myrkrinu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?