<$BlogRSDURL$>

Wednesday, November 30, 2005

Gullkindin 2005
Verðlaunahátíðin Gullkindin er ágætis framtak. Þó þetta virki svolítið sem einn költ hópur að gera grín að öðrum, þá er nú samt ágætis húmor í þessu. Hérna er linkur á verðlaunahafa þessa árs. Ég er bærilega sáttur við niðurstöðuna. Gaman að segja frá því að sjónvarpsmaður ársins getur státað sig af því að vera skyldur eiganda Hjallsins í Borgarnesi. Er ánægðastur með að auglýsingar fyrir þáttinn Sirrý hafi fengið verðlaun sem auglýsingaherferð ársins. Það fer sumu fólki einfaldlega ekki að reyna að vera fyndið.
Passið ykkur á myrkrinu.

Tuesday, November 29, 2005

Þjóðmál
Mér finnst rétt að vekja athygli á tímaritinu Þjóðmál sem hafið hefur göngu sína. Ritstjóri þess er Jakob F. Ásgeirsson sem einmitt á ættir að rekja í Víkina, en faðir hans Ásgeir Jakobsson ritaði ævisögu Einars afa. Fyrsta blaðið kom út um daginn en stefnt er að því að það komi út fjórum sinnum á ári eða á þriggja mánaða fresti lauslega reiknað. Eftir að hafa lesið fyrsta blaðið þá mæli ég hiklaust með því að þenkjandi fólk kíki á þetta. Mikið af fínum greinum um pólitík fyrir þá sem hafa áhuga á slíku. Um þessar mundir er verið að safna áskrifendum, bæði hjá útgáfufélaginu Ugla og á www.andriki.is.
Passið ykkur á myrkrinu.

Monday, November 28, 2005

Munnmælasögur#35
Jón Smári Jónsson vinur minn frá Ísafirði hefur afskaplega takmarkað umburðarlyndi gagnvart grænmetisætum. Hefur hann margoft bent á að tennur séu til þess að tyggja kjöt. Jón tarfur er nú formaður í nemendafélagi við Háskóla Eyjafjarðar þar sem hann stúderar Ödipusarduld. Um daginn var svokallað Galakvöld hjá háskólanemum en þegar búið var að bera kræsingar á borð gaf ein skjátan sig á tal við hann og spurði hvort ekki væri gert ráð fyrir grænmetisætum í matnum. Jón svaraði því játandi og sagðist örugglega hafa séð eitthvað salat og svoleiðis meðlæti á borðum. Spurði skjáta þá hvort ekki væri eitthvað annað og meira til eins og sojakjöt eða þess háttar. Jón muldraði eitthvað í hálfum hljóðum og hreytti svo í hana þannig að drundi í Hlíðarfjalli: "Ég skal athuga hvort ég finni ekki Kínakálshaus einhversstaðar í ísskápnum!"

Wednesday, November 23, 2005

Ég í Íslandinu
Hljómsveitin Ég var í Íslandi í dag í gærkvöldi. Þar var frumflutt nýtt myndband með nýjasta singulnum sem heitir ósköp einfaldlega "Kaupið plötu ársins". Kíkið á þátinn á VefTv. Ég verður með tónleika hjá Sigga Hólm/Arnold á Gauki á stöng í kvöld ásamt Mammút klukkan 22.
Passið ykkur á myrkrinu.

Sýn 10 ára
Sýn; besta sjónvarpsstöð í heimi á 10 ára afmæli um þessar mundir. Af því tilefni var sérstakur afmælisþáttur um daginn. Hann var svo sem ágætur, til dæmis hefur Arnar Björnsson ekki sést hlæja jafn mikið í annan tíma. Það vakti athygli mína að fyrir þáttinn voru ýmsir erlendir íþróttamenn fengnir til þess að óska stöðinni til hamingju. Þar voru stórfrægir kappar á borð við Luke Donald en einnig minni spámenn sem færri þekkja eins og Arsene Wenger og Ian Rush.
Passið ykkur á myrkrinu.

