<$BlogRSDURL$>

Thursday, September 30, 2004

Ráðningin
Geir H.H.H. Harði er búinn að útnefna Jón Steinar (ekki frá Seljanesi) sem dómara í Hæstarétti. Óvildarmenn Jóns hafa sakað hann um að vera ekki í stakk búinn til þess að horfa fram hjá pólitík í dómarasætinu. Sé þetta rétt þá ætti maður kannski að huga að því að brjóta lögin og láta draga sig fyrir réttinn. Til dæmis væri ekki úr vegi að byrja á því að ganga í skrokk á eins og einum Aðferðafræðikennara.
Passið ykkur á myrkrinu og Aðferðafræðikennurum.

Orðheppni
Ég var á menningarlegu rölti í miðbæ Reykjavíkur kvöld eitt á dögunum með Gleðipinnunum Ásgeiri bróður og Dóra Magg. Einhverra hluta vegna kallar þá til okkar ókunngur maður sem virtist nokkuð við skál: "Passið ykkur á Hrauninu strákar, það er ekki skemmtilegur staður". Ásgeir svaraði um hæl: "Já þú ættir að þekkja það helvískur".
Passið ykkur á myrkrinu og Hrauninu.

Munnmælasögur # 1
Óskað hefur verið eftir því að blogg fólksins útskýri nánar afskipti Ragnars Bjarnasonar af Hagbarði Marínóssyni. Hélt ég satt að segja að þessa sögu þekktu all flestir lesendur Bloggs fólksins. Hef ég ákveðið að verða við þessari ósk og kynni í leiðinni stoltur til nýjann dagskrárlið: "Munnmælasögur".

Hagbarður er einn af mínum uppáhalds-Bolvíkingum; einstaklega skemmtilegur maður og yfirgengilega orðheppinn. Fyrir nokkrum árum var hann staddur í Reykjavík og leigði sér bíl hjá RB bílaleigu sem rekinn var af Ragnari Bjarnasyni stórsöngvara. Þegar Ragnar afhendir bílinn þá segir hann Barða frá því að hann þurfi að skila bílnum á umsömdum tíma þar sem bílinn fari strax í útleigu á ný. Fer hann fremur fínt í það að nefna við Barða að mikilvægur og traustur viðskiptavinur fái bílinn á eftir honum. Hann sé utan af landi og leigi alltaf hjá sér bíl þegar hann sé í bænum. Barði segir ekkert við þessu en þá bætir Ragnar því við að það myndi nú koma sér vel ef Barði myndi nenna að skola aðeins af bílnum áður en hann skilaði honum, þrátt fyrir að það sé ekki inni í leigusamningnum. Barði svarar að bragði: "Raggi! Ertu nú endanlega búinn að syngja þig vitlausann? Ég þríf sko ekki eitt eða neitt fyrir þig". Var málið þar með útrætt.
Passið ykkur á myrkrinu og bílaleigum.

Saturday, September 25, 2004

Svívirða
Þar sem ritstjóri Bloggs fólksins er mikið fyrir útiveru og holla hreyfingu, þá gekk ég framhjá Grenimel 30 á dögunum þar sem afi minn og amma í móðurætt, Kristján Þorvarðarson og Jóhanna Elíasdóttir bjuggu í ein 40 ár eða svo. Var mér verulega brugðið er ég staldraði við fyrir utan húsið. Var þar flennistór andlitsmynd af Bob Marley í einum glugganum! Fremur sérstakt, en þó lét ég það ekki pirra mig enda bara um listamann að ræða. En í glugganum fyrir ofan var flennistór mynd af fjöldamorðingjanum Che Guevara!!! Afi og amma voru vitsmunaverur og eiga þau betra skilið en að hafa slíka mynd hangandi í híbýlum þeirra til margra ára. Þetta er svívirðilegt, ég kann ekki við svona.
Passið ykkur á myrkrinu og fjöldamorðingjum.

Kóngurinn sjötugur
Blogg fólksins óskar Valdimari Víðissyni til hamingju með 70 ára afmæli Ragnars Bjarnasonar (einkavins Hagbarðs Marínósonar). Bjarnason mun víst vera með mikið tjúttipútt á Breiðvangi í kvöld. Samkvæmt heimildum Bloggs fólksins verður skólastjórinn á Grenivík staddur þar á fremsta bekk, ber að ofan og mun láta Bjarnason rita nafn sitt á kennaraprikið sitt. Bjarnason var driffjöðurinn í Sumargleðinni á sínum tíma en ég hélt mikið upp á Sumargleðina þegar ég var fimm ára, Valdimar hélt hins vegar enn upp á Sumargleðina þegar hann var TUTTUGU og fimm ára. Þess má til gamans geta að Bjarnason var einn af söngvurunum í Sigurlaginu eftir Skerið.
Passið ykkur á myrkrinu.

Tuesday, September 21, 2004

Hróðurinn berst víða...líka um háloftin
Nýtt tölublað er að koma út hjá tímaritinu Ský sem boðið er upp á um borð í Fokker50 vélum Flugfélags Íslands. Þar liggja tvær greinar eftir ritstjóra Bloggs fólksins. Áhugasömum lesendum er bent á að panta sér flugfar hjá Frú Margréti Kristjánsdóttur umboðsmanni Flugfélagsins í Bolungarvík.
Passið ykkur á myrkrinu.

Hómer for president
Blogg fólksins spáir því að Hómer Guðjónsson fyrirliði FH verði nú loksins kjörinn knattspyrnumaður ársins en hann hefði átt að vera kjörinn árið 1996 þegar sá heiður hlotnaðist Gunnari Oddssyni ef ég man rétt. Ætli sá efnilegasti verði ekki kosinn Emil Hallfreðsson.
Passið ykkur á myrkrinu.

Wednesday, September 15, 2004

15.september
Jæja þá er 15. sept genginn í garð og G. Bjöss vinur minn ekki lengur landsfrægur fyrir að vera tengdasonur Utanríkisráðherra heldur tengdasonur Forsætisráðherra. Nú er skemmtilegt að rifja upp ýmsar fullyrðingar sem hafa verið látnar flakka varðandi Davíð Oddsson. Til dæmis var fullyrt að hann myndi aldrei láta Forsætisráðuneytið af hendi á meðan hann væri enn í pólitík og myndi semja við þann flokk sem myndi leyfa honum að halda dauðahaldi í þann stól. Sú spá fór fyrir lítið þegar Davíð og Halldór sömdu eftir síðustu kosningar og ákveðið var að skipta Forsætisráðuneytinu. Þá fullyrtu margir að Davíð myndi aldrei setjast í annað ráðherraembætti og myndi aldrei starfa undir öðrum Forsætisráðherra. Nú hefur sú spá einnig fokið út í veður og vind. Það er því ekki beinlínis þannig að hér séu Nostradamusar á hverju strái í þjóðmálaumræðunni.
Passið ykkur á myrkrinu.

Tuesday, September 14, 2004

Orðrétt
En eins og allir vita þá var 11. september í fyrra.
-Henry Birgir Gunnarsson á Sýn á sunnudagskvöldið.


Wednesday, September 08, 2004

Leiðindi í Laugardal
Ég fór nokkuð vongóður á völlinn síðastliðinn laugardag til þess að fylgjast með landskappleik Íslendinga og Búlgara í knattsparki. Var þetta með því leiðinlegra sem ég hef horft á í gegnum tíðina og var ég þó mættur í Laugardalinn árið 1987 þegar Íslandi tapaði 0:6 fyrir A-Þýskalandi. Íslenska liðið var álíka slakt og búlgarski þjóðsöngurinn og voru félagar mínir Dóri Mag og Jón Áki á því að þessum tveimur tímum hefði verið mun betur varið í eitthvað annað.
Passið ykkur á myrkrinu.