Monday, November 21, 2005

Munnmælasögur#34
Körfuknattleiksmaðurinn Jeb Ivey sem leikur nú með Njarðvík kom til Íslands til þess að leika með KFÍ fyrir um þremur árum síðan. Lék hann hálft tímabil með KFÍ en hvarf á braut um áramót vegna dularfullra veikinda. Ivey hafði staðið sig feykilega vel en árangur liðsins stóð þó ekki undir væntingum. Töldu margir að meint veikindi væru einungis afsökun fyrir því að flýja af hólmi. Fengu þær raddir byr undir báða vængi þegar hann gekk til liðs við Fjölni sumarið eftir, þá fullfrískur. Þegar beiðni hans kom upp á Ísafirði um árið var hann leystur undan samningi, en hins vegar fundaði KFÍ stjórnin um það hvort greiða bæri fjargjaldið undir hann heim til Bandaríkjanna. Okkar maður Halldór Magnússon sat þá í stjórn KFÍ og fannst heldur lítið til veikinda Ivey koma. Stjórnarmenn funduðu íbyggnir um það hvernig bæri að standa að brottför Ivey þannig að honum væri réttmætur sómi sýndur. Voru flestir þeirra á því að veikindin væru til staðar og greiða ætti fyrir hann flugfar heim. Halldór stakk hins vegar upp á tjöru og fiðri.

Friday, November 18, 2005

Magga Scheving ógnað?
Síðuhaldari hefur áttað sig á þeirri óumflýjanlegu staðreynd að hann eldist eins og annað fólk. Þegar þessi hugsun heltekur síðuhaldara grípur hann gjarnan til þess ráðs að kynna sér hvað Playstation kynslóðin hefur fyrir stafni. Nú til dags er unga fólkið upp til hópa að taka persónuleikapróf á Netinu. Síðuhaldari ákvað því að gera slíkt hið sama og er hann hræddur um að einhverjum af hans traustustu lesendum kunni að finnast niðurstöðurnar í fyndnara lagi svo ekki sé fastara að orði kveðið. Niðurstöðurnar úr Tröllaprófinu eru eftirfarandi:



Íþróttaálfur


Þú ert vanaföst, yfirveguð félagsvera.


Arnold Schwarzenegger er vanaföst, yfirveguð félagsvera. Það er því ekki leiðum að líkjast. Íþróttaálfurinn býr sko ekki í Latabæ (LazyTown TM). Hann tekur til fótanna, án þess að vera að missa af strætó og þótt enginn sé að elta hann. Hann er hrókur alls fagnaðar í heita pottinum og er jafnvígur í flugsundi og að troða marvaða. Rétt eins og Tortímandinn er íþróttaálfurinn marksækinn og staðfastur. Ekkert fær hann stöðvað.



"Áfram Latibær, I'll be back!"



Hvaða tröll ert þú?

Jahá þar hafið þig það. Don´t be economic girlie men.
Passið ykkur á myrkrinu.

Orðrétt

Fjölpóstur!
Óska eftir að kaupa allan fjölpóst merktan eða með myndum af Kjartani Magnússyni. A.v.á.

-Tilkynning á Baggalúti

Thursday, November 17, 2005

DJ Base á vaktinni
Tæknilegur guðfaðir Bloggs fólksins réðist í tæknimál varðandi síðuna í dag og ætlar sér að finna út úr því hvað veldur tæknilegum erfiðleikum. Ég er ekki frá því að hraðinn á síðunni hafi skánað töluvert eftir að hann tók til hendinni. Ekki veit ég hvað var að þessu enda passa ég mig á því að fikta ekki í hlutum sem ég skil ekki. Ég trúi á verkaskiptingu ósýnilegu handarinnar hans Adams Smith, en hann hefði aldrei lagt til að síðuhaldari beitti sér í tæknimálum.
Passið ykkur á myrkrinu.

Ljóðahornið Mósaíksglugginn#8
Það er kominn tími til þess að uppfæra ljóðahornið og leyfa höfuðsnillingnum Leoncie að komast að en eftirfarandi eru upphafslínur úr smelli hennar Ást á pöbbnum:

"Hún hitti hann á pöbb eitt kvöld
á Country pub í Reykjavík.
Hún starði á hann mjög ákveðinn.
Hann glápti á móti dauðadrukkinn.
Hún kinkaði kolli og blikkaði hann.
Hann var dáleiddur af allann Vodkann.
Hann fór til hennar og sagði
hvar hann var frá.
Hún sagði "Veistu hvað?"
Við höfum sameiginlegt
því við komum bæði frá Kópavogi."

Wednesday, November 16, 2005

Hraðinn í bloggheimum
Ástandið í bloggheimum hefur verið erfitt undanfarna daga. Þá sérstaklega hér á Bloggi fólksins þar sem ýmist hefur verið illmögulegt eða ómögulegt að komast inn á þessa ágætu síðu. Annað hvort liggur síðan niðri eða er fáránlega svifasein. Ég hef kíkt inn á aðrar síður hjá blogspot og þær virka fínt. Getur verið að síðuhaldari eigi sér óvildarmenn? Getur verið að andstæðingar síðuhaldara hafi hakkað sig inn í bloggheima og gert málgagnið óvígt? Ef ekki verður breyting á verður Jón Bjarni settur í málið.
Passið ykkur á myrkrinu.

Saturday, November 12, 2005

Vissir þú...?#2
Vissir þú að fyrst voru lagðar fram hugmyndir í ríkisstjón um að breyta rekstri Þjóðhagsstofnunar árið 1983? Vissir þú að Davíð Oddsson tilkynnti á fundi í Seðlabankanum að Þjóðhagsstofnun yrði lögð niður og starfsemi hennar færð til ári áður en stofnunin gagnrýndi stjórn efnahagsmála? Engu að síður er ekki annað að skilja á öllum íslenskum fjölmiðlum nema einum, að stofnunin hafi verið lögð niður í reiðiskasti fyrrverandi Forsætisráðherra!

Thursday, November 10, 2005

Munnmælasögur#33
Ritstjórn Bloggs fólksins hafa borist fjölmörg aðdáendabréf þar sem sérstaklega er hvatt til þess að birta fleiri afrek Vestfirskra Gleðipinna, og þá sér í lagi ef Ásgeir Þór Jónsson eða Halldór Magnússon verndari koma þar við sögu. Ritstjórnin hefur ákveðið að verða við þessari beiðni.

Í villta vestrinu er hefð fyrir því að mönnum séu gefin gælunöfn. Leigubílstjóri að nafni Flosi fór ekki varhluta af þessu og gekk iðulega undir nafninu Flosi táfýla, þó kannski væri það ekki endilega sagt fyrir framan hann. Eitt sinn tekur hann Gleðipinnana Halldór og Jón Áka Leifsson upp í í miðbæ Ísafjarðar, en þeir höfðu þá gert sér dagamun og farið á ball í Sjallanum. Leið lá út í Hnífsdal í miklum vetrarkulda og Flosi með miðstöðina í botni. Á miðri Eyrarhlíðinni gat Jón Áki ekki setið á sér lengur og spyr hvellhátt: "Flosi! Hvaða fnyk leggur hér um vit?" Áður en leigubílstjórinn gat brugðist við var Halldór búinn að bæta um betur: "Ja, ekki er það rakspírinn hans!" Þurftu þeir félagar að fara restina af leiðinni fótgangandi.

Monday, November 07, 2005

Orðrétt
"Sjálfstæðisflokkurinn hélt síðast prófkjör vegna borgarstjórnarkosninga fyrir átta árum. Eftir prófkjörið, hinn 28. október 1997, skrifaði Vefþjóðviljinn svo:
Eins og við mátti búast bættust nokkur hundruð nýir félagar við félagatal Sjálfstæðisflokksins í prófkjörinu um helgina. Alltaf er eitthvað um óvæntan liðsauka. Að þessu sinni vakti nýskráning Hrafns Jökulssonar, varaþingmanns af Suðurlandi, mesta athygli. En Hrafn sagði sig úr Alþýðuflokknum fyrr á þessu ári.