Sunday, September 05, 2004

Klókindi
Atli Gíslason lögmaður var einn af fimm einstaklingum sem DV spurði álits á því hver ætti að verða næsti Þjóðleikhússtjóri. Atli svaraði því til að ráða ætti hæfa konu til starfans. Á lista umsækjenda er að finna hæfa konu sem er hinn athyglisverði þingmaður Kolbrún Halldórsdóttir. Það vill svo skemmtilega til, að fái hún starfið þá þarf hún að láta af þingmennsku. Er þá kallað í varaþingmann hennar til þess að sitja út kjörtímabilið. Og hver skyldi vera hennar varamaður, jú svei mér þá: Atli Gíslason lögmaður. Einfalt, ekki satt?
Passið ykkur á myrkrinu.

Saturday, September 04, 2004

Stolið frá höfundi viðtalstækninnar
Þar sem ég og Jónas Jónasson útvarpsstjarna notumst við sömu rakarastofuna þá ætla ég að breyta lokaorðunum í pistlunum mínum og fá lánað hans ódauðlegu: Passið ykkur á myrkrinu - þar til að það fer að vora.

Vindmyllur og tréklossar
Kristinn Hermanns er farinn til náms í Niðurlöndum þar sem hann hyggst leggja stund á framhaldsnám í Hagfræði í Maastricht. Þeir sem vilja fylgjast með afdrifum kappans bendi ég á rafrænt tilverustig hans þar sem reynslusögur eru byrjaðar að detta inn. Ég sá um daginn að Kristinn var í ritnefnd fyrir blaðið sem kom út vegna ráðstefnunnar Með höfuðið hátt. Hef ég hann sterklega grunaðann um að vera höfundur hins lygilega fyndna stjörnukorts sem þar er að finna. Sé einhver að lesa þetta sem ekki hefur séð blaðið, þá er stjörnukortið alger skyldulesning. Annað sem gladdi mitt litla blogghjarta var að vitnað er í blogg fólksins í blaðinu undir liðnum Vestfirskt blogg. Það sér því vart fyrir endann á velgengni þessarar bloggsíðu.
Passið ykkur á myrkrinu.

Orðrétt
Konur eru ofmetnar
-Kristinn Hermannsson yfir bjórglasi í ágústmánuði.

Thursday, September 02, 2004

Var Kraftaverk ekki best eftir allt saman?
Um miðjan níunda áratuginn varð til hljómsveit í Grunnskóla Bolungarvíkur sem bar nafnið Kraftaverk. Náði hún ákveðnum hápunkti er hún kom fram í sjónvarsþættinum Stundin Okkar og flutti slagarann Kraftaverk. Þrátt fyrir miklar vinsældir varð þessi hljómsveit ekki sérstaklega langlíf. Í þessu lagi kom fyrir setningin: ,,Við leggjum okkur hart í að koma okkur í party og kvennafar.´´ Ástæðan fyrir þessari nauðsynlegu menningarlegu upprifjun er sú að ég hlusta mikið á útvarpsstöðina Stjarnan 94,3 sem spilar eingöngu íslenska tónlist. Þar rekst maður á ófáa gullmolana og nú um stundir er til dæmis lagið Prins Poló leikið grimmt. Lagið er líklega um 25 ára gamalt og er með fjöllistahópnum Sumargleðin sem einmitt er uppáhaldshljómsveit skólastjórans á Grenivík. Í laginu kemur þessi setning fyrir ,,Við leggjum okkar hart í að koma okkur í party og kvennafar, en mér er svo sem sama ef ég fæ Prins Poló´´ Sem gömlum Kraftaverk aðdáenda var mér vitanlega nokkuð brugðið er ég heyrði þessa setningu. Eftir talsverða upprifjun er ég handviss um að Sumargleðin hafi verið fyrri til með þessa kjarnyrtu setningu og því spurning hvað poppararnir í Kraftaverk hafi sér til málsbóta. Æskilegt væri að Þorlákur, Stebbi, Jónas Vilhelms eða Elli Kristjáns tjáði sig um málið hér á síðunni, svona í ljósi alvarleika málsins. (Man ekki hverjir fleiri voru í bandinu, en rámar eitthvað í Hjalla og Kristján Júl).
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?