Það er svo nokkuð skemmtilegt að nú, átta árum síðar, var það nýskráning Illuga Jökulssonar, bróður Hrafns, sem mesta athygli vakti. Hljóta pólitísk sinnaskipti Illuga að vekja nokkra athygli, enda þarf ekki að efast um að það hljóta að vera breyttar skoðanir sem ráða ferð hans enda Illugi annálaður prinsippmaður sem ekki sækir um inngöngu né reynir að hafa áhrif á frambjóðendaval annarra flokka en hann styður."
- Vef-þjóðviljinn þann 7. nóvember 2005 á www.andriki.is.

Niðurstaða
Það er komin niðurstaða í framboðsmál D-listans í Reykjavík. Til að fara aðeins yfir það sem snýr að Kjartani, þá getur hann vel við unað. Þegar lagt var af stað í prófkjörsbaráttuna þá voru fjórir aðilar að sækjast eftir sætum ofar en hann og honum tókst að setja einn af þeim aftur fyrir sig. 3. sætið hefði verið frábært en 4. er engu að síður mjög gott. Kjartan hefur þá færst upp um tvö sæti frá síðasta framboðslista og er að stimpla sig inn í forystusveitina í borgarmálunum. Auk þess er tölfræðin jákvæð fyrir hann, því í heildina fékk hann næst flest atkvæði í prófkjörinu á eftir Hönnu Birnu.
Passið ykkur á myrkrinu.

Friday, November 04, 2005

Fyrri kjördagur
Þá er kjördagur hinn fyrri runninn upp. Hægt er að kjósa í Valhöll í dag frá 12-21 og hægt er að skrá sig í flokkinn á staðnum ef áhugi er fyrir því. Það er jafnframt hægt á morgun laugardag, en þá er kosið í hverfunum frá 10-18. Í fréttum Rásar2 klukkan 18 á laugardag er búist við fyrstu tölum og svo aftur í Íslandi í dag. Niðurstöður ættu að liggja fyrir undir miðnætti ef ekki koma upp deilur um vafaatkvæði eða slítk. Minn frambjóðandi; 3Kjartan, fær einstaklega góð viðbrögð hjá flokksmönnum en hins vegar verður erfitt að landa 3. sætinu þar sem fjórir eru að sækjast eftir sætunum tveimur fyrir ofan hann. Jafnframt vona ég að Gísli, vinni og að Tobba, og Eggert, nái sínum markmiðum.
Passið ykkur á myrkrinu.

Thursday, November 03, 2005

Nýr tónn?
Undanfarið hef ég heyrt ýmsa spá tímaritinu Sirkus skammlífi. Ég hef lítið lesið þetta blað og er ekki dómbær á hversu öflugt það er. En þó gluggaði ég í það um daginn á Quiznos og hrasaði þar um grein þar sem kvað við nýjan tón í feminískri umræðu á Íslandi. Þar var viðtal við unga konu sem var fáklædd á myndunum og sagðist vera hnakkamella (fyrir gamla lesendur eins og mig væri ekki verra ef orðabók eða skýringar fylgdu viðölum sem þessum). Viðtalið var satt að segja frekar hressandi innlegg í blaðaflóruna enda hafði þessi stelpa skoðanir á öllu milli himins og jarðar. Sparaði hún ekki yfirlýsingarnar um menn og málefni og velti í leiðinni upp mjög aðkallandi sperningu: "hvaða stelpa vill ekki vera eins og París Hilton?" Jafnframt fékk R-listinn pillu frá henni þar sem hún kom með nýyrði yfir holræsagjaldið fræga sem hún kallaði "kúkaskatt". Hún var ekki mjög upptekinn af því að tugir þúsunda kynsystra hennar hefðu þrammað ofan í bæ í hörkugaddi með slagorðum og bráttusöng. En hún lýsti hins vegar áhyggjum sínum af því að Hverfisbarinn væri að breytast í algert barnaheimili eins og hún orðaði það.
Passið ykkur á myrkrinu.

Tuesday, November 01, 2005

1. nóvember
Knattspyrnustjóri Blackburn Rovers á afmæli í dag. Blogg fólksins óskar honum til hamingju með daginn.
Passið ykkur á myrkrinu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